31.03.1980
Neðri deild: 53. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1549 í B-deild Alþingistíðinda. (1516)

135. mál, orkujöfnunargjald

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Á sjöunda tímanum í gær, á sunnudegi, voru forustumenn þingflokka stjórnarandstöðunnar boðaðir á fund tveggja hæstv. ráðh. til að ræða við þá um þau mál sem ríkisstj. óskaði að fá afgreidd fyrir páskaleyfi. M.a. var þessum mönnum þá afhent frv. það sem nú er verið að ræða, á þskj. 252. Til þess að geta orðið við tilmælum hæstv. ríkisstj. um að afstaða gæti legið fyrir þegar umr. hæfust kl. tvö í dag héldum við Alþfl.-menn þingflokksfund í morgun kl. ellefu og sama munu sjálfstæðismenn hafa gert. Það furðulega gerist hins vegar þegar þingfundur hefst kl. tvö, að einn stjórnarflokkurinn biður um frest. Hann hefur ekki haft tíma til að fjalla um það mál sem við vorum beðnir að fjalla um kl. hálfsjö í gærkvöld. Síðan hafa þingstörfin í þessari hv. d. öll gengið á afturfótunum. Þegar búið var að taka þinghlé vegna óska eins stjórnarflokksins, sem ekki var reiðubúinn með afstöðu þegar þingfundur hófst, þurfti hæstv. fjmrh. að bregða sér frá. Þegar hann var kominn í salinn aftur hafði hæstv. ráðh. stuttan stans, því hann þurfti að skjótast út í garð til að ræða við blaðamenn og varð að fresta fundi á meðan. Þessi vinnubrögð bera ekki vott um að það sé mikil og góð verkstjórn á stjórnarliðinu. Þessi vinnubrögð bera ekki vott um að hæstv. ríkisstj. leggi mikið kapp á að fá þessi mál afgreidd.

Fyrir nokkrum dögum var haldinn í Reykjavík ársfundur Rannsóknaráðs ríkisins. Þessi fundur var haldinn í Háskólabíói og voru flutt mörg athyglisverð erindi. Meðal þeirra, sem fluttu þar erindi, var Sveinbjörn Björnsson jarðeðlisfræðingur. Erindi hans fjallaði um jarðgufuvirkjanir. Í erindi sínu sýndi Sveinbjörn fram á annars vegar hvernig ætti að standa að undirbúningi slíkra virkjana, miðað við þá þekkingu og þá reynslu sem vísindamenn hafa yfir að ráða, og hins vegar hvernig ekki ætti að standa að slíkum framkvæmdum. Sveinbjörn Björnsson tók Kröfluvirkjun sérstaklega sem dæmi um, hvernig ekki ætti að standa að slíkri framkvæmd, og tók raunar fram að hann og samkennarar hans við Háskóla Íslands gætu ekki svarað nemendum sínum þegar þeir spyrðu þá út í framkvæmdaatriði þeirrar virkjunar. Sveinbjörn Björnsson tók fram, að það væri ekki aðeins að virkjunin kostaði Íslendinga nú á bókfærðu verði 17 milljarða, sem er ígildi þess sem það kostar að malbika hringveginn kringum landið, hann tók fram að það væri ekki aðeins vegna þess, hvernig á málum hefði verið haldið, að Íslendingar hafa glatað þeirri fjárhæð í ekki neitt, hann skýrði líka frá því að íslenskir skattborgarar þyrftu á hverju ári að borga í fjármagnskostnað af þessari virkjun, sem engum er að gangi, hærri fjárhæð en kostar að reka Háskóla Íslands. Þetta er það sem íslenskir skattborgarar þurfa að greiða á hverju einasta ári fyrir þau mistök sem unnin voru við gerð Kröfluvirkjunar.

Þetta kemur alþm. ekkert á óvart. Þetta vita þeir. En hafa menn nokkurn tíma hugleitt hver urðu örlög þeirra manna sem standa þarna ábyrgir? Hverjir voru ábyrgir fyrir þessum stórkostlegu fjármálamistökum sem kosta íslenska skattborgara nú á hverju einasta ári ígildi þess sem kostar að reka Háskóla Íslands? Sá, sem höfuðábyrgðina bar, var að sjálfsögðu sá maður sem valinn var til að hafa forsjá og vera yfirstjórnandi iðnaðar- og orkumála í þessu landi. Hvar er sá maður nú? Hann situr í sæti hæstv. forsrh. Íslands. Maðurinn, sem bar höfuðábyrgðina á einhverju mesta fjármálahneyksli í sögu íslenskra framkvæmda, er forsrh. Íslands. í umboði hans fór sérstök nefnd með framkvæmdina, svokölluð Kröflunefnd. Tveir nefndarmenn voru kjörnir á Alþingi Íslendinga í síðustu kosningum. Hverjir skyldu þetta vera og hvar eru þeir? Varaformaður Kröflunefndar bar þó ekki alveg eins mikla ábyrgð og þáv. iðnrh., núv. hæstv. forsrh. Hvaða verk skyldi hann nú hafa með höndum í íslensku þjóðfélagi? Jú, hann er hvorki meira né minna en æðsti yfirmaður allra vísindarannsókna í þjóðfélaginu, hæstv. menntmrh. Ingvar Gíslason. Varaformaður Kröflunefndar er orðinn æðsti yfirmaður allra vísindarannsókna á Íslandi, og annar af þeim tveimur Kröflunefndarmönnum sem náðu kjöri á Alþ. er orðinn æðsti yfirmaður fjármála íslenska ríkisins.

Hafa menn nokkurn tíma hugleitt hvað þetta þýðir? Hafa menn nokkurn tíma leitt hugann að því, í hvers konar revíuþjóðfélagi við Íslendingar erum farnir að lifa? Ef leitað verður að þeim mönnum, sem báru hvað mesta ábyrgð á einhverju stærsta fjármálaævintýri í framkvæmdasögu Íslands, og leitt í ljós, hvar þessir menn eru nú, er sá sem höfuðábyrgðina bar í sæti forsrh. Íslands, sá sem kom næstur honum er æðsti yfirmaður rannsókna meðal íslensku þjóðarinnar og þriðji Kröflunefndarmaðurinn er sá sem stjórnar fjármálum íslenska ríkisins. Hvernig geta menn átt von á að ríkisstj., sem þannig er saman sett, nái tökum á verðbólguvandanum á Íslandi eða geti rétt af ríkisskútuna? Hver á að gera það? Fyrrv. orkumálaráðherra, varaformaður Kröflunefndar eða Kröflunefndarmaðurinn Ragnar Arnalds?

Árið 1971 komust tveir flokkar til valda á Íslandi sem áður höfðu setið í stjórnarandstöðu í 12 ár. Þá varð sú breyting á stjórnarstörfum á Ístandi, að segja má að stjórnarandstaðan hafi gerst ríkisstj. án þess að henni hefði dottið í hug að það þyrfti annað og meira til að stjórna landinu en málflutning stjórnarandstöðu, sem vissulega getur oft verið yfirborðskenndur og í formi yfirboða. Það má auðvitað sitt hvað segja misjafnt um viðreisnarárin. Þeirri ríkisstj. voru mislagðar hendur eins og mörgum ríkisstj. á Íslandi. En eitt einkenndi þó viðleitni þeirrar ríkisstj., hvort sem hún var meira eða minna góð þegar á heildina er litið, en það var að sú ríkisstj. reyndi að fylgja jafnvægisbúskap í efnahagsmálum, hún reyndi að sýna varkárni og aðgæslu, sérstaklega í sambandi við meðferð ríkisfjármála, og hún ásetti sér að það væri viðfangsefni ríkisstj., Alþ. og annarra stjórnenda landsins að mæta óhjákvæmilegum ytri áföllum þannig að þjóðin fengi að njóta góðs af þegar um búhnykk væri að ræða, en þyrfti að taka á sig byrðar þegar þjóðarbúið yrði fyrir áfalli. Þessi sjónarmið eru ekki vinsæl. Það er ekki vinsælt, ef olíuverð stórhækkar á heimsmarkaði þannig að lífskjör íslensku þjóðarinnar rýrna, að stjórnvöld reyni að vera sjálfum sér samkvæm og halda þannig á málum að almenningur í landinu finni þess merki að þjóðarbúið hefur orðið fyrir áfalli. Slíkt var ekki vinsælt. Þessi afstaða hafði það í för með sér, að sú ríkisstj. missti þingmeirihl. sinn. En slík afstaða stjórnvalda er engu að síður nauðsynleg, því ef ríkisstj. fylgir ekki slíkri stefnu, hver á þá að gera það fyrir landsmenn alla?

Þegar Framsfl. og Alþb. komu til valda árið 1971 fylgdu þeir og hafa fylgt síðan stjórnarandstöðupólitík í ríkisstj. Sú pólitík hefur verið á þá lund, að það hefur aldrei verið spurt um aðstöðu eða getu þjóðarinnar til að gera eða framkvæma, heldur aðeins um vilja. Hverjum degi hefur verið látin nægja sín þjáning og stjórnvöld landsins hafa hagað sér, eins og segir í þeirri góðu bók Biblíunni að fuglar himinsins geri: safna ekki í kornhlöður, heldur láta hverjum degi nægja sína þjáningu í þeirri von að drottinn sjái um að endar nái saman.

Dæmi um þessa afstöðu eru fjölmörg. Eitt af fyrstu viðfangsefnum þeirrar ríkisstj. var t.d. að hraða gildistöku laga um almannatryggingar, sem kváðu á um tekjutryggingu til eldra fólksins, um fjóra mánuði. Hins vegar var ekkert fé til í almannatryggingum til að greiða þetta. Þannig myndaðist skuld hjá ríkissjóði við almannatryggingarnar, því almannatryggingar tóku þessa upphæð úr sjóðakerfi, svo sem eins og lífeyrissjóðum opinberra starfsmanna, sem stofnunin átti að varðveita. Skuldin, sem stofnað var til árið 1971, er ógreidd enn. Sá víxill, sem þáv. hæstv. ríkisstj. gaf út, hefur stöðugt verið framlengdur. Um s.l. áramót nam þessi skuld ríkissjóðs við Tryggingastofnun ríkisins um 7 milljörðum og er allar götur síðan ákvörðunin var tekin sumarið 1971.

Við skulum taka annað dæmi. Það hefur verið mikið talað um að á árum fyrri ríkisstj, Ólafs Jóhannessonar hafi orðið mikil olíuverðshækkun sem hafi kostað íslenska þjóðarbúið mjög mikið og orðið til að rýra lífskjör landsmanna. Ég býst við að minna sé vitað um að allur sá reikningur, sem þá féll í gjalddaga við hækkun olíuverðs á heimsmarkaði, var tekinn að láni hjá Alþjóðabankanum. Sá reikningur er ógreiddur enn. — [Fundarhlé.]

Herra forseti. Ég veit satt að segja ekki hvort við stjórnarandstæðingar eigum að vera að halda þessu máli svo mjög til streitu, því maður verður þess áþreifanlega var að stjórnarsinnar gera allt sem þeir geta til að tefja málið. En það er kannske rétt að halda áfram engu að síður og gera þá fjórðu tilraunina í dag, en ef þetta ætlar að ganga svona held ég að langbest sé að láta að vilja stjórnarsinna og sleppa frekari umr. um þetta mál, láta það detta. Ætli það sé ekki affarasælast fyrir alla?

Ég mun hafa verið kominn þar máli mínu að ég var að taka dæmi um þá búskaparhætti sem teknir voru upp hér á landi þegar Framsfl. og Alþb. komust til valda eftir 12 ára útlegð á árinu 1971. Síðara dæmið, sem ég ætlaði að taka, var á þá lund, að ríkisstj. Ólafs Jóhannessonar, sú fyrri og verri, ræddi mikið um það á sínum tíma hversu olíuáfallið, sem þá kom, hefði orðið ríkisstj. erfitt og valdið Íslendingum miklum búsifjum. Ég ætlaði að veita þær upplýsingar að tekinn var víxill upp á framtíðina vegna olíuverðshækkunarinnar. Þá var tekið lán hjá erlendri lánastofnun og það lán gjaldféll ekki fyrr en í fyrra og hefur ekki verið greitt af því með öðrum hætti en nýrri erlendri lántöku. Fyrsta olíuáfallið, sem þjóðin varð fyrir, er þjóðin raunverulega ekki byrjuð að borga enn.

Þetta er dæmigert um þá stjórnarstefnu sem verið hefur í landinu undanfarinn áratug, þar sem reynt hefur verið að lifa frá degi til dags, stjórnvöld hafa starfað eftir þeirri reglu að hugsa ekki fyrir morgundeginum, en slá öllum vanda á frest. Þetta er eins fjarlægt jafnvægisbúskap og hugsast getur, enda er niðurstaðan orðin sú eftir um það bil einn áratug, að íslenskt þjóðfélag og íslenskt efnahagslíf stendur mjög völtum fótum. Kaupmáttur launafólks er nú, 10 árum síðar, um það bil 10% minni en hann hefði verið ef jafnvægisstefnu viðreisnaráranna hefði verið fram haldið með öllum hennar göllum. Allir sjóðir eru uppurnir í landinu. Verðbólgan hefur aldrei í sögu landsins verið meiri. Lánstraust þjóðarinnar hjá erlendum lánastofnunum er á þrotum o.s.frv.

Svo virtist vera á s.l. hausti að það mundi bresta þingmeirihluta til að halda þessari stjórnarstefnu áfram. Eftir langvinnt stjórnarmyndunarþóf kom þó í ljós að svo var ekki, þegar nokkrir þm. úr Sjálfstfl. tóku sig upp og fluttust búferlum til að geta haldið áfram að viðhalda þeirri óheilla- og ójafnaðarstefnu sem innleidd var hér með stjórnarskiptunum 1971. Ég hef þá trú, að sú tilraun standi ekki mjög lengi. Getur þá svo farið að það verði lengra en 12 ár í það að slíkt búskaparlag verði reynt að nýju. En hitt er svo annað mál, hvernig það verður fyrir þá sem koma til með að taka við af hæstv. ríkisstj., því einhvern tíma kemur að því að hún skilar af sér, hvort sem það verður fyrr eða síðar. Ég er hræddur um að það verði erfitt fyrir þau stjórnvöld að rétta þjóðarbúið af eftir þá hallasiglingu sem á því mun verða þau árin eða þá mánuðina, hvort sem þeir verða margir eða fáir, sem núv. hæstv. ríkisstj. lafir við stjórnvöl.

Herra forseti. Ég hefur áður vakið athygli á því, að þau vinnubrögð, sem beitt hefur verið við stjórn lands okkar undanfarinn áratug, séu ekki aðeins hefðbundin stjórnarandstöðuvinnubrögð þar sem ekki er reynt að horfast í augu við nokkurn vanda, en öllum málum slegið á frest, gengið í alla sjóði, allt eigi að gera fyrir alla, — það séu ekki aðeins hefðbundin stjórnarandstöðuvinnubrögð sem íslensku þjóðfélagi hefur verið stýrt eftir s. Í. 10 ár, heldur sé annar af þeim tveimur flokkum, sem ferðinni hafa ráðið, Alþb., þess eðlis, að hann sýni í efnahagsmálum nokkurs konar hefðbundin viðbrögð við ytri áreitni, það sé eins og með hundana hans Pavlovs, sem ávallt brugðust við með tilteknum hætti ef þeir heyrðu tiltekið hljóð eða urðu fyrir tilteknum þrýstingi. Eins er það með þá ágætu kollega mína hér sem tilheyra Alþb. Efnahagsstefna þeirra er ekki tekin með tilliti til ríkjandi aðstæðna, heldur nokkurs konar ósjálfráð viðbrögð í „pavlovskum“ stíl við ytri áreitni í efnahagsmálum.

Sá ágæti maður Hannibal Valdimarsson sagði einu sinni um Alþýðubandalagsmann, að hans stóri kostur væri að honum dytti aldrei neitt í hug. Það má segja það sama um þá ágætu Alþýðubandalagsmenn nú í þinginu, sérstaklega með tilliti til efnahagsmála, að þeim dettur aldrei neitt í hug, og ekki nóg með að þeim detti ekki neitt nýtt í hug, heldur geta menn ávallt gert sér nokkurn veginn í hugarlund hvað þeir muni gera, miðað við þá ytri áreitni sem þeir verða fyrir í efnahagsmálum. Svo „pavlovsk“ eru þau viðbrögð.

Laugardaginn 1. mars s.l., nokkru áður en fjárlagafrv. hæstv. ríkisstj. kom fram, gerði ég mér það til gamans að skrifa grein í Morgunblaðið. Þar reyndi ég, miðað við hin hefðbundnu „pavlovsku“ viðbrögð Alþb. í efnahagsmálum, að spá, bæði í gamni og alvöru, hvað mundi gerast af hálfu hæstv. ríkisstj. í efnahags- og fjármálum á næstu vikum. Og það er einkar athyglisvert og ánægjulegt, fyrir sjálfan mig a.m.k., að hvert einasta atriði í þessari spásögn hefur náð fram að ganga. Viðbrögð Alþb. eru orðin svo „pavlovsk“ að hægt er að spá um þau marga mánuði fram í tímann, miðað við þá ytri áreitni sem menn vita með nokkurri vissu að þeir muni verða fyrir á þeim tíma.

Ég sagði að mér þætti einkar líklegt að ríkisstj. mundi gera þrennt: Í fyrsta lagi stórauka erlendar lántökur. Í öðru lagi taka upp þau nýju vinnubrögð að leysa útgjaldavanda utan fjárlaga með nokkurs konar viðbótarfjárlögum eða fjárlagakálfi. Og í þriðja lagi afla sérstakra viðbótartekna með afbrigðilegum hætti.

Ég sagði í spádómi mínum frá 1. mars s.l., sem ég ítreka að var gerður í gamni, en einnig nokkurri alvöru, að mér fyndist harla ólíklegt að hæstv. ríkisstj. treysti sér til að hækka beina skatta til að koma endum saman öllu meira en um 4–6 milljarða kr., enda hefur sú orðið raunin. Hún hefur ekki treyst sér til að hækka áætlun um tekjuskatta á einstaklingum öllu meira, þó svo að hún hafi treyst sér til að lækka áætlun fjárlaga um tekjuskatt af fyrirtækjum í landinu um 850 millj. kr. Að vísu hefur heyrst upp á síðkastið að e.t.v. sé á leiðinni frá ríkisstj. hugmynd um breytingar á skattstigum einstaklinga til hækkunar í sambandi við álagningu tekjuskatts. Engu að síður stendur dæmið þó þannig, að hæstv. ríkisstj. hefur ekki treyst sér til að hækka tekjuskatta á einstaklingum um öllu meira í einni svipan en um 4–6 milljarða. Sú spásögn er því rétt.

Ég gat mér þess til, að miðað við að ríkisstj. hækkaði tekjuskatta um 4–6 milljarða kr. mundi hana vanta um tvo tugi milljarða til þess að endar næðu saman í útgjaldaáformum ríkisstj. Það virðist líka hafa verið nokkuð rétt, vegna þess að miðað við þau áform, sem hæstv. ríkisstj. hefur þegar tilkynnt og ekki eru inni í fjárlögum og verið er m.a. að ræða nú, virðist ríkisstj. vanta umfram það, sem ákveðið er í fjárlögum, 16–20 milljarða kr. í skattheimtu.

Ég gat mér þess til, að e.t.v. væri það nærtækasta ráðið fyrir ríkisstj., a.m.k. miðað við viðbrögð Alþb., sem menn þekkja frá fyrri tíma, að afla hluta þessa fjár með svo sem eins og 1% söluskattshækkun. Frv. um 1%

söluskattshækkun er til meðferðar hér. Hæstv. fjmrh. lýsti því nefnilega yfir, þegar hann fylgdi frv. því úr hlaði sem hér er til umr. um hækkun á söluskatti um 2 prósentustig, að annað prósentustigið væri vegna verðjöfnunarvandans af kyndikostnaði, en hitt prósentustigið væri almenn tekjuöflun fyrir ríkissjóð. Þannig hefur ágiskun mín reynst mjög nærri lagi. M.ö.o. hefur verið flutt hér frv. um 1% almenna hækkun á söluskatti til að standa undir viðbótarútgjöldum ríkissjóðs umfram það sem fjárlög gera ráð fyrir.

Þá gat ég mér þess til líka, að ríkisstj. mundi hugsa sem svo, að e.t.v. væri ekki ýkjagott að þessi hækkun á söluskatti kæmi fram í hækkaðri vísitölu, einhverjum ráðstöfunum mundi ríkisstj. sennilega beita til þess að komast hjá því að launafólk í landinu, sem á að bera þessa skattahækkun í formi hækkaðs vöruverðs, fengi hana bætta í kaupi. Og ég heyrði ekki betur, að vísu voru orð hæstv. fjmrh. um það áðan mjög loðin, en hæstv. ríkisstj. væri einmitt að athuga með hvaða hætti hún gæti komist fram hjá þeim vísitöluákvæðum sem gera aðilum skylt að bæta slíka hækkun á óbeinum sköttum í kaupgjaldi. Einnig þarna virðist spásögn mín hafa gengið nokkuð eftir.

Til viðbótar þessu gat ég mér þess til og benti á, að ein merkasta nýja uppfinningin á sviði þeirrar stjórnarstefnu í efnahagsmálum, sem við Alþfl.-menn köllum „Lúðvíksku“, hafi verið fundin upp nú á dögunum, þ.e. að taka fyrirsjáanlegt viðfangsefni fjárlaga út úr fjárlagaafgreiðslunni og láta eins og það væri ekki til, en afgreiða málið með sérstökum tekjuöflunarlögum tengdum útgjaldaáformunum í nokkurs konar fjárlagakálfi. Eins og menn vita, er „kálfur“ viðbótarútgáfa af blaði, og fylgir viðkomandi blaði sem nokkurs konar aukablað. Þá uppfinningu gerðu Alþb.-menn á þessum vetri með frv. um ábyrgðar- og greiðsluheimild vegna lántöku að upphæð 3 milljarðar kr. vegna útflutningsvandá landbúnaðarins, og slíka uppfinningu, sem er svo „lúðvíksk“ eins og þessi uppfinning er, geta Alþb.-menn að sjálfsögðu ekki látið ónotaða. Þegar málið var loks afgreitt, eftir að fjárlagafrv. var komið fram, var það gert nákvæmlega með þeim hætti, að bæði tekjuöflunin og útgjöldin voru afgreidd með sérstakri lagasetningu utan fjárlaga með tilbúningu nokkurs konar fjárlagakálfs.

Með nákvæmlega sama hætti átti að leysa olíuupphitunarvandann. Það átti að gefa út sérstakan fjárlagakálf hans vegna. Svona hefði verið hægt að taka bókstaflega öll viðfangsefni fjárlagagerðar, sem með einhverjum hætti eru þess eðlis að erfitt er að andæfa gegn slíkum útgjöldum. Með þeim hætti getur hvaða ríkisstj. sem er leyst vandmeðfarin og viðkvæm mál, með þeim einfalda hætti að taka þau út fyrir fjárlagaafgreiðslu, búa til úr þeim sérstaka fjárlagakálfa og leggja þannig fram og afgreiða ófullburða fjárlög sem ekki verða heildstæð nema búið sé að samþ. og afgreiða slíkan fjárlagakálf.

Auðvitað er hægt að taka fjölmörg slík atriði úr fyrir fjárlagaafgreiðslu. Við skulum t.d. segja sem svo, að til þess að endar nái saman í ríkisfjármálunum vanti 5 milljarða kr. tekjuöflun. Það væri hægt að afgreiða það mál með sama hætti og hér er vitnað til, með þeim einfalda hætti að taka t.d. öll útgjöld til sjúkrahúsa út úr fjárlagafrv. og afgreiða fjárlögin með þeim hætti, en leggja síðar fram frv. um fjáröflun til rekstrar sjúkrahúsa, þar sem bæði væri um að ræða ákvæði um útgjöldin til sjúkrahúsarekstrarins og um sérstaka skattheimtu til að afla fjár fyrir útgjöldum til sjúkrahúsa og láta menn svo standa frammi fyrir því hér á Alþ. að afgreiða slíka skattheimtu samfara útgjaldaáformunum. Mér er sem ég sæi hv. þm. fella slíkt frv. um skattahækkun, ef sú skattahækkun væri tengd einhverju vinsælu máli og einhverju máli sem illmögulegt væri að vera á móti, eins og þessu.

Að lokum vil ég aðeins geta þess, að hæstv. ríkisstj. virðist líka ætla að fara eftir þeirri spásögn minni að gera upp efnahagsdæmi þjóðarskútunnar með því móti að stórhækka erlendar lántökur þegar þrotnir eru þeir möguleikar sem hún telur sig hafa til að hækka beina skatta, sem hafa verið hækkaðir á síðustu dögum um 40%, og þegar hún er búin að afgreiða tveggja stiga söluskattshækkun og hækka óbeina skatta með því móti um a.m.k. 11 milljarða. Þegar ekki nægja þessir tæpir 2 tugir milljarða, sem ríkisstj. ætlar nú í einu vetfangi að hækka beina og óbeina skatta um, verður nauðvörnin að hækka erlendar lántökur til að standa undir afganginum. Mér er nær að halda að ég hafi verið í lægri kantinum þegar ég leyfði mér að spá því, að erlendar lántökur í endanlegri útgáfu lánsfjáráætlunar hjá ríkisstj. mundu stefna á 100 milljarða kr. Mér er nær að halda að niðurstaðan verði nær 110 milljörðum þegar öll kurl eru til grafar komin.

Ég vil aðeins geta þess, að ég hef bréf frá Seðlabanka Íslands, frá því í haust að vísu, þar sem Seðlabankinn áætlar lántökuþörfina vegna gjaldeyrisþarfar um 65–69 milljarða kr. og varar mjög við því að farið verði yfir 70 milljarða kr. í erlendum lántökum á árinu 1980 þar sem með svo háum erlendum lántökum væri stefnt í hættulega greiðslu- og skuldabyrði á árinu 1980. Hæstv. fjmrh. hefur haldið því fram að þessar tölur væru úreltar, þ.e. þær væru frá því í haust. Ég hringdi í Seðlabankann í morgun til þess að spyrjast fyrir um hvaða breytingar hefðu orðið á gengisforsendum í þessu sambandi frá því að bréfið frá Seðlabanka Íslands kom í mínar hendur í desember, þar sem varað var við að fara yfir 70 milljarða kr. í erlendum lántökum, og fékk það svar, að engar breytingar hafi orðið á þeim gengisforsendum sem þarna er miðað við. Hins vegar er mér kunnugt um að á fyrstu vikum á valdaferli þessarar hæstv. ríkisstj. hefur ein mjög mikilvæg forsenda breyst, og hún er sú, að í upphafi þessa árs var því spáð að ekki yrði halli á viðskiptum okkar við útlönd, en eftir nokkurra vikna valdasetu núv. hæstv. ríkisstj. er því spáð, að viðskiptahalli við útlönd á árinu 1980 verði um 20 milljarðar kr. Þetta er eina breytingin sem orðið hefur á þeim forsendum sem Seðlabanki Ístands gaf sér í janúar og febrúar, þegar hann miðaði viðvaranir sínar til ríkisstj. við að fara ekki fram yfir 70 milljarða í erlendum lántökum. Að sjálfsögðu mun hæstv. ríkisstj. jafna þann viðskiptahalla með erlendum lántökum ef ég þekki Alþb. rétt.

Aðeins á fyrstu vikum stjórnarbúskaparins hefur myndast halli í spám Seðlabanka Íslands vegna viðskipta landsins við útlönd upp á 20 milljarða kr., sem ég er sannfærður um að ríkisstj. ætlar sér að mæta með erlendri lántöku. Þess vegna þori ég að fullyrða um þá spá mína, að lántökuáform ríkisstj. yrðu hækkuð úr 70 milljörðum í 100 milljarða, færu sem sé 30 milljörðum kr fram yfir það sem Seðlabanki Íslands telur óhætt. Sú spá mín er kannske allt of lág. Ætli endanleg lántökuáform ríkisstj. í lánsfjáráætlun verði ekki nær 110 milljörðum en 100 milljörðum? Og ætli lántökurnar sjálfar, þegar upp verður staðið í haust og reikningurinn gerður upp, verði ekki komnar nær 120 milljörðum en 110 milljörðum? Ef fimm vikur á ferli ríkisstj. breyta viðskiptajöfnuði í 20 milljarða viðskiptahalla, hverju megna þá 40 vikur hjá svona ríkisstj. að breyta í því sambandi?

Við Alþfl.-menn höfum látið í ljós, eins og fulltrúar allra annarra þingflokka í vetur, nauðsyn þess að undinn verði bráður bugur að því að jafna kyndikostnað í þessu landi. Ég tel að það ríki mikill skilningur á því í þinginu hjá öllum þingflokkum og mikill stuðningur við slíkar aðgerðir hjá öllum flokkum. Við Alþfl.-menn höfum lagt fram tillögur á Alþ. um að þetta skuli gert. Í fyrsta lagi gerðum við ráð fyrir því í fjárlagafrv., sem við lögðum fram í desembermánuði s.l., að úr ríkissjóði yrði varið í þessu skyni 2.3 milljörðum kr., sem yrði framlag ríkisins til jöfnunar á kyndikostnaði, og auk þess höfum við lagt fram til kynningar á Alþ. frv. um orkuskatt og höfðum látið hefja sérstaka rannsókn og athugun á og samningu á frv. um verðjöfnunargjald, ef slík framkvæmd kynni að vera affarasælli og hentugri en orkuskattur. Tillögur höfum við þannig þegar gert um fjáröflun í þessu skyni sem nema meira fé en því sem hæstv. ríkisstj. er nú að biðja um að aflað verði til jöfnunar á húshitunarkostnaði.

En við Alþfl.-menn létum ekki sitja við þessar tillögur því að við 2. umr. fjárlagafrv. lögðum við einnig fram sérstaka tillögu um, að 4 milljörðum kr. skyldi varið úr ríkissjóði til að jafna húshitunarkostnað, og fluttum jafnframt till. um lækkun á öðrum útgjöldum ríkissjóðs til að standa undir þessari framkvæmd. Till. okkar voru hins vegar felldar.

Ég vek athygli á að við höfum lagt fram á Alþ. tvenns konar tillögur í vetur um jöfnun kyndikostnaðar, fyrst með fjárlagafrv., sem við lögðum fram í desember, og frv. um orkuskatt, sem kom fram skömmu seinna, og síðan fyrir nokkrum dögum, þegar við gerðum till. við 2. umr. fjárlaga um 4 milljarða kr. útgjöld ríkissjóðs til jöfnunar á kyndikostnaði og lækkun útgjalda ríkissjóðs að sama skapi.

Fjárlagafrv., sem hæstv. ríkisstj. segist byggja fjárlagafrv. sitt á, fjárlagafrv. hæstv. fyrrv. fjmrh. Tómasar Árnasonar, var líka með tillögur um að ríkissjóður legði ákveðið fé af mörkum í þessu skyni. Það fjárlagafrv. gekk einnig út frá því, að ríkissjóður legði fram til verðjöfnunar á húshitun 2.3 milljarða kr. Það, sem núv. hæstv. ríkisstj. hefur hins vegar gert við þetta frv. Tómasar Árnasonar, sem hún sagðist leggja til grundvallar sínu fjárlagafrv., er einfaldlega að hæstv. ríkisstj. hefur tekið þá 2.3 milljarða, sem bæði Tómas Árnason og ríkisstj. Alþfl. gerðu tillögur um að ríkissjóður legði fram til að jafna húshitunarkostnaðinn, og eytt í annað. Hún skilar fjárlagafrv. með gati hvað varðar framlag ríkissjóðs til að leysa húshitunarvandann. Hún er eina ríkisstj. á síðustu árum sem hefur lagt fram fjárlagafrv. þar sem ekki verður séð að svo mikið sem einni einustu krónu eigi að verja úr ríkissjóði til að leysa vandamál þess fólks sem þarf að búa við margfaldan kyndikostnað á við íbúa þéttbýlisins á Suðvesturlandi. Þessi hæstv.- ríkisstj. sá þvert á móti ástæðu til að eyða öllu því fé, sem tvær ríkisstj. þar á undan höfðu gert tillögur um að ríkissjóður innti af hendi í þessu skyni, og skilaði fjárlagafrv. til Alþ. án þess að gera ráð fyrir að ríkissjóður legði fram svo mikið sem eina krónur í því skyni að létta byrðar fólksins sem þarf að búa við margfaldan kyndikostnað á við okkur hin.

Hins vegar lýsti ríkisstj. því yfir, að hún mundi útvega þetta fé með sérstökum hætti fram hjá fjárlagagerð og sú tekjuöflun mundi nema 4–5 milljörðum kr. Þessu marglýsti t.d. hæstv. fjmrh. yfir á Alþ., að hann og ríkisstj. mundu leggja fram einhvers konar tekjuöflunarfrv. til að standa undir jöfnun kyndikostnaðar, sem ætti að skila 4–5 milljörðum kr. Nú hefur hæstv. ríkisstj. lagt fram slíkt frv. En því er ekki ætlað að skila 4–5 milljörðum kr., því er ætlað að skila tvöfalt hærri upphæð eða a.m.k. 11 milljörðum. Og sú upphæð á ekki að renna til jöfnunar á húshitunarkostnaði. Aðeins rúmur 1/3 hluti af þessu fé, eða 4 milljarðar kr., á að fara til að jafna kyndikostnaðinn í landinu. Næstum því 2/3 af fjármagninu eiga að renna í aðrar þarfir, bróðurparturinn af því til að standa undir öðrum útgjöldum ríkisins, því að hæstv. fjmrh. virðist hafa séð á síðustu dögum að fjárlagafrv. ríkisstj. stendur vægast sagt völtum fótum.

Ferillinn er ekki glæsilegur. Í fyrsta lagi eyðir ríkisstj. öllu því fé sem bæði þau fjárlagafrv., sem hún tók við, gerðu ráð fyrir að ríkissjóður legði fram af sinni hálfu til að jafna kyndikostnaðinn í landinu. Ríkisstj. eyðir öllu því fé í annað, sennilega í hæstv. landbrh., en hans sál tekur lengi við. Þegar hún er búin að því leggur hún fram frv. um orkujöfnunargjald, að því er hún segir, sem á að útvega ríkissjóði og leggja þá á landslýðinn um 11 milljarða kr. í nýjum sköttum. Hún, segist verða að gera þetta til að jafna húshitunarkostnað í landinu. En hvað ætlar hún að nota mikinn hluta af þessari fjáröflun til þess verkefnis? Rúman 1/3. 2/3 hluta ætlar ríkisstj. að nota í annað. Svo leyfir hæstv. ríkisstj. sér að kalla slíkt frv. frv. til l. um orkujöfnunargjald!

Eins og ég hef minnt á í umr., voru samþ. á s.l. vori lög sem við stóðum að, alþm. úr þrem þingflokkum. Þau lög voru mjög umdeild á margan hátt, mörg atriði sem menn voru ekki sammála um. En eitt atriði greindi menn þó ekki á um sem samþykktu frv. Það var ákvæði II. kafla þessara laga, ef ég man rétt, sem lögðu stjórnvöldum ákveðnar skyldur á herðar um samráð við aðila vinnumarkaðarins. Er sérstaklega tekið fram í þessum lögum, sem okkur ber öllum að starfa eftir, að samráð skuli sérstaklega haft við mörkun stefnu ríkisstj. um tekjuöflun til ríkissjóðs. Nú spurði ég hæstv. fjmrh. að því í síma í gær, hvort þessari sjálfsögðu reglu hefði ekki verið beitt af hæstv. ríkisstj., og léki hugur á að fá að vita hverjar væru umsagnir Alþýðusambands Íslands, Sjómannasambands Íslands, Bandalags starfmanna ríkis og bæja, bændasamtakanna og annarra slíkra um hina miklu hækkun á söluskatti sem hér er lögð til. Hæstv. fjmrh. sagði mér að ríkisstj. hefði að sjálfsögðu ekki haft tíma til að hafa samráð við þessa aðila. — Eini samráðsaðili ríkisstj. nú virðist vera hv. þm. Eggert Haukdal. Hann kemur í staðinn fyrir þá samráðsaðila sem mælt er fyrir um í Ólafslögum að ríkisstj. skuli hafa samráð við. Er það ekki lítill atgervisflótti að hverfa frá aðilum vinnumarkaðarins yfir til þessa hv. þm. Látum það nú vera. — Hitt tók hæstv. ráðh. fram, að að sjálfsögðu mundi ríkisstj. sjá til þess að umsagnir aðila vinnumarkaðarins yrðu fengnar um þetta mál í meðferð þess á Alþingi. Vænti ég þess, að á málinu verði þannig haldið af þeirri n., sem fær þetta frv. til meðferðar að lokinni þessari umr., að hún óski eftir því að fá viðbrögð samráðsaðilanna, annarra en hv. þm. Eggerts Haukdals, við þessu frv. Og ég sé ekki annað en Alþýðusambandið og aðrir aðilar vinnumarkaðarins þurfi a.m.k. lengri tíma en einn sólarhring til að tjá sig um þetta mál.

Afstaða okkar Alþfl.-manna til málsins er að sjálfsögðu sú, að við munum ekkert gera til að tefja fyrir því að málið gangi rétta boðleið um þingið. Við munum þvert á móti reyna að sjá til þess, að öllum vinnubrögðum og öllum þeim reglum, sem lög leggja okkur og stjórnvöldum á herðar, sé fylgt. Við munum óska eftir því, að aðilar vinnumarkaðarins skili umsögn um þetta frv. Okkur finnst það beinlínis móðgun við þessa aðila ef á að taka málið til 2. umr. þessarar hv. d. án þess að aðilar vinnumarkaðarins, og þá sérstaklega samtök launafólks, hafi fengið að tjá sig um málið. Og ég trúi því ekki, að hæstv. fjmrh. ætli að fylgja málinu svo fast fram að fá það afgreitt á þingi án þess að samtök vinnumarkaðarins hafi fengið tíma til að tjá sig um það. Slíkt væri ótvírætt lögbrot. Þá væri hæstv. ráðh. ótvírætt að brjóta lög sem hann átti sjálfur þátt í að setja fyrir örfáum mánuðum.

Í öðru lagi höfum við þm. Alþfl. áhuga á að sjá hvað ríkisstj. hyggst fyrir um ráðstöfun á þessu fé. Það kemur fram í aths. frv., að ráð sé fyrir því gert að á þessu ári verði 4 milljörðum kr. af þeim tekjum, sem frv. á að gefa, varið til að jafna kyndikostnað. En áður en þetta frv. er afgreitt er nauðsynlegt að fá að vita hvernig á að halda á því máli, hvernig á að ráðstafa þessum 4 millj. kr. til jöfnunar á húshitunarkostnaði. Við óskum eindregið eftir því, hæstv. fjmrh., að áður en frv. verður afgreitt verði lagt fram á Alþ. það frv. sem boðað hefur verið að muni fylgja þessu frv. og fjalla um ráðstöfun á þeim 4 milljörðum af orkujöfnunargjaldinu sem eiga að ganga til jöfnunar húshitunarkostnaðar.

Í þriðja lagi vil ég vekja athygli á því, að engin grein í þessu frv. kveður á um hversu lengi orkujöfnunargjaldið skuli innheimt. Eins og frv. er úr garði gert yrði innheimta á þessum 2% til viðbótar í söluskatti sjálfvirk áfram ár frá ári þangað til slík lög yrðu felld úr gildi. Menn skutu líka gæta að því, að í frv. sjálfu segir ekkert um að einhver hluti af þessu gjaldi skuli áfram renna til jöfnunar á húshitunarkostnaði. Það kæmi þá til ákvörðunar aftur á næsta ári. Þá væru líkur til þess, miðað við núverandi verðlag, að ríkissjóður mundi hafa í tekjur af þessu orkujöfnunargjaldi tl milljarða kr., en samkv. orðanna hljóðan ættu þá aðeins að núvirði 4 milljarðar af þeim 11 að fara í jöfnun hitakostnaðar. Þá er bróðurparturinn af gjaldinu orðin almenn hækkun á söluskatti til tekjuauka fyrir ríkissjóð. Við hljótum því að kalla eftir upplýsingum um það frá hæstv. ríkisstj., hvort virkilega sé ætlun hennar að lögfesta slíkt frv. um orkujöfnunargjald til frambúðar, og þá í öðru lagi, ef svo er, hvort ríkisstj. sjái enga ástæðu til að setja jafnframt inn í lögin ákvæði um að einhver tiltekinn hluti þessa orkujöfnunargjalds skuli ávallt ganga til jöfnunar á húshitunarkostnaði og til annarra framkvæmda á sviði innlendra orkumála.

Í fjórða lagi vil ég einnig vekja athygli á því, að hér er ekki gert ráð fyrir að sveitarfélög fái í sinn hlut neitt af þeim tveimur viðbótarsöluskattsstigum sem verið er að leggja fram tillögur um að samþ. verði. Í því sambandi vil ég leyfa mér að benda á að ef sveitarfélögin fengju sinn hlut af þessum tveimur söluskattsstigum með sama hætti og af hinum almenna söluskatti, yrði tekjustofnafrv., sem er nú til meðferðar í Ed., að mestu óþarft vegna þess að þá þyrftu sveitarfélögin ekki á 10% aukaútsvarsheimildinni að halda: Ef þau fengju sinn hluta af þeim tveimur söluskattsstigum, sem hér er verið að bæta við, er 10% aukaútsvarsheimildin óþörf. Menn skyldu hugleiða það líka.

Ég ætla ekki að hafa öllu fleiri orð um þetta mál, en bendi á að að sjálfsögðu hafa tveggja prósentustiga söluskattshækkun í för með sér stórhækkað vöruverð og enn meiri verðbólgu. Þetta mundi ég, eins og hv. 1. þm. Reykv. sagði áðan, kalla að telja verðbólguna upp, en ekki niður, og gæti vel verið að aðrar tekjuöflunarleiðir en söluskattshækkun væru hentugri til fjáröflunar í jöfnun kyndikostnaðar en hér er sýnt fram á.

Hitt vil ég enn taka fram, að í fyrsta lagi erum við Alþfl.-menn þess mjög hvetjandi, að sem allra fyrst verði ráðin bót á því misrétti sem landsmenn búa við í húshitunarmálum. Í öðru lagi vil ég benda á, að við höfum á þessu þingi tvívegis flutt um það tillögur að afla fjár í þessu skyni, fyrst í fjárlagafrv., sem við lögðum fram í des., þar sem við gerðum ráð fyrir að ríkissjóður legði fram 2.3 milljarða kr. í þessu skyni og síðan yrði viðbótarfjár aflað með orkuskatti, og svo aftur fyrir nokkrum dögum þegar við gerðum tillögur um 4 milljarða kr. framlag úr ríkissjóði í þessu sambandi og fluttum jafnframt tillögur um lækkun útgjalda ríkisins að sama skapi. Ég tel að þetta sýni ljóslega að við Alþfl.-menn styðjum eindregið að fjár verði aflað til jöfnunar á húshitunarkostnaði.

Það kemur að sjálfsögðu til skoðunar, ef ekki er nokkur lifandi leið að fá meiri hl. þingheims til að samþykkja ríkisframlag í þessu skyni, en önnur útgjöld ríkisins séu skorin niður, til að hægt sé að jafna kyndikostnað, að afla til þess fjár með sérstökum hætti. Þetta er vandamál sem verður að leysa. En ég tel mjög varhugavert, þegar um svona mikið hagsmunamál er að ræða, að gera sér leik að því að vera í skjóli slíks máls að sækja þrefalda slíka fjáröflun fyrir ríkissjóð. Hér er um að ræða, ef frv. verður samþ., að heimta 11 milljarða í nýjum sköttum í ríkissjóð. Af þeim á aðeins að nota 4 milljarða í jöfnun á húshitunarkostnaði, en aðgerðinni er gefið heitið orkujöfnunargjald, sem er nokkurs konar skálkaskjól fyrir aukna skattheimtu ríkisins.

Ég vil svo að endingu ítreka það, að við þm. Alþfl. viljum, áður en frv. verður afgreitt úr þinginu, fá að sjá það fylgifrv. sem hæstv. fjmrh. hefur boðað og fjallar um hvernig eigi að verja þeim 4 milljörðum, sem um er rætt, til jöfnunar húshitunarkostnaði. Við teljum einnig í hæsta máta óeðlilegt að þetta mál verði tekið til 2. umr. í þessari hv. d. án þess að fyrir liggi afstaða aðila vinnumarkaðarins og þá fyrst og fremst verkalýðshreyfingarinnar til málsins.