31.03.1980
Neðri deild: 54. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1573 í B-deild Alþingistíðinda. (1525)

136. mál, olíugjald til fiskiskipa

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Það er auðvitað ekkert nýtt að heyra það, að olíugjaldið svokallað sé deiluefni manna í millum og flokka. Þetta gjald hefur verið lítið misjöfnum augum alveg frá upphafi, og mín skoðun hefur verið sú alla tíð, að a.m.k. eins og olíugjaldið var á lagt og það hefur verið framkvæmt, þá væri það gert með óeðlilegum hætti.

Ég skal ekki við þessa 1. umr. eyða löngum tíma í málið.

Ég tek að sjálfsögðu undir það með hv. síðasta ræðumanni, að þetta mál eins og önnur hlýtur að fara til n. og fá þar eðlilega skoðun og allar þær upplýsingar sem nm. kunna að vilja fá fram.

Hitt er, að ég held, nokkuð ljóst að sjómannasamtökin í landinu hafa ekki verið hrifin af þessu gjaldi. O það má raunar segja að sú deila, sem nú er uppi á Ísafirði í sambandi við kjaramál og hér var rætt um áðan, hún er einmitt í nánum tengslum við þetta gjald. Menn telja að með þessu gjaldi sé verið að stiga skref inn á eitthvert hugsanlegt sjóðafyrirkomulag, eins og hér var fyrir nokkrum árum. Það dæmi var gert upp og menn töldu að þar með væri búið að slá striki yfir það og ekkert slíkt sjóðakerfi yrði myndað áfram. Þetta er, ef ég má svo orða, kannske „prinsip“-afstaða sjómannasamtakanna um það, að ekki verði farið aftur inn á sjóðakerfisfarganið eins og það var á sínum tíma.

Það er út af fyrir sig alveg rétt og ég tek undir það, að eðlilega hafa sjómenn gert ráð fyrir því, að þeir fengju sambærilega hækkun í gegnum fiskverð eins og kaup í landinu hækkaði 1. mars s.l. Þar vantar nokkuð á með þeirri fiskverðsákvörðun sem nú liggur fyrir. Ég hygg þó að viðhorf sjómanna til þess að lækka olíugjaldið úr 5% niður í 2.5% sé jákvætt og þeir telji að það sé a.m.k. skref í rétta átt, til þess þá í næstu atrennu að afnema olíugjaldið.

Sjálfsagt geta verið um þetta deildar meiningar, ég geri mér það ljóst. Ég hygg þó að almennt hafi sjómannasamtökin talið æskilegt, að þetta gjald yrði afnumið og ekki tekið upp fyrra fyrirkomulag með sjóðakerfisfarganið.

Talið er — og raunar kemur það fram í grg. með þessu frv. — að frá því að olíugjaldið var í janúar ákveðið 5% hafi olía hækkað minna en menn höfðu reiknað með þegar olíugjaldið var sett í 5%. Ég sé ekki að það sé alfarið nauðsynlegt að halda olíugjaldinu í 5%, ef það er staðreynd að olíuverð hefur hækkað minna en gert var ráð fyrir þegar gjaldið var sett í þessi 5%. Mér finnst það ekki sjálfgefið að útgerðin haldi þessum hlut, ef það er sannanlegt að ekki hafi orðið þær hækkanir á olíuverðinu sem gert var ráð fyrir þegar þessi skipting var ákveðin.

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem deilur eru uppi um ákvörðun fiskverðs. Ég tek að sjálfsögðu undir þá gagnrýni sem hér hefur komið fram, ekki bara núna, heldur og oft áður í þinginu, að auðvitað er ámælisvert að fiskverðsákvörðun skuli dragast úr hömlu núna í mánuð, fast í mánuð þar áður. Það er auðvitað óverjandi að ætlast til þess af sjómönnum, að þeir stundi þessa atvinnu án þess að hafa hugmynd um hvað þeir í raun og veru bera úr býtum, hver laun þeirra eru. Það er jafn ámælisvert fyrir núv. hæstv. ríkisstj. eins og þær sem áður hafa setið. Þær hafa fæstar, að ég hygg, hreinan skjöld í þeim málum. Ég hef ekki gert samanburð á því, hvort þessi er verst, en líklega er hún ekki best. Að sjálfsögðu fagna menn því almennt, að fiskverðsákvörðun er komin, en menn deila að sjálfsögðu um réttmæti þeirrar hækkunar sem hér er um að ræða.

Það var vikið í ræðu áðan að ráðstefnu sjómannasamtakanna, sem haldin var nú nýverið, og vikið að ályktun sem þar var gerð. Ég er sammála hæstv. sjútvrh. í því, að það hefði verið afskaplega óheppilegt, vægast sagt, ef nú hefði svo farið að oddamaður hefði úrskurðað fiskverðið. Það hefði að mínu viti haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar. Ég er síður en svo með þessu að segja að sú ákvörðun, sem nú liggur fyrir, sé sú eina og rétta. En ég held að margra hluta vegna sé æskilegt að reyna að halda því formi sem verið hefur nú um nokkurra ára skeið. Það, sem þaðan kemur, verður eins og öll mannanna verk umdeilanlegt hverju sinni, en ég held að almennt séu menn nokkuð sammála um að þessi aðferð við fiskverðsákvörðun sé hin besta sem menn hafa fundið til þessa.

Það er auðvitað augljóst mál, fram hjá því þýðir ekkert að ganga og undan því kemst hæstv. sjútvrh. auðvitað ekki, að hér er það auðvitað ríkisstj. sem ræður ferðinni. Það er ljóst mál nú eins og áður.

Hér var sagt áðan að öll breyting á olíugjaldinu frá því, sem það var ákveðið í jan. s.l., væri brigðmæli af hálfu löggjafans. Vel má vera að svo sé. Og engin afsökun er auðvitað, ef svona er með þetta mál, að löggjafinn hefur sannarlega orðið uppvís að mörgum brigðmælum í tímans rás. Ég er nú ekki alveg viss um að þetta sé rétt afstaða. Ég held a.m.k., ef hægt er að sýna fram á að útgerðin þarf ekki að bera eins miklar byrðar vegna olíuverðsins og gert var ráð fyrir þegar gjaldið var ákvarðað 5%, að þá sé það ekki alfarið skylda að standa á þeirri prósentu. Ég held að í þessu sem öðru verði oft að taka mið af kringumstæðum eins og þær eru hverju sinni.

Eins og ég sagði áðan skal ég ekki eyða löngum tíma í að ræða þetta mál við þessa umr. Ég á sæti í þeirri n. sem málið fer væntanlega til. Að vísu hefur engin till. verið gerð um það enn, hvert vísa eigi málinu, en ég vænti þess, að það fari í sjútvn. (Gripið fram í: Í ríkisstj.) Eða ríkisstj. aftur, kannske það. Og ég tek undir það, að auðvitað verður að gefa þeirri n. og þinginu tækifæri og tíma til þess að athuga þetta mál eins og önnur. En það virðist nú ekki vera sá gállinn á hæstv. ríkisstj. eða ráðh., að þeir ætlist til þess að þm. almennt fái mikinn tíma til þess að kynna sér mál sem hér eru lögð fram, sbr. það sem hér var lagt á borð þm. í dag um annað olíugjald eða orkuskatt. Það mál er búið að vera hér til umr. í þinginu allt frá því í des. að þing kom saman. Ríkisstj. hefur væflast með það mál frá því að hún settist á valdastóla, og meira að segja varð að gera hlé á þingfundum í dag vegna þess að a.m.k. einn stjórnarflokkurinn — eða hvort það á að segja annar stjórnarflokkurinn — þurfti tíma til þess að bræða saman afstöðuna til þess frv. En öðrum þm. er ætlað að afgreiða það mál á kannske nokkrum klukkutímum.

Hér eru auðvitað vinnubrögð á ferðinni sem eru ekki sæmandi Alþingi. Og það er ámælisvert af hæstv. ríkisstj. og ráðh. að ætlast til þess, að þingið afgreiði hér mál á færibandi. Ekki síst er það ámælisvert þegar um er að ræða svo stór mál eins og hér hafa séð dagsins ljós í dag, þegar verið er að auka álögur á landsmönnum svo milljörðum eða jafnvel tugum skiptir frá degi til dags. Ég held nú að hinir hógværari menn í stjórnarliðinu — eða a.m.k. vona ég það — fari að stinga við fótum og stöðva slíka framleiðslu af skattaáþján eins og núv. hæstv. ríkisstj. virðist ætla að koma á hér í landinu.