01.04.1980
Sameinað þing: 40. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1616 í B-deild Alþingistíðinda. (1539)

116. mál, fjárlög 1980

Geir Gunnarsson:

Herra forseti. Formaður fjvn. hefur gert grein fyrir till. sem fjvn. flytur sameiginlega við 3. umr. um fjárlög svo og þeim till. sem varða B-hluta stofnanir. Stuðningsmenn ríkisstj. í fjvn. flytja að auki á þskj. 268 brtt. við fjárlagafrv. Síðan frá þeim till. var gengið hafa flm. ákveðið að breyta þeim till. nokkuð og verður hér gerð grein fyrir þeim eins og þær verða fluttar á þskj. eftir að það hefur verið prentað upp.

Gert er ráð fyrir að inn í fjárlög komi í tekjuhlið Orkujöfnunargjald 6000 millj. kr., en um það gjald liggur nú fyrir stjfrv. á hv. Alþingi.

Þá gerum við till. um að inn í útgjaldahlið fjárlagafrv. komi nýr liður: Styrkur vegna olíunotkunar til húsahitunar 4 þús. millj. kr. Liðurinn Óviss útgjöld hækki um 500 millj. kr. og verði 1110 millj., en 1500 millj. kr. koma þá fram sem áhrif á rekstrarjöfnuð ríkissjóðs. Er með þessu gert ráð fyrir að á þessu ári verði 4000 millj. kr. markaðar sem beinn styrkur til húsahitunar, en allt að 500 millj. kr. verði varið til frekari niðurgreiðslna og orkusparandi aðgerða. Stjfrv. þar að lútandi mun væntanlega verða flutt á næstunni. Sú upphæð yrði þá tekin af liðnum Óviss útgjöld, sem hækkar nú um 500 millj. kr. í 1110 millj., eins og ég áðan sagði. Enn fremur flytjum við till. um hækkun flugvallagjalds um 350 millj. kr. í samræmi við framlagt frv. um það efni.

Þar sem þau frv., sem hér er um að ræða, eru til meðferðar í deildum Alþingis tel ég ekki ástæðu til að ræða þau mál efnislega vegna þessara till. sem fluttar eru til þess að í fjárlögum fyrir árið 1980 verði gert ráð fyrir orkujöfnunargjaldi og flugvallaskatti eins og ráðgert er að afgreiða frv. um þau efni á hv. Alþingi.

Samkv. þeim till., sem formaður fjvn. hefur gert grein fyrir, og till. samvn. samgm. og þeim till., sem meiri hl. fjvn., stuðningsmenn ríkisstj., stendur að, mun tekjuhlið frv. verða með niðurstöðutölunni 346 108 millj. kr., en gjaldahlið 343 240 millj. kr. Rekstrarjöfnuður verður því 2868 millj. Innstreymi á lánahreyfingum verður 11 758 millj., útstreymi 12 405 millj. kr. og útstreymi á viðskiptareikningum 750 millj. kr. Greiðslujöfnuður verður þannig 1471 millj. kr.

Ég vil að lokum ekki láta hjá líða að flytja samnm. mínum í fjvn. bestu þakkir fyrir gott samstarf í n. Starf fjvn. hefur verið með óvenjulegum hætti að þessu sinni þar sem þrjár ríkisstj. hafa setið og þrjú fjárlagafrv. hafa verið lögð fram á þeim tíma sem liðinn er síðan n. hóf að vinna að því að afgreiða fjárlög fyrir árið 1980, en fundir n. á þeim tíma nálgast líklega 80. Ég vil alveg sérstaklega flytja þakkir mínar til formanns n., hv. 5. þm. Vesturl., Eiðs Guðnasonar, sem hefur gegnt formannsstarfi við erfiðar aðstæður, en sinnt því starfi af stakri samviskusemi, verið samvinnufús við nm. alla og ötull og leitast við að halda uppi þeim góða anda sem jafnan hefur einkennt samstarfið í fjvn. hjá fulltrúum úr hinum ýmsu flokkum. Hann hefur gegnt formannsstarfinu með sóma.