27.03.1980
Efri deild: 53. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1504 í B-deild Alþingistíðinda. (1435)

131. mál, flugvallagjald

Fjmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Það er bara til að leiðrétta misskilning.

Í fjárveitingum í fjárlögum seinasta árs var gert ráð fyrir 600 millj. kr. til flugmála, en síðan voru í lánsfjáráætlun þess árs veittar 200 millj. kr. til vörukaupalána. Þannig fæst út samanlögð upphæðin 800 millj., en í fjárlögum voru 600. Nú eru í fjárlögum 900 millj. kr. til flugvallaframkvæmda og gert ráð fyrir að við það verði hugsanlega einhverju bætt á lánsfjáráætlun, eins og gert hefur verið á mörgum undanförnum árum, með vörukaupalánum, hugsanlega 200 millj. Þó hefur mönnum fundist að þessi upphæð væri í raun og veru fulllág og væri eðlilegt að hún hækkaði eitthvað.

Nú þegar gerð er tillaga um að hækka þennan skatt verða tekjur af honum 1050 millj. í staðinn fyrir 700 millj., eins og hv. þm. tók réttilega fram. Af því mun leiða að ef frv. verður samþykkt verður að sjálfsögðu að hækka tölur í fjárlagafrv. Mér er nær að halda að fjvn. hafi þegar gert ráðstafanir til að breyta þeim tölum og hafi raunar þegar fjallað að nokkru um hvernig þessari upphæð verði úthlutað allri, 1050 millj., en ekki 900 millj. eins og menn kynnu kannske að halda ef þeir horfðu á fjárlagatöluna óbreytta.

Það er gert ráð fyrir að flugvallagjaldið hækki upp í 1050 millj. og því verði öllu varið til framkvæmda í flugmálum. Ef gjaldið væri aftur á móti óbreytt væri nokkurt gat í tekjuöflun ríkissjóðs, þar sem ríkissjóður fengi aðeins 700 millj., en ætlaði sér að verja til flugmála milli 900 og 1000 millj.

Ég vildi láta þetta koma fram vegna þess að það er síður en svo að ríkissjóður fái einhvern eyðslueyri með samþykkt frv., heldur gengur féð allt til flugvallaframkvæmda. Hins vegar var það áður þannig, að flugvallagjaldið var ekki tengt flugvallaframkvæmdum sérstaklega, en það er það nú.