28.03.1980
Neðri deild: 51. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1517 í B-deild Alþingistíðinda. (1480)

97. mál, almannatryggingar

Magnús H. Magnússon:

Herra forseti. Ég verð í sambandi við þetta frv., eins og hið fyrra sem var á dagskrá, að láta í ljós ánægju mína með að hæstv. félmrh. skuli flytja það hér og nú.

Hæstv. ráðh. lýsti frv. ágætlega, eins og hans er von og vísa. En mig langar aðeins til að minnast á þá gagnrýni sem hann gat um frá Jafnréttisráði og reyndar frá fleiri aðilum. Sú gagnrýni beinist einkum að því, að sumir vilja — þessir aðilar og kannske fleiri — að almannatryggingar greiði allt fæðingarorlofið, en atvinnurekendur endurgreiði það að einhverju eða öllu leyti í formi iðgjaldagreiðslna til tryggingakerfisins. Forsenda þessa sjónarmiðs er einkum sú, að núverandi fyrirkomulag, t.d. varðandi konur í opinberri þjónustu og það sem lagt er til í frv., leiði til þess að atvinnurekendur ráði síður kvenfólk á barneignaraldri til starfa en aðra. Þetta eru vissulega rök út af fyrir sig. En margt mælir þó á móti þessu sjónarmiði, t.d. það, að til þyrftu að koma upplýsingar frá atvinnurekendum um laun sérhverrar móður og/eða föður í hverju tilviki. Það mundi kosta feikimikla skriffinnsku og leiða til mjög mismunandi greiðslna tryggingakerfisins, sem út af fyrir sig er að mínum dómi afleitt.

Sú leið, sem farin er í frv., er einföld í framkvæmd. Það fá allir jafnt úr tryggingakerfinu og engum koma laun hvers og eins við.

Hæstv. félmrh. kom inn á áætlaðan kostnaðarauka. Ég vil bæta því við, að frá kostnaðarauka ríkissjóðs, sem er áætlaður 950 millj. kr., má draga hátt í 500 millj. sem ríkissjóður greiðir núna sem hluta af eftirlaunum aldraðra, en Atvinnuleysistryggingasjóður á að taka við jafnframt því að hann sleppur við kvaðir af fæðingarorlofi, sem eru líklega á núvirði um það bil 1.5 milljarðar á ári. Nettóaukning hjá ríkissjóði yrði því ekki nema 450–500 millj. Og nettóaukning hjá atvinnurekendum yrði ekki nema 650–700 millj. vegna þess að frá þeirri tölu, sem hæstv. félmrh. minntist á, er eftir að draga það sem atvinnurekendur greiða í dag, sem að vísu er ekki nákvæmlega vitað um, en er áætlað að sé 25–30% af þeirri upphæð sem þarna er fundin út.

Í frv. er gert ráð fyrir, eins og hæstv. félmrh. kom inn á, gildistöku 1. jan. n.k. Bæði er, að það var ekki búið að áætla og hefur enn ekki verið áætlað fyrir þessum útgjaldaauka í fjárlögum, og einnig var haft í huga að þetta gæti hugsanlega verið samningsatriði við launþegasamtökin, um gildistökutíma og annað því um líkt.

Herra forseti. Ég mæli eindregið með því, að þetta frv. verði að lögum á þessu þingi.