31.03.1980
Neðri deild: 54. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1562 í B-deild Alþingistíðinda. (1521)

Umræður utan dagskrár

Árni Gunnarsson:

Herra forseti. Vegna þeirrar umr., sem hér á sér stað utan dagskrár og er mjög réttmæt að mínu mati, vil ég láta það koma mjög skýrt fram, að í fréttareglum Ríkisútvarpsins, sem fréttastofu Ríkisútvarps ber að starfa eftir, er þess rækilega getið að þegar fjallað er um mál eins og var gert í fréttatíma útvarpsins í kvöld skuli leita álits allra aðila. Þetta hefur verið sú gullvæga regla sem notuð hefur verið á fréttastofu útvarps og fréttastofu sjónvarps frá því að ég kynntist a.m.k. fréttastofu hljóðvarps fyrir u.þ.b. 17 árum.

Ég held að fréttastofa hljóðvarps hafi að undanförnu rækt sitt hlutverk mjög vel, og ég lít svo á að þetta atvik í fréttatímanum í kvöld hafi verið meira slys en hitt. Ég er nánast sannfærður um að það mun vera ætlun fréttastofu hljóðvarps að leita álits stjórnarandstöðunnar á þeim málum sem fjallað var um í fréttatímanum.

Hins vegar tel ég að raunverulega hafi átt sér stað nokkuð óvenjulegur atburður í fréttatíma útvarps í kvöld, þar sem rætt er við þrjá ráðh. um þrjú mjög veigamikil mál, einhver veigamestu mál sem komið hafa upp á þessu þingi í vetur, án þess að leitað væri álits stjórnarandstöðu að verulegu gagni. Og það sem ég tel alvarlegast, er að hæstv. viðskrh. skyldi komast upp með það í fréttatíma bæði hljóðvarps og sjónvarps og komast tiltölulega heilskinnaður frá fréttamönnum með að afneita því að um gengisfellingu hafi verið að ræða. Ég hef sjálfur sjaldan heyrt annan eins málflutning og hæstv. ráðh. í útvarpi og sjónvarpi í dag.