31.03.1980
Neðri deild: 54. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1606 í B-deild Alþingistíðinda. (1535)

135. mál, orkujöfnunargjald

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Á þskj. 253 flutti ég brtt. Ég minnist þess ekki, ég biðst afsökunar ef það er ekki rétt hjá mér, en ég minnist þess ekki, að afbrigða hafi verið leitað fyrir því að þessi till. mætti koma fyrir. Er það svo? (Forseti: Það er að vísu rétt hjá hv. ræðumanni, að mér hefur orðið það á að leita ekki eftir afbrigðum fyrir brtt. á þskj. 253, en ég mun nú bæta fyrir það með því að leita eftir því að hún komi til afgreiðslu með frv., þegar því verður vísað til nefndar.

Ég flutti þessa brtt. við fyrirsögnina, að hún orðist svo: „Frumvarp til laga um breyting á lögum um söluskatt, nr. 10/1969, með áorðnum breytingum.“ Ég gerði það strax og frv. kom fram, meðfram vegna þess sem hér hefur verið lýst í ræðum hv. þm. sem hér hafa talað, að í nafninu er fólgin ein stórkostlegasta blekking sem hæstv. núv. ríkisstj. hefur borið á borð fyrir okkur þm. Það má jafnvel taka svo sterkt til orða, eins og hv. þm. Vilmundur Gylfason, 9. þm. Reykv., gerði, að fyrirsögnin væri byggð á upplognum forsendum. Annars ætla ég ekki að vitna mikið í ræðu hans né ræða heiðríkju svipsins á hv. þm. Stefáni Valgeirssyni þegar hann er að ígrunda afstæðiskenningu Einsteins. Hitt þótti mér samt nokkuð merkilegt, að þegar þessi hv. þm., 9. þm. Reykv., sagði hér úr ræðustól að ríkisstj. hefði verið stofnuð til að sprengja Sjálfstfl., þá var það einn af þm. Alþb., hv. 8. landsk. þm., Guðrún Helgadóttir, sem sagði að það hefði nú verið nokkurs virði. Þetta er alveg hárrétt. Það er ekki nokkur vafi á því, að þeir þm. Alþb. hafa lagt mikið upp úr þessu atriði og þeir hafa lagt meira upp úr þessu, þeir Alþb.-menn sem stóðu að myndun ríkisstj., að reyna að kljúfa Sjálfstfl. en að standa við eigin kosningaloforð eða bera af sér sannanleg svik við sína stefnu og heitstrengingar, bæði í síðustu alþingiskosningum og alþingiskosningunum þar á undan.

Flokksbræður mínir hv. þm. Ólafur G. Einarsson og hv. 1. þm. Reykv. hafa báðir í ræðum sínum í dag haft á orði að rétt væri að afgreiða þetta frv. á undan fjárlagafrv. Ég er ekki þeirrar skoðunar. Ég er þeirrar skoðunar, að við eigum að afgreiða fjárlagafrv. fyrst, m. a. vegna þess að þar erum við 10 sjálfstæðismenn með till. um hvernig eigi að ráða fram úr fjárþörf til þess að koma á móti olíuvandamálum. Og ég undirstrika það, sem allir ræðumenn hafa hér undirstrikað og við erum sammála um, að við viljum leysa þetta vandamál. Ég geri t. d. kröfu til þess, ég er ekki vanur að vera heimtufrekur hér í ræðustól, en mér finnst að ég eigi kröfu á því og við aðrir þm., að það verði athugað rækilega hvor leiðin sé heppilegri í þessu verðbólguþjóðfélagi okkar, sú leið sem 10 þm. Sjálfstfl. hafa bent á og lagt fram brtt. um við frv. til fjárl., þ. e. um breytingu eða lækkun á niðurgreiðslum á vöruverði, eða sú leið sem hér á að velja að till. ríkisstj. Ég tel að þetta sé grundvallarkrafa sem eigi að standa við, það eigi að rannsaka þetta nákvæmlega.

Við gerum okkur öll grein fyrir því, að það verður að finna fé til þess að standa undir þessum vandamálum, og ég held að það sé enginn, sem gerir sér ekki grein fyrir því um leið, að til þess að ná þessu fé verði að leggja ný gjöld á þjóðina í einni eða annarri mynd. En ég spyr enn og aftur: Hver er besta og hagkvæmasta leiðin fyrir neytendur í landinu, fyrir launafólk, fyrir þjóðina í heild? Ég held því fram og við sjálfstæðismenn, sem flytjum þessa brtt. sem ég hef getið um við fjárl., að það sé hagkvæmari leið fyrir alla aðila heldur en sú leið sem nú er valin með hækkun söluskattsins sem óhjákvæmilega vegna eðlis síns mun velta upp á sig ómældum verðhækkunum strax nú á næstu vikum og mánuðum. Það er meginerindi mitt í ræðustól nú að benda á þetta atriði og óska eftir þessu.

Ég hef sjálfur lýst því yfir hér í ræðustól, að ég hafi lofað að stuðla að afgreiðslu fjárl. fyrir páskahlé, þó að fullnægðu því skilyrði að lánsfjáráætlun væri lögð fram. Nú má segja að hún hafi verið lögð fram eða hluti hennar í dag, og auðvitað er sjálfsagt að ræða hana, a. m. k. útlínur hennar, samfara frv. sem hér er til umr., því að eins og við tókum fram strax við 2. umr. fjárlaga, sjálfstæðismenn, og reyndar við umr. um önnur nýskattlagningarfrv. sem ríkisstj. hefur verið að leggja hér fram, þá vildum við fá að sjá þá heildarskattlagningu sem verið er að leggja á þjóðina. Við sjáum það af því sem við höfum séð af lánsfjáráætluninni, að það mun verða eins og hv. þm. Sighvatur Björgvinsson benti á, að það verður farið yfir 100 milljarða, líklega í 110 milljarða, í stað þess að talað var um að lántaka ætti að vera í hæsta marki miðuð við 70 milljarða. Erlendar lántökur munu fjórfaldast eða fara í 21 milljarð úr 5 milljörðum og innlendar lántökur munu hækka um 91.2%.

Hv. síðasti ræðumaður benti hér á nokkur af þeim frv. sem liggja fyrir þinginu og munu valda stórkostlegum hækkunum á neytendum þessa þjóðfélags. Hann benti á bensínverðshækkun, sem er yfirvofandi, flugvallagjaldið. Skattstigafrv. er enn ekki komið fyrir þingið og það mun hafa sínar hækkanir í för með sér, ef nokkuð er að marka þá flumbrumenn sem hafa talað í nafni sumra flokka hér á Alþ. Og svo er olíugjaldið sem liggur enn þá fyrir þinginu.

Að sjálfsögðu hefði mátt fara mörgum orðum um framsöguræðu hæstv. fjmrh. En við 1. umr. sé ég ekki ástæðu til þess. Ég sé ekki ástæðu til þess að fara ítarlega út í einstakar greinar málsins fyrr en á seinna stigi, því að ég bíð þess að fá að sjá hvernig haldið verður á framkvæmdinni. Á það hefur verið bent af fleirum en einum aðila, að það er lagaleg skylda, það eru heitstrengingar stjórnmálaflokka, sem eiga fulltrúa hér á hv. Alþ., að hafa fullt samráð við aðila vinnumarkaðarins um mál eins og þetta, reyndar um mörg fleiri sem hér eru. Að vísu mun ég ekki láta mér bregða neitt þótt það verði svikið frekar en svo margt annað. (Forseti hringir.) Átti ég að hætta, forseti? (Forseti: Nei, alls ekki, ég er bara að æfa menn í að mæta hérna.) Það er nefnilega það. Á ég að bíða meðan forseti heldur æfingunni áfram? (Forseti: Ég læt vita þegar ég þarf á því að halda.) Hér hefur líka nokkuð verið rakin sú saga, sem ég skal ekki endurtaka, hvernig þetta mál hefur verið lagt fyrir þd. Því er hent hér inn eða birt þingflokkunum á hádegi í dag og síðan eigum við að taka við því og fullafgreiða það helst á tveimur dögum. Þetta er mál sem stuðningsmenn stjórnarinnar hafa sjálfir þurft marga daga til þess að komast inn í og skilja, og skildu ekki þegar þingfundur átti að hefjast í gær á venjulegum fundartíma, því að ítrekað þurfti að fresta fundum hér meðan verið var að ná samkomulagi meðal þeirra og koma þeim í skilning um hvað í húfi væri.