27.03.1980
Sameinað þing: 39. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1509 í B-deild Alþingistíðinda. (1447)

116. mál, fjárlög 1980

Jóhann Einvarðsson:

Herra forseti. Við afgreiðslu þessa fjárlagafrv., svo sem fyrr, reyna þm. að koma málefnum sinna kjördæma fram svo sem unnt er, en gera sér samt jafnframt far um að taka fullt tillit til þjóðarheildarinnar. Þegar einungis er unnt að veita um 2.2 milljarða til hafnarframkvæmda og tæpum 3.1 milljarði kr. til sjúkrahúsa og heilsugæslustöðva, tæpum 2.8 milljörðum kr. til grunnskóla og íþróttahúsa, um 550 millj. kr. til dagvistarstofnana, er ljóst, að eigi er unnt að verða nema að litlu leyti við þeim beiðnum sem fyrir liggja og mikil þörf er á. Mætti þó nefna mörg fleiri dæmi um nauðsynleg verkefni sem ekki er hægt að verða við nema að litlu leyti eða jafnvel engu. Þess vegna verð ég að undrast, að unnt sé á sama tíma að veita um 5.4 milljarða kr. til Lánasjóðs ísl. námsmanna og jafnframt að heimila lántöku að fjárhæð um það bil 1.2 milljarða kr. til sama sjóðs. Ég vil með þessu á engan hátt gera lítið úr fjárþörf íslenskra námsmanna, en tel að þeir eins og aðrir verði að bíða um sinn með að fá óskum sínum framgengt uns tekist hefur að leysa úr þeim brýnu verkefnum, sem ég minntist á fyrr í máli mínu. En í trausti þess, að lánamál íslenskra námsmanna verði tekin til ítarlegrar endurskoðunar, sem verði lokið fyrir gerð næstu fjárlaga, segi ég nei við þessari till.