28.03.1980
Neðri deild: 51. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1519 í B-deild Alþingistíðinda. (1483)

104. mál, lögréttulög

Vilmundur Gylfason:

Herra forseti. Frv, það, sem hæstv. dómsmrh. hefur hér lagt fyrir, var fyrst undirbúið í dómsmálaráðherratíð hæstv. núv. utanrrh., Ólafs Jóhannessonar, og var þá lagt fyrir Alþingi. Hefur það síðan notið stuðnings þeirra dómsmrh. sem setið hafa, þ.e. núv. hæstv. ráðh. og Steingríms Hermannssonar auk mín.

Ég hygg að um þetta frv. þurfi ekki að verða pólitískar deilur. Ég vil segja það sem formaður hv. allshn. þessarar hv. d., um leið og ég lýsi yfir stuðningi við frv., að allt skal verða gert sem í okkar valdi stendur til þess að hraða afgreiðslu þess. Ég vænti góðrar samvinnu við núv. hæstv. dómsmrh. um það.

Það er alveg ljóst hver eru tildrög þessa máls. Þegar gagnrýnin umræða hófst um dómsmálakerfið um miðjan þennan áratug, þá beindist gagnrýnin m.a. að því, hvern óratíma það tæki að koma málum í gegnum dómskerfið. Gagnrýnin beindist að því, að mál, smá og stór, voru að þvælast í þessu kerfi jafnvel árum saman, — minni háttar mál sem borgararnir þurftu annaðhvort að gera upp við ríkisvaldið eða sín á milli þvældust árum og jafnvel áratugum saman í þessu kerfi. Þessa gagnrýni þekkja menn og um margt skilaði hún árangri, m.a. í breyttum viðhorfum þessa kerfis sjálfs, að því sjálfu óbreyttu. Og það má hæstv. þáv. dómsmrh., Ólafur Jóhannesson, eiga, að jafnvel þótt hann mótmælti stundum harkalega þessari gagnrýni, þá skynjaði hann engu að síður hversu mikill sannleikur var í henni fólginn. Þetta frv. til lögréttulaga, sem hann lagði fram á sínum tíma, er einmitt áralangur af því. Það má auðvitað segja að þetta séu bæði rétt og skynsamleg viðbrögð hjá yfirvöldum, að hlusta á gagnrýni, viðurkenna að hún sé rétt og svara henni með umbótafrv., m.a. af þessu tagi.

Hæstv. dómsmrh. hefur lýst inntaki frv. Höfuðtilgangur þess er að gera dómsstigin þannig, að einkum smærri mál fari, ef svo má að orði komast, með hraðferð í gegnum kerfið. Það eina, sem vafist hefur fyrir mönnum í þessu tilliti, er kostnaðarhliðin, hvort við séum að bæta við báknið að óþörfu. Ég hygg að svo sé ekki.

Annað mál er rétt að ræða í tengslum við þetta. Þetta frv. er viðurkenning kerfisins á því, að mál — stærri og einkum smærri — hafa þvælst árum saman í þessu kerfi og borgarar hafa lent í leiðindum þess vegna. Þetta þarf ekki að vera svona.

Þetta frv. felur í sér umbætur. Þetta er mikið umbótamál sem hér hefur verið lagt fram. En þetta mál er auðvitað nátengt öðru. Það er nátengt því, að fjárkröfur hafa ekki verið rauntryggðar í dómskerfinu og vextir meira að segja svívirðilega lágir. Hvað þýðir það? Það þýðir það einfaldlega, að ef einhver einstaklingur hefur brotið af sér í fjármálalegu tilliti og ef sá, sem brotið hefur verið á, hefur sótt mál sitt fyrir dómstólum, þá er það hagur þess, sem braut lögin, að meðferð málsins dragist árum saman í kerfinu. Svo hefur verið árum saman og jafnvel áratugum. Þetta er eitt af því sem gersamlega fór úr böndum hér á árunum 1972–1973 þegar verðbólgustigið varð óviðráðanlegt, að það hefur verið hagur þess, sem lögin braut, að þvæla málum árum og upp í áratugum saman í þessu kerfi.

Ég vil þess vegna lýsa því, að náskylt þessu viðamikla umbótamáli, sem hæstv. dómsmrh. hefur lagt fyrir, er annað mál, verðtrygging dómkrafna. Reynt var að ráða bót á því á 101. löggjafarþingi, en því miður klúðraðist það þannig, að það, sem Alþ. endanlega samþykkti, ég held fyrir mistök, var ekki rauntrygging dómkrafna, heldur að miða sekt við tiltekna innlánsvexti. En við vitum að vaxtastefnan í landinu er oft á fullri ferð í allar áttir. Ég minni t.d. á aðgerðir núv. hæstv. ríkisstj. nýverið í vaxtamálum. Og eins og kerfið er núna var t.d. hæstv. núv. ríkisstj. 1. mars — með því að heykjast á þeirri vaxtahækkun sem henni þó bar að framkvæma — ekki einasta að færa fjármuni frá sparifjáreigendum til skuldara, heldur var hún að taka afstöðu í málum deiluaðila í dómskerfinu, vegna þess að dómvaxtastefnan í landinu er tengd almennri innlánsvaxtastefnu.

Ég vil geta þess hér, að á þeim fáu mánuðum sem ég sat í embætti dómsmrh. létum við undirbúa vandað frv. um verðtryggingu dómkrafna. Það gerðu tveir ágætir lögfræðingar. Mér er kunnugt um að þeir höfðu samband við sérfróða menn í því lýðræðisríki sem einna best þekkir af eigin raun þetta vandamál, þessa miklu verðbólgu, og hefur auðvitað verið að reyna að svara henni með ýmsum hætti. Þetta ríki er Ísrael. Mér er kunnugt um að þessari frumvarpssmíði er lokið og annaðhvort hafa þeir þegar rætt við hæstv. dómsmrh. eða eiga pantaðan tíma hjá honum á föstudag, þar sem þetta frv. verður kynnt. (Gripið fram í.) Já, það mun hafa verið á föstudaginn var sem við hæstv. ráðh. var rætt. (MB: Það verður sennilega ekki á föstudaginn langa). Já, það er aldrei að vita. Þetta er svo kappsmikil ríkisstjórn, hv. þm. Matthías Bjarnason. Þetta er svo kappsmikil og starfsöm ríkisstj. það gæti því vel farið svo.

En allt um það, þá vænti ég þess, að þetta sé skynsamleg úrbót. Við hæstv. núv. dómsmrh. erum sammála um lögréttumál, og ég vænti þess, að við getum verið jafnsammála um dómvaxtastefnuna, að hafa fullkomna verðtryggingu, þannig að það sé ekki hagur þess, sem brýtur lög, að draga mál á langinn. Þó að lögréttuumbæturnar eða lögréttulögin séu vitaskuld af hinu góða, þá getum við því miður ekki tryggt í eitt skipti fyrir öll að mál dragist ekki á langinn í þessu kerfi. Auðvitað eigum við eftir að sjá hvernig framkvæmdin á þessu verður. Og auðvitað kann svo að fara að enn haldi þetta vandamál áfram. Enn eitt er það, að lögréttan út af fyrir sig leysir ekki það sem hefur verið lykilvandamál í þessu kerfi, fjármálabrotin, hin stóru fjármálaafbrot. En þar spilar einmitt saman annars vegar hægagangurinn í kerfinu og hins vegar sú staðreynd, að raunverulegir dómvextir hafa verið langt undir verðbólgustigi. Það hefur verið hagur þess, sem lögin braut, að draga mál á langinn. Það hefur verið tap þess, sem skaðabæturnar átti, að málin drógust á langinn. Í þessu hygg ég að felist inntak þeirrar gagnrýni sem fram hefur komið á dómskerfið, þann hluta þeirrar gagnrýni sem ekki fjallaði um pólitíska misbeitingu, heldur um dómskerfið sjálft og gangverk þess. Ég hygg að hér sé dreginn saman kjarni þessa máls.

Ég fagna mjög þessu frv. Ég fagna því, að hæstv. dómsmrh. skuli hafa lagt það fram. Ég vona að hann sýni sömu lipurð að því er varðar verðtryggingarstefnuna í dómskerfinu. Og sem formaður allshn. þessarar virðulegu d. vil ég gjarnan eiga við hann gott samstarf svo að þessum málum verði flýtt eins og mögulegt er.