31.03.1980
Neðri deild: 54. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1561 í B-deild Alþingistíðinda. (1519)

Umræður utan dagskrár

Ólafur G. Einarsson:

Herra forseti. Ég hef kvatt mér hljóðs utan dagskrár til að vekja athygli á hvernig Ríkisútvarpið — hljóðvarp hagaði fréttaflutningi sínum í kvöld, — fréttaflutningi af því, sem helst er nú að gerast eða var að gerast í dag, bæði á hv. Alþ. og einnig hjá Verðlagsráði sjávarútvegsins að því er varðaði fiskverðsákvörðun.

Í kvöldfréttatíma útvarpsins voru viðtöl við þrjá ráðh., en afstaða stjórnarandstöðu komst lítt að í þessum fréttatíma. Fyrst er viðtal við hæstv. iðnrh., Hjörleif Guttormsson, um orkujöfnunargjaldið sem hér hefur verið til umr. í hv. d. í dag og verður áfram til umr. í kvöld. Þetta var langt og ítarlegt viðtal. Þá var viðtal við hæstv. sjútvrh., Steingrím Hermannsson, um fiskverðið svo og fulltrúa Sambandsins í Verðlagsráði sem manni virðist að sé sérstakur fulltrúi ríkisstj. í því ráði. Svo er klykkt út með viðtali við hæstv. viðskrh., Tómas Árnason, um gengisfellinguna sem framkvæmd var í dag.

Í þessu viðtali hélst hæstv. ráðh. uppi að segja að yfirlýsingar hans í dagblaðinu Vísi fyrr í dag um hvort gengisfelling yrði væru ekki í neinu ósamræmi við það sem svo varð um hádegisbilið. — Þetta er e.t.v. það alvarlegasta, að hæstv. ráðh. skuli leyfa sér slíkar skröksögur eins og hann viðhafði í dagblaðinu Vísi í morgun. Þar var hæstv. ráðh. spurður hvort hann sem yfirmaður bankamála mundi samþykkja ef Seðlabankinn ákvæði gengisfellingu, og var svar hans stutt og laggott: Nei. — Í viðtalinu hélt hann að vísu fram, að um þetta hefði ekki verið vitað fyrr en rétt fyrir hádegið. En það var viðtal við hæstv. ráðh. líka í sjónvarpinu þar sem hann sagði í lok viðtalsins að um þetta hefði verið vitað í gærkvöld.

Herra forseti. Ég veit að það er mikið annríki á Alþ. nú og ég skal því ekki hafa þessi orð mín miklu fleiri. En ég taldi nauðsynlegt að vekja athygli á þessum fréttaflutningi og lýsa óánægju minni með framkvæmd mála. Ég er í sjálfu sér ekki að finna að því að viðtöl, og þau mega vera löng og ítarleg, séu höfð við ráðh. En það er lágmarkskrafa til opinberra fjölmiðla að þeir sjái til þess, að sjónarmið stjórnarandstöðu komi jafnt fram sem sjónarmið ríkisstj.