26.03.1980
Sameinað þing: 38. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1500 í B-deild Alþingistíðinda. (1431)

116. mál, fjárlög 1980

Frsm. meiri hl. (Eiður Guðnason):

Herra forseti. Ég átti ekki von á því að hæstv. fjmrh. hagaði orðum sínum á þann veg, að það gæfi tilefni til andsvara, en ýmislegt af því, sem hann sagði, verður þess valdandi að ég finn mig knúinn til að segja fáein orð. Og vilji hann halda þessum umræðum áfram eitthvað fram eftir, þá er sjálfsagt að verða við því.

Hæstv. fjmrh. sagði að þær till. Alþfl. til breytinga á fjárlagafrv., sem ég gerði grein fyrir í dag, væru hreinar málamyndatillögur. Það fór reyndar, að mér fannst, ekki afar mikið fyrir rökstuðningi við þá fullyrðingu. Jú, hann minntist á tekjur Áfengisverslunarinnar og áætlun um hvernig hagnaður þess fyrirtækis mundi þróast. Í þessum till. er gert ráð fyrir að menn verji svipuðum hluta af launum sínum til viðskipta við þetta fyrirtæki og verið hefur fram til þessa.

Ráðh. ræddi sérstaklega um tekjuskatta af félögum. Ég benti á í dag, að frv. hans gerir ráð fyrir að tekjuskattur félaga nemi 10 milljörðum kr., en í fjárlagafrv. Alþfl. var reiknað með 10.8 milljörðum kr. Það getur svo sem verið afsakanlegt, að ráðh. hafi ekki lesið eigið frv. nægilega vel. A.m.k. benti ýmislegt af því, sem hann sagði áðan, til þess að hann hafi ekki lesið það sem stendur á bls. 176 í aths. við þetta frv. og ég ætla að leyfa mér, með leyfi forseta, að hafa hér yfir, það eru fáar línur. Það stendur:

„Er hér reiknað með að álagður tekjuskattur félaga 1980 verði 10.8 milljarðar og að innheimta skattsins nemi 10 milljörðum kr. að innheimtu eftirstöðva meðtalinni.“

Síðar segir hér:

„Áhersla skal á það lögð, að þær áætlanir, sem hér hefur verið getið um tekju- og eignarskatta, eru ekki reistar á grunni nýju skattalaganna; hér er um að ræða viðmiðunartölur gerðar á grundvelli eldri laga og í þeim felst því ekki mat á álagningarreglum hinna nýju laga.“

Ég hygg að ráðh. hefði hagað orðum sínum svolítið á annan veg áðan ef hann hefði verið búinn að kynna sér þetta. (Fjmrh.: Það held ég ekki.) Nei, það er þá mál ráðh. hvort hann tekur tillit til þess sem stendur í eigin frv. hans eða ekki.

Hæstv. fjmrh. vék að Lánasjóði ísl. námsmanna og þeim miklu hækkunum sem þar eru ráðgerðar. Till. Alþfl. gera ráð fyrir að ráðstöfunarfé þessa sjóðs aukist jafnt og verðlag hækkar milli ára. Hins vegar skil ég vel erfiða aðstöðu hæstv. núv. fjmrh., sem í sínu fyrra embætti sem menntmrh. lofaði námsmönnum heldur miklu og er nú að standa við það sem fjmrh. Það er að sínu leyti virðingarvert. Hins vegar held ég að flestir hljóti að vera um það sammála, að þessi hækkun er úr böndum, er úr samræmi við allar aðrar tölur í þessu frv., og ég hygg að þetta séu hlutir sem verði að segja og verði að viðurkenna. Það verður að hafa það, þótt sumum námsmönnum falli það miður. Eins og ég sagði í dag og endurtek gjarnan þurfa námsmenn vissulega stuðning. En ég held að það þurfi ekki allir námsmenn allan þann stuðning sem þarna er gert ráð fyrir. Þar að auki verður að gera þá kröfu, að þessi lán séu innheimt og þau séu greidd, og að þau séu greidd til baka í jafnstórum krónum og krónurnar voru sem fengnar voru að láni.

Í þessum till., sem hæstv. ráðh. kallaði málamyndatillögur, sýndartillögur og sitthvað fleira, er till. um 4 milljarða kr. til jöfnunar á húshitunarkostnaði. Einhverra hluta vegna valdi ráðh. þann kostinn að minnast ekki á hana. Þó var í þeim fjárlagafrv., sem lágu fyrir þegar hann settist í stól fjmrh., ætlað að verja til þessara hluta 2.3 milljörðum kr., en sú upphæð hefur verið tekin og til annars notuð. Það er ekkert um það vitað enn, hver afstaða hæstv. ráðh. og ríkisstj. er í rauninni til þessa máls, þar sem því hefur verið vísað út í óvissuna — til óvissrar framtíðar þegar einhvern tíma á að ákveða einhvers konar orkuskatt. En um það er allt óljóst.

Auðvitað er það svo, að við Alþfl.-menn getum verið til viðræðu um ýmsar lagfæringar á þessum till. Það er alveg sjálfsagt að ræða það. En í heild stefna þær í rétta átt. Þær stefna til þess að lækka tekjuskatt á almennum launatekjum. Þær stefna til sparnaðar á landbúnaðarliðunum. Þær stefna til lækkunar á þessum lánasjóðslið, sem ég tel of háan og fleiri hafa orðið til að taka undir hér. Og þær stefna til aðhalds í ríkisbúskapnum.

Ég ætla ekki að hafa þessi orð hér öllu fleiri, en minni á — og vona að við því verði orðið, eins og ráðh. gaf raunar nokkurt fyrirheit um — að það er að sjálfsögðu nauðsynlegt að meginatriði lánsfjáráætlunar liggi ljós fyrir, ekki aðeins að því er varðar A-hluta og B-hluta fjárlaga, heldur og fleira, því þar er miklu fleira sem kemur til. Nauðsyn er að þetta liggi ljóst fyrir, ef takast á að afgreiða hér fjárlög fyrir páska.