28.03.1980
Neðri deild: 51. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1521 í B-deild Alþingistíðinda. (1485)

104. mál, lögréttulög

Vilmundur Gylfason:

Herra forseti. Mér er kunnugt um það, að hæstv. dómsmrh. er snarpur maður og fljótur. M.a. vegna þess þakka ég honum þau vinsamlegu orð, að þetta mál verði skoðað, en í leiðinni bið ég hann þess, að sú skoðun standi ekki til eilífðarnóns, því að hér erum við að tala um svo brennandi vandamál í dómskerfinu. Ég viðurkenni það, að mér þótti hart — af pólitískum metnaðarástæðum — að geta ekki sjálfur lagt þetta frv. fram á sínum tíma. En ég áleit það svo mikils virði að smíði frv. væri vönduð, að ég kaus heldur að vinnan að því tæki lengri tíma og frv. yrði síðan tæknilega óaðfinnanlegt. En nú eru að koma páskar og þá er tími til að skoða það, eða þannig förum a.m.k. við hv. þm. Matthías Bjarnason að. Við vinnum gjarnan á föstudaginn langa eða aðra daga ef við þurfum á því að halda. Og ég vil nú biðja hæstv. ráðh., þótt upptekinn sé, að taka t.d. þann virðulega dag í að athuga þetta frv., þannig að hægt verði að leggja það fyrir þingið þegar eftir páska. Við skulum athuga vel hvort ekki er mögulegt, ef þingmeirihluti er fyrir því, að lögfesta þessa almennu hugmynd — ég hef ekki séð frv. sjálft — að lögfesta hana nú fyrir þinglok, því að því fyrr sem þessi almenna hugmynd er lögfest, því fyrr fáum við a.m.k. snefil af réttlæti í það dómskerfi sem við höfum verið að tala um. Og hinu vil ég heita enn sem formaður í hv. allshn., að ég mun gera mitt til þess að hraða þessu frv. hér í gegn.

Ég tala um þetta hér af svona mikilli vissu vegna þess, að frv. á þinginu í fyrra um dómvexti var samþ. hér í báðum deildum einróma. Vandinn var sá, að það kom upp misskilningur í Ed. Þannig var, að fyrst var lagt til af þáv. flm., hv. þm. Ellert Schram, að binda þetta við tiltekið vaxtastig. Því var svo breytt í allshn. þannig, að það var bundið við byggingarvísitölu til bráðabirgða og síðan lánskjaravísitölu, sem þá var í fæðingu, og þar með var tryggt að um rauntryggingu yrði að ræða. Síðan gerðist það, að einhverjir dómarar, eins og ég kallaði þá í þingræðu, menn úti í bæ, sumir hverjir landskunnir kverúlantar, fóru að hafa afskipti af málinu og plötuðu hér nokkra hv. þm. í Ed. til að breyta frv. aftur í átt að innlánsvöxtum, með þeim afleiðingum að frv. fór aftur til Nd. Þetta var á síðustu dögum þingsins, þegar mörg mál voru til afgreiðslu og hraði var mikill í afgreiðslu mála, og þetta var eitt af þeim málum sem svo var ástatt um, að menn voru ekki alveg vissir um hvað þeir voru að afgreiða. Til sannindamerkis um það segi ég að sú breyting, sem allshn. gerði hér í Nd., var gerð í nánu samstarfi við hv. 1. flm. þessa máls upphaflega, hv. þm. Ellert Schram. Því er ljóst að á því þingi — hvað sem kann hafa gerst núna í kosningunum í des. — var ekki aðeins þingvilji, heldur einróma þingvilji fyrir því að fara þessa leið. Af því dreg ég þá ályktun, að hafi ekki nýtt þing skipt um skoðun, þá geti þetta mál runnið hér í gegnum þingið svo fremi sem hæstv. dómsmrh. verður röskur. Og ég er viss um það, því mér er sagt að hann sé röskleikamaður: Og það þýðir það, að ég vænti þess að þetta frv. verði lagt fram hið fyrsta eftir páska. Ég vil gera mitt. Og ég er viss um að hinir 58 hv. þm. eru líka tilbúnir til að gera sitt.