27.03.1980
Sameinað þing: 39. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1513 í B-deild Alþingistíðinda. (1465)

116. mál, fjárlög 1980

Eggert Haukdal:

Herra forseti. Sú vegáætlun fyrir árið 1980, sem samþ. var í fyrra, er að sjálfsögðu marklitið plagg, ef ekki á að standa við raungildi hennar. Til þess er talið vanta 6.5 milljarða sem verða að koma á lánsfjáráætlun. Ekki liggur enn fyrir af ríkisstj. hálfu hve miklu verður varið til vegamála í lánsfjáráætlun eða hvort við raungildi verði staðið, en þeirrar ákvörðunar er að vænta. Að mínum dómi kemur fyrirhuguð bensínhækkun ekki til greina nema þeim hluta hennar, sem gengur beint til ríkisins, verði varið til vegamála. Í trausti þess, að við afgreiðslu lánsfjáráætlunar eða á annan hátt verði a.m.k. staðið við raungildi núverandi vegáætlunar, segi ég nei.