31.03.1980
Efri deild: 54. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1528 í B-deild Alþingistíðinda. (1493)

45. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Karl Steinar Guðnason:

Herra forseti. Félmn. kallaði til sín ýmsa aðila og ræddi um tekjustofnafrv. við þá. Meðal þeirra, er rætt var við, voru fulltrúar Alþýðusambands Íslands. Kom fram hjá þeim að þeir töldu að hinar auknu skattálögur yrðu til að þyngja mjög alla samningagerð, bær yrðu til þess að verkalýðssamtökin yrðu að reisa kröfur sínar hærra vegna þess að nú væri skattbyrðin meiri en nokkru sinni fyrr.

Eins og ég hef áður minnst á hefur Alþfl. samúð með sveitarfélögunum og skilur fjárhagsvanda þeirra. Hins vegar höfum við líka áhyggjur af greiðsluþoli almennings. Líka verðum við að hafa í huga að nú stendur verkalýðshreyfingin í miðri samningagerð og því ástæða til að taka tillit til þess.

Ég hef leyft mér að flytja brtt. við tekjustofnafrv, eins og það kom frá Nd. og reikna þá með að felld verði niður heimildin til að hækka útsvörin um 10%. Brtt. mín er þannig:

„Á undan 1. gr. frv. komi ný grein sem orðist svo: Við a-lið 9. gr. laganna bætist:

Aukaframlag úr ríkissjóði sem nemur 4% af söluskatti þeim sem innheimtur er í ríkissjóð á árinu 1980 samkv. lögum nr. 10/1960, um söluskatt, með síðari breytingum, sem renni til að greiða úr sérstökum fjárhagserfiðleikum sveitarfélaga, sbr. b-lið 8. gr.

Það má búast við, ef þetta verður að veruleika og þetta verður samþ., að það gefi 4 milljarða og 470 millj. til viðbótar þeim 8.9 milljörðum sem nú renna af söluskattstekjum í Jöfnunarsjóð sveitarfélaganna. Þetta mundi sem sagt verka þannig, að sveitarfélögin fengju þá fjármuni sem þau þyrftu og fjárhagsvandi þeirra væri þá leystur að mestu leyti.