31.03.1980
Neðri deild: 54. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1602 í B-deild Alþingistíðinda. (1533)

135. mál, orkujöfnunargjald

Sjútvrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Ég ætla aðeins að fara fáum orðum um — ég vil segja: það siðgæði sem þessi hv. þm. hefur talið sig postula fyrir. Ég gerði aths. við það hér fyrr í dag, að hann hefði farið með rangt mál í ræðu sem hann flutti hér og birt er í Alþýðublaðinu 27. mars. Þar segir hann um það sem eftir mér er haft í Dagblaðinu, — held að það sé rétt að menn hafi myndina alla, segir hann:

„Hratt gengissig til bjargar fiskvinnslu. Víst er glæpur að segja það þó allir viti það,“ segir hér og síðan í fréttinni sjálfri gefur hæstv. ráðh. hverja yfirlýsinguna á fætur annarri í þessa veru og tiltekur að til standi að láta gengið síga um 15%, hvorki meira né minna.“

Þetta er haft eftir hv. þm. í Alþýðublaðinu. Hv. þm. las áðan hluta af því sem ég sagði og var í Dagblaðinu. Í því segir, með leyfi hæstv. forseta, eins og hann las áðan að hluta:

„Steingrímur bjóst við að aðgerðir ríkisstj. yrðu talsvert gengissig, þótt hann vonaði að það þyrfti ekki að verða 15%. Einnig beitti stjórnin sér fyrir öðrum aðgerðum til hjálpar fiskvinnslunni“ o. s. frv.“, ég tel það upp, ég skal ekki lengja mál mitt með því að lesa það, en ég segi síðan, að því miður muni þær ekki duga, þess vegna þyrfti gengissig að koma til einnig. Hvar segi ég aftur og aftur að það eigi að verða 15% gengissig og hvorki meira né minna? Ég lýsi því þarna yfir, að ég vonist til þess að gengissig verði ekki 15%.

Ég verð að segja að ég hef hlustað á margar ræður hv. þm., ósannindi hans og lygar um hina bestu menn úr þessum ræðustól — sem hafa verið honum og þinginu til skammar — hvað eftir annað. En ég hélt að hann væri ekki svo sokkinn í svaðið að hann tryði sjálfur þeim ósannindum. Hann ætti að viðurkenna ef hann hefur farið rangt með. Því miður finnst oft ekki mikið satt í þeim ræðum sem hann flytur hér úr þessum ræðustól. Ég held að hann ætti að bæta sinn hlut að þessu leyti og verða betri maður. (Gripið fram í: Dalton sagði af sér og þú ættir að gera það líka.)

Ég held að hv. þm. ætti að segja af sér eftir öll þau ósannindi sem hann hefur flutt. Ég vil gjarnan lýsa þeirri skoðun minni, að að mínu mati er rétt að þjóðin geri sér grein fyrir því, að þeirri verðbólgu, sem við erum í, fylgir gengissig, og kannske teita menn þá ekki svo mjög eftir ýmsum hækkunum sem leiða til gengissigs.

Mér þykir satt að segja undarlegt ef menn eru hlaupandi eftir lúxusvöru — kannske gerir hv. þm. það, ég veit það ekki — þegar gengissig hefur orðið eins og það hefur verið hér upp á síðkastið, menn þurfa þá að hlaupa æðioft. (Gripið fram í.) Ég legg áherslu á að ég mun halda þeim sið að segja þjóðinni það sem ég veit réttast og ekki skammast mín fyrir það.