31.03.1980
Neðri deild: 54. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1575 í B-deild Alþingistíðinda. (1526)

136. mál, olíugjald til fiskiskipa

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Í sjálfu sér er óþarft fyrir mig að vera með ýkjalanga ræðu eftir hina ítarlegu ræðu fulltrúa okkar sjómanna og útgerðarmanna, hv. 1. þm. Vestfj., áðan. En það eru þó nokkur atriði sem ég vil drepa á vegna þess frv. sem hér er til umr.

Vil ég hefja mál mitt með því að taka undir með þeim tveim Vestfirðingum af þrem sem hér hafa talað í kvöld, að mál þetta fái eðlilega athugun í n., sem að sjálfsögðu hlýtur að vera sjútvn. þessarar d. og hv. Ed. (KP: Heldurðu að það sé öruggt?) Ja, ef ekki á að vísa málinu aftur til ríkisstj., þá tel ég eðlilegt að það fari til sjútvn. En ég tel að það þurfi ekki að pressa þetta mál fram með neinum sérstökum hraða, m.a. vegna þess að það hefur nú verið úrskurðað að fiskverð skuli vera eins og minni hluti nefndarinnar hefur ákveðið.

Það mun gefast og á að gefast tími fyrir aðila til þess að koma á fund þingnefndanna — þær geta vissulega haldið fundi sína sameiginlega — til þess að skýra afstöðu sína til þessa lagafrv. og til ákvörðunar yfirnefndarinnar, með hliðsjón af því sem hefur skeð á undanförnum vikum. Við skulum ekki gleyma því, að af þeim tæpu 90 dögum, sem eru liðnir af árinu, eru um 50 dagar sem ekkert fiskverð hefur verið til. Og þeir menn, sem stunda fiskveiðar, og reyndar aðrir, sem hagsmuna eiga þar að gæta, hafa ekki vitað með vissu upp á hvað þeir væru að róa. Nú vita þeir það. En þetta hefur borið þannig að, að það er auðvitað margra skýringa óskað og margra skýringa þörf. Ég bendi hæstv. ríkisstj. og sérstaklega hæstv. sjútvrh. á það í allri vinsemd að það er betra að fara með nokkurri hægð að afgreiðslu þessa máls úr þessu, m.a. vegna þeirra óeðlilegheita sem hafa átt sér stað í sambandi við afgreiðslu málsins til þessa. Ég tel það miklu betra fyrir hæstv. ríkisstj. að vinna þannig að málinu heldur en t.d. að fá flotann í hafnir landsins og samkomu enn á ný, ekki aðeins forustumanna sjómannasamtakanna alls staðar að af landinu að þessu sinni, heldur kannske áhafnanna líka, sem komi marsérandi til þess að mótmæla vinnubrögðum hæstv. ríkisstj.

Ég bendi á þetta m.a. vegna þess og í framhaldi af því, að í Sjómannafélagi Reykjavíkur, stærsta sjómannafélagi landsins, var samþykkt 19. mars fordæming á þeim drætti sem hefur orðið á ákvörðun fiskverðs. Stjórn þessa félags skoraði þá á landssamtök sjómanna að boða þegar til fundar með forustumönnum sjómannafélaganna sem tæki ákvörðun um hröð viðbrögð gegn þessu gerræði. Tveir hv. þm. hafa hér í ræðum í kvöld vitnað til þeirrar ráðstefnu, sem kölluð var saman snarlega eftir þessa áskorun stjórnar Sjómannafélags Reykjavíkur, þar sem tekið var undir þessa fordæmingu svo skýrt sem verða má. Ráðstefna forustumanna þessara samtaka lýsir því yfir, að hver sú ákvörðun, sem ekki tryggi sjómönnum réttmæta hækkun fiskverðs, sé hrein lögleysa. Þá er illa komið ef íslensk sjómannastétt á enn einu sinni að fá það framan í sig, sem hún hefur fengið frá þeim, sem ráða ferðinni í núv. ríkisstj., og fyrrv. ríkisstj. mótaði í viðskiptum sínum við þessa stétt — sem hún gerði reyndar líka við aðrar launastéttir þjóðarinnar, að lýst sé algerri fyrirlitningu á öllu því sem hún gagnrýndi ríkisstj. Geirs Hallgrímssonar hvað mest fyrir á sínum tíma, algerri fyrirlitningu á samningsrétti, hvort sem hann var gerður með undirskrift aðilanna á vinnumarkaðinum eða þessir sömu samningar væru jafnvel bundnir í lögum. Ég vitna og bendi til svokallaðrar eftirgjafar, sem auðvitað var ekki nein eftirgjöf því hún var í sjálfu sér ólýðræðisleg og ólögleg þegar skoðað er niður í kjölinn, eftirgjafa á móti svokölluðum félagsmálapökkum. Ég skal viðurkenna að á árinu 1978 og fram eftir árinu 1979 má halda því fram með nokkrum rétti, að ákveðnar stéttir, sem áttu sterka aðila, pólitíska vini og flokksbræður, í ráðherraröðum þáv. ríkisstj., fengu nokkuð út úr þessum félagsmálapakka og fengu nokkuð fyrir sinn snúð þess vegna. En það, sem aftur á móti var lofað íslenskum fiskimönnum, það var bókstaflega allt svikið 1978. Það sem þá var af þeim tekið og fært öðrum aðilum í þessari atvinnugrein skiptir milljörðum — skipti milljörðum þá. Ekkert af þessu er komið til baka aftur. Þeir áttu að fá um síðustu áramót 13.1% í fiskverðshækkun í framhaldi af hækkun sem orðið hafði hjá öðrum stéttum í þjóðfélaginu. Þeir fengu 11%. Þeir áttu að fá núna — og því er ekki mótmælt — eftir sömu reglum og samningum 6.67%. Þeir fá 4%.

Ef svona á að halda áfram lengi enn, og ef á að knýja þetta frv. fram með offorsi án þess að rætt sé við fulltrúa þessara manna, þá endurtek ég þau orð mín að ég held að það sé verr farið af stað en heima setið. Ég er hvorki með hótanir né neitt þess háttar í garð ráðamanna þjóðfélagsins í dag. Ég er bara að benda þeim á einfaldar staðreyndir, að svo má brýna deigt járn að það bíti. Og það er auðvitað ekkert réttlæti í því og það er ekkert lýðræði í því, að einn einstaklingur, sem hefur verið valinn af samtökum til þess að taka sæti í yfirdómi og er búinn að standa stífur á því um margra vikna skeið að fiskverðshækkun til sjómanna eigi að vera 6.67%, þegi allt í einu og dragi sig í hlé og segi ekki orð, en láti það lönd og leið að 4% fiskverðshækkun fari til sjómanna. Þetta er einn einstaklingur sem tekur þetta upp hjá sjálfum sér, að því er virðist, án þess að hafa samráð við nokkra aðra forustumenn í félögum sjómanna, hvað þá við félögin sjálf.

Ég talaði nú fyrir aðeins nokkrum klst. við formann stærsta sjómannafélags landsins, Sjómannafélags Reykjavíkur. Hann hafði þá átt símtal við formann Sjómannasambands Íslands, sem hafði þau orð að segja við þann sem spurði, að hann skildi ekkert í oddamanni sjómanna í yfirnefnd, hvað hann væri að fara eða af hverju hann tæki þessa afstöðu. Tekur hann þessa afstöðu vegna þess að hann er stuðningsmaður ríkisstj.?

Tekur hann þessa afstöðu vegna þess að hann var í framboði fyrir einn stærsta stjórnarflokkinn? Hvað er þarna á seyði? Eða er þetta eitthvað skylt því sem kemur fram hjá öðrum fulltrúa fiskkaupenda, sem var einn þeirra aðila sem harðastir voru í því að krefjast 12% fiskverðslækkunar, en samþykkir 4% fiskverðshækkun? Það er hvorki meira né minna en 16% fiskverðsmunur þarna á milli sem þessi fulltrúi ætlar líklega að meta á móti þeim fjórum atriðum sem hæstv. sjútvrh. rakti fyrir okkur áðan og ég fæ í fljótu bragði ekki séð að geti á nokkurn hátt komið á móti þeim mörgu milljörðum, sem þetta þýðir fyrir fiskvinnsluna.

Bent hefur verið á að þessi maður væri fulltrúi fyrir þau hraðfrystihús sem væru í eigu eða á vegum Sambands ísl. samvinnufélaga, kannske er einhver skýring þar á milli. En ég er viss um það, að ef hæstv. ríkisstj. undir forustu hæstv. forsrh. Gunnars Thoroddsen ætlar sér að standa við hluta af því, sem stendur í málefnasamningi hennar, þar sem lofað er að hafa samráð við launþegasamtökin, full samráð við launþegasamtökin og taka tillit til vilja þeirra og óska að sjálfsögðu eins og hægt er, þá ber að gera það nú. Ég skal viðurkenna að það er ekki alltaf hægt að koma á móti öllu sem þessir hópar biðja um. En ég tel nauðsynlegt að ríkisstj. beiti sér a.m.k. fyrir því, að þessum mönnum sé ekki misboðið einu sinni enn á þann veg sem nú virðist eiga að gera.

Það vekur hins vegar furðu mína á hversu kaldrifjaðan hátt núv. stjórnarherrar, og ég tala nú ekki um þeir sem einnig áttu sæti í síðustu vinstri stjórn,-hversu kaldrifjað þeir ganga til verks í því að svíkja allt það sem þeir töldu helgast þegar þeir voru í stjórnarandstöðu við ríkisstj. Geirs Hallgrímssonar. Samningana í gildi, — sei, sei, sei aldrei að breyta samningum með lögum, — ja, svei. Öll þessi helgu loforð þessara helgislepjutúlkenda lýðræðisins eru svikin hvað eftir annað í kross og aftur í kross.

Hæstv. ráðh. fór nokkrum orðum um afstöðu útgerðarmanna til fiskverðsákvörðunarinnar nú. Hv. 1. þm. Vestf. hefur reyndar komið mjög inn á þeirra mál. Ég vil þó enn undirstrika það sem hann sagði og lýsa furðu minni á ummælum hæstv. sjútvrh. þegar hann lætur hafa eftir sér hér á hv. Alþ., að vegna þess að þeir hafi ekki sagt upp fiskverðssamningum hafi mátt telja að staða þeirra væri það góð að nokkuð mætti beygja þá í hnjáliðunum. Um leið heldur hann því fram, sem mér þykir enn þá furðulegra, að vegna þess að tveir aðrir aðilar hafi sagt upp fiskverðinu séu samningarnir auðvitað lausir, og um leið séum við lausir allra mála við útgerðarmenn. Þetta er svo herfilegur misskilningur hjá einum af ráðh. ríkisstj., að tveir aðilar að samkomulagi eða samningum um fiskverð, þótt þeir segi upp sínu samkomulagi, séu þeir um leið að segja upp lögum Alþingis. Hvernig dettur hæstv. ráðh. slík vitleysa í hug? Við samþykktum lög á Alþingi í byrjun þessa árs um 5% olíugjald, og þótt einhverjir aðilar úti í bæ segi upp samningum dettur þá nokkrum í hug að þeir séu um leið að segja upp íslenskum lögum? Það er margt undarlegt sem kemur fram í túlkun hæstv. ráðh. um þessar mundir, ekki aðeins í sambandi við þetta mál, heldur mörg önnur.

Það hefur verið bent á það réttilega í umr. hér í kvöld, að það er auðvitað minni hl. í yfirnefndinni sem tekur þá ákvörðun sem tekin var. Og ég tel sjálfur að það sé afskaplega lítill munur á hvort umboðsmaður ríkisstj. í Þjóðhagsstofnun, sem gengur erinda hennar í þessum málum og fer að vilja hennar, hefur tekið þessa ákvörðun einn eða hvort hann hefur fengið sér til aðstoðar þann fulltrúa sem fer með umboð fyrir hraðfrystihús á vegum Sambands ísl. samvinnufélaga, aðeins lítinn hluta af fiskvinnslunni, t.d. hraðfrystiiðnaðinum í heild. Ég tel því að þarna sé um mikla minnihlutaákvörðun að ræða.

Til viðbótar því, sem ég sagði um útgerðarmennina, svo ég taki enn undir orð hv. 1. þm. Vestf., vil ég taka fram, að þegar þessi lög voru samþ. á Alþ. í janúar, lögin um hið sérstaka olíugjald, þá töldu menn auðvitað að þeir gætu reiknað með þessu sama olíugjaldi a.m.k. út þessa vertíð, að þetta væri skuldbinding sem ríkisstj. — með stuðningi ekki aðeins sinna stuðningsmanna, heldur og stjórnarandstöðunnar — mundi standa við. En þetta er hliðstætt við breytta afstöðu til launasamninga sem núv. stjórnarherrar hafa haldíð við eða tekið upp að nýju eftir að fyrri vinstri stjórn upphóf þann leik.

Það hefur nokkuð verið komið inn á tekjur sjómanna eða ráðstöfunartekjur, eins og hæstv. sjútvrh. kallaði þær. Áður en ég kem að því væri gott að fá frekari skýringar hans á því, hvort það sé ekki nokkuð öndvert í röksemdafærslu hans þegar hann minnist á hið skráða gasolíuverð í Rotterdam, sem sé lægra en það viðmiðunarverð sem gilti þegar gasolíuverðið var ákveðið. Samrýmist þetta að öllu leyti þeim röksemdum sem bornar eru fram í málflutningi um frv., sem lagt var fram hér í dag, um hækkun á söluskatti? Ég held að það væri ástæða fyrir nefndir, sem fá þessi mál til meðferðar, að skoða þetta aðeins betur.

Hér hafa líka komið réttilega fram þær skoðanir hæstv. ráðh., sem ég tek undir, að það er auðvitað ákaflega misjafnt hvernig olíukostnaður leggst á útgerð í þessu landi. Því fyrirkomulagi, sem haft er á olíugjaldinu, er engan veginn hægt að hrósa. Það er að sjálfsögðu mjög hagkvæmt fyrir þá útgerð, sem á flota sem getur farið rétt út fyrir nesin, sem marka af innfirði og víkur í heimabyggðum, að fylla sig þar á stuttum tíma og halda heim aftur. Það er mikill munur á slíkri útgerð og þeirra, sem gera út skip sem þurfa að sigla hundruð mílna til þess að komast á mið og sömu leið að sjálfsögðu til baka til þess að geta landað í sinni heimahöfn. Þetta fyrirkomutag er þess vegna langt frá því að vera nógu gott. Auk þess eru vonbrigðin sem það veldur, að þetta gjald skyldi vera tekið upp svo skömmu eftir að lögð hafði verið í það ekki aðeins mikil vinna, heldur blóð, sviti og tár, að koma sjóðagjaldinu af á sínum tíma, að þá skyldi vera byrjað á þessu gjaldi aftur á þennan veg. Ég tek því undir þau orð hæstv. ráðh., — og ég veit að hann mun fá stuðning margra manna til þess úr öllum flokkum - að það má til að reyna að finna einhverja aðra lausn, eitthvert annað fyrirkomulag en hefur verið fundið með þessu sérstaka olíugjaldi. Það er rétt að minnast á það einnig, að það hefur aldrei nokkurn tíma verið borið undir samningsaðila, sem semja um kaup og kjör sjómanna, hvort þetta fyrirkomulag ætti að vera eða ekki. Einn af forustumönnum sjómanna lýsti því yfir, og ég býst við að hann hafi haft meginþorra sjómanna á bak við sig í því, að olíuhækkunin, hin snögga og mikla olíuhækkun sem varð, ætti ekki að verða sérstök gróðalind fyrir fiskimenn. Hins vegar lá það heldur aldrei í hans orðum, að hún ætti að leiða til sérstaks taps fyrir þá, að hana ætti að nota til þess að hafa af þeim aðra þætti í lögbundnu og samningsbundnu samkomulagi.

Hæstv. sjútvrh. viðhafði hér orð nú í sinni framsöguræðu — og hefur reyndar gert það nýlega annars staðar opinberlega — sem eru í beinu framhaldi af því sem hæstv. viðskrh., sá sem hvað frægastur hefur orðið úr núv. hæstv. ríkisstj. fyrir yfirlýsingar sínar sem ganga þvert á hans eigin orð frá klukkutíma til klukkutíma, viðhafði hér í umr. utan dagskrár um daginn, en ég mótmælti. Hæstv. sjútvrh. hefur efnislega tekið skoðanir hans upp, því að hann sagði í viðtali við Morgunblaðið 28. mars, með leyfi forseta: „Við verðum hins vegar að líta til þess, að ráðstöfunartekjur sjómanna hafa aukist meira á undanförnum árum en hjá launþegum í landi og þótt aukinn afli hafi kallað á meiri vinnu, þá hafa einnig orðið róttækar breytingar um borð í skipunum til betri vinnuaðstöðu.“

Svo mörg voru þau orð. Og eftir að hafa heyrt þessa hugvekju frá tveimur hæstv. ráðh. Framsfl., þetta viðtal og fyrri ummæli hæstv. viðskrh., fékk maður svo í þokkabót að hlusta á eitt af þeim undarlegu fyrirbrigðum, sem Háskóli Íslands hefur ungað út, tala í þætti í útvarpinu í kvöld, hvar hann hafði orð á því í sambandi við baráttu sjómanna til að halda sínum kjörum, sem þeir hafa samið um, að þeir yrðu að passa sig svo að þeir yrðu ekki af aurum apar. Auðvitað kallar þetta á að hér á Alþingi sé nokkuð farið inn á þetta mál, svo að fjölmiðlar fái að vita um skoðanir sjómanna á þessum málum héðan og að sjálfsögðu sé um leið skráð í þingtíðindi hið rétta í þessu máli. Það kom réttilega fram hjá hv. 1. þm. Vestf. í ræðu hans áðan, að þessi mikla aflaaukning og um leið mikla tekjuaukning sjómanna — og útgerðarinnar sem oft gleymist að geta um leið — verður vegna þess að mennirnir, sem við þetta vinna, bæta við sig svo gífurlegri vinnu að það tekur engu tali.

Þetta kemur fram í viðtali í Dagblaðinu í dag við skipstjóra á einu mesta aflaskipi flotans, sem lýsir yfir að það þurfi alltaf að vera frívaktir, því það væri ekki nokkur leið að gera slík skip út með 15 mönnum, ef ekki væri staðin frívakt. Og hann er spurður, þessi skipstjóri: Þarf þá ekki að fjölga mönnunum? Nei, það vilja þeir náttúrlega ekki, af því að þetta kemur í törnum, suma daga er rólegt og aðra daga ekki. En það kemur eiginlega ekki sá túr, að ekki sé frívakt í 18 – 20 tíma.

Nú veit ég að þegar fólk heyrir þetta, þá gerir það sér ekki grein fyrir því, hver vinnutími þessara manna er. Hann er bundinn í lögum, sem varð að setja til þess að firra menn því sem þeim var boðið hér fyrr á árum, lögum sem voru að vísu sett fyrir nokkrum áratugum til þess að gera þetta starf ekki eins ómanneskjulegt og það var þá, lögum sem hafa tekið tvisvar meginbreytingum síðan, annars vegar þegar breytt var úr 12 og 6, eins og kallað var á togurunum, að þeir unnu í 12 tíma og fengu 6 tíma hvíld, og hins vegar og með síðustu stórbreytingu sem gerð var, að menn vinna í 12 tíma og fá 12 tíma hvíld á sólarhring eða 6 og 6. Þetta er hinn lögboðni vinnutími um borð í þessum skipum og þetta gildir að sjálfsögðu alla daga ársins sem skipið er að veiðum.

Ég lét vinna fyrir mig smáyfirlit yfir þann togarann sem var aflahæstur togara á árinu 1979, Reykjavíkurtogarann Bjarna Benediktsson. Hann fiskaði 5722 tonn á árinu á 361 rekstrardegi sem hann var á siglingu og að veiðum. Dæmi var tekið af netamanni um borð í þessu skipi, manni sem er orðinn fagmaður í sínu starfi eftir sitt langa og mikla starf og þá miklu þekkingu sem hann hefur öðlast á veiðarfærum og öðrum störfum um borð. Þegar út var reiknað reyndust tekjur þessa netamanns vera 610 268 kr. á mánuði. Ef farið er í samanburð og miðað við almennt yfirvinnuálag og almennt vaktaálag skilar hann 494 dagvinnutímaeiningum í mánuði. sem gerir í laun á klst. 1235 kr. eða 214 125 kr. á mánuði með 40 st. vinnuviku. Á meðan þessi maður um borð í togaranum hefur rúm 214 þús. fyrir þennan vinnutíma hefur hafnarverkamaðurinn 287 967 kr. Og ef við gerum þennan samanburð aðeins einfaldari og reiknum dagvinnutímakaupið út frá sama grundvelli, þá var meðalkaup 4. taxta hafnarverkamanns eftir eitt ár, árið 1979, 1389 kr., en hjá netamanni á þessum stóra togara 1235 kr. Árið 1980 hefur hafnarverkamaðurinn 1868 kr. á klst., en netamaðurinn á togaranum 1660 kr. á klst.

Nú er mér spurn: Í hverju liggur þetta kjaftæði, utangarnakjaftæði fjölmiðlamanna, ráðherra og ráðamanna, sem tala um þessa menn sem hátekjumenn? Hverjir eru lágtekjumenn í þessu þjóðfélagi og hverjir eru hátekjumenn? Hefur þessi hæstv. ríkisstj., sem hefur m.a. ætlað sér að leysa öll vandamál vinnumarkaðarins, reynt að gera sér grein fyrir því, hverjir eru lágtekjumenn í þessu þjóðfélagi og hverjir eru hátekjumenn? Er maður hátekjumaður vegna þess að hann er á lágu tímakaupi en vinnur ómanneskjulega langan vinnutíma og kemst í hálaun, vinnur vinnu sem verður að vinna við, vegna þess að hann getur t.d. á skipunum alls ekki neitað vegna laga, sem þar gilda, svokallaðra sjólaga. Og alls staðar, í hverri einustu verstöð allt í kringum landið, er fólk sem vinnur í frystihúsum og í fiskvinnslu. Það hleypur ekki burt þegar afli berst að landi. Það hleypur ekki burt úr vinnu. Það stendur meðan stætt er til þess að bjarga verðmætum undan skemmdum. Það hefur það ekki t.d. eins og starfsmenn í skrifstofum og ýmsum stofnunum, sem koma til vinnu kannske kl. hálfníu til níu og fara heim upp úr fjögur á daginn, en bera sig í launum saman við þetta sama fólk.

Ég held að hv. þm. — að ég tali nú ekki um þá menn sem er falin sú ábyrgð að taka að sér að stjórna landinu og sitja í ríkisstj. — ættu að fara að hugleiða þetta mál og hugleiða það nokkru nánar áður en þeir láta hafa eftir sér svona sleggjudóma og fullyrðingar sem ekki standast. Það er sannleikur að þessir menn, fiskimenn okkar, þeir vinna og skila ekki aðeins meiri afköstum en flestar aðrar stéttir þessa þjóðfélags, heldur gera þeir það undir þeim kringumstæðum sem engin önnur stétt þarf að gera því að þeir búa ekki aðeins við vosbúð í starfi heldur eru og í stöðugri hættu. Og ég veit að þeir muna það — því miður þurfa þeir að muna þann allt of ferska atburð — þeir þrír þm. Vestf. sem hér voru að tala áðan, að það eru fleiri fórnir sem þessir menn þurfa að færa, heldur eingöngu langan vinnutíma. Það ætti því enginn að sjá ofsjónum yfir því, þegar veiðiferðinni er lokið eða árið er á enda eftir slíkan þrældóm, þótt þeir geti komist upp í það að hafa laun á við meðaliðnaðarmann með miklu styttri vinnutíma, eða bara álíka og aðrir sambærilegir verkamenn í landi hafa með áþekkum vinnutíma.

Ég hefði satt að segja fulla ástæðu til að tala langt mál um þetta atriði og mörg önnur í sambandi við þá ákvörðun, sem hefur verið tekin í yfirnefndinni svokölluðu um fiskverð að þessu sinni, og ákvarðanir um fiskverð sem hafa verið teknar á undanförnum misserum og jafnvel árum. Það má vel vera að tími gefist til þess síðar í þessum umr. því af miklu er að taka. En ég endurtek þau orð mín, sem ég sagði áðan við hæstv. ráðh. og þá aðra sem hér eru og eru stuðningsmenn stjórnarinnar, að ég ráðlegg þeim í mestu vinsemd að halda áfram með þetta mál af fullri gát, láta skoða það vel, athuga, eins og á hefur verið bent hér, hvort eitthvað mætti koma á móti útgerðarmönnum vegna þeirra brigða sem þeir hafa orðið fyrir af löggjafanum ef þetta frv. verður samþ., og um leið að koma til móts við íslenska fiskimenn með því að láta þá njóta jafnréttis á við aðra þegna þjóðfélagsins. Ef við tökum t.d. bændur, þá eiga þeir nú um þessar mundir af 10 ráðherrum, 10 litlum negrastrákum í ríkisstj., a.m.k. 3–4 harða hagsmunabaráttumenn fyrir því, að samningar og lög um kaup þeirra og kjör séu haldin. Ég er satt að segja ekki með þessum orðum að öfundast yfir aðstöðu þeirra allflestra í dag. Það má ekki misskilja mín orð á þann veg. En gleymið því ekki, að þeir menn, sem hér hafa orðið fyrir barðinu á ólögmætri aðgerð að mínu mati, eiga betra skilið af Alþingi Íslendinga en að gangast undir slík ólög.