01.04.1980
Sameinað þing: 40. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1629 í B-deild Alþingistíðinda. (1543)

116. mál, fjárlög 1980

Friðrik Sophusson:

Herra forseti. Hv. 3. þm. Norðurl. e., Lárus Jónsson, frsm. minni hl. fjvn., hefur fyrr á þessum fundi gert grein fyrir sjónarmiðum minni hl. Í ræðu hans kom fram sjónarmið minni hl. er varðar lánsfjáráætlun þá sem fjvn. fékk í hendur í gær og hefur verið dreift á þskj. eða fskj. til þm. og varðar A- og B-hlutann. Þar kemur fram, að um gífurlega hækkun á lántöku ríkissjóðs vegna A- og B-hluta fjárlaga verður að ræða á milli áranna 1979 og 1980 þegar annars vegar er miðað við fjárlög 1979 og hins vegar við lánsfjáráætlun 1980. Mun sú aukning nema um 240%. Þá ræddi Lárus enn fremur um afkomu ríkissjóðs miðað við endanlegar niðurstöðutölur fjárlagafrv. eins og þær eru nú. Í þriðja lagi kom fram hjá hv. frsm. minni hl. að um talsverðar og verulegar verðhækkanir verður að ræða fram á vorið á opinberri þjónustu ýmissa fyrirtækja og stofnana, sem selja þjónustu sína, og mun þeirra gæta sérstaklega fyrir 1. maí n. k.

Það hefur komið í ljós, að með aðgerðum sínum á milli 2. og 3. umr. fjárlagafrv. hefur ríkisstj. staðfest, að verðbólguþróunin verður meiri en í frv. er ráð fyrir gert, og allar líkur benda nú til þess, að á þessu ári verði verðbólgan jafnvel enn meiri en meðalverðbólga síðasta árs. Þær aðgerðir, sem ég á hér við og hafa komið fram á milli 2. og 3. umr., eru fyrst og fremst það frv. um söluskattshækkun, sem kom fram nýlega í hv. Nd., og hins vegar þær yfirlýsingar ríkisstj., að gengið verði látið falla eða síga hraðar en frv. gerir ráð fyrir.

Það er vissulega athyglisvert á þessari stundu að sjá að hv. þm., sem styðja ríkisstj., hafa nú breytt áætlunum sínum og breytt söluskattshækkuninni þannig að í stað 2% er nú ráðgert að hækka söluskatt um 1.5%. Þetta er athyglisvert sér í lagi vegna orða hæstv. fjmrh., sem hann lét falla þegar hann gerði grein fyrir frv. til breytinga á söluskattslögunum, því að hann sagði að það væri samdóma álit allra stjórnamálaflokkanna að ekki veitti af þessum fjármunum í ríkissjóð af því að borð þyrfti að vera fyrir báru. Nú hefur það gerst að sjónarmið hafa á einni svipan breyst. Hæstv. ráðh. hefur fallið frá fyrri skoðun sinni. Er þetta að sjálfsögðu yfirlýsing um að nú eigi að tefla á tæpasta vað og stefna að því að reka ríkissjóð með halla.

Við 2. umr. fjárlagafrv. ræddi ég nokkuð ítarlega um forsendur fjárlagafrv. og benti á að þær væru í verulegum greinum brostnar, gerði síðan grein fyrir sjónarmiðum sjálfstæðismanna um gerð fjárlaganna og loks rakti ég að nokkru þau sjónarmið sem sérstaklega varða Reykvíkinga, og þó einkum og sér í lagi þau sem snúa að heilbrigðismálunum. Við 3. umr. mun ég fyrst og fremst halda mig við brtt., sem n. hefur fjallað um, og nefna einnig nokkur atriði önnur sem ég tel ástæðu til að nefna sérstaklega þegar verið er að ljúka umr. um fjárlagafrv., sem eins og öllum er ljóst er mikilvægasta frv. sem afgreitt er á hv. Alþ. á hverjum tíma.

Í ræðu minni við 2: umr. gerði ég grein fyrir skoðunum framkvæmdanefndar Rannsóknaráðs ríkisins. Annars vegar gerði ég þetta til að lýsa þeim vilja, sem kemur fram í bréfi framkvæmdanefndarinnar til að setja fjárlög á verkefnagrundvöll fremur en stofnanagrundvöll, og hins vegar gerði ég grein fyrir þessum sjónarmiðum til að leggja áherslu á þá breytingu sem fram kemur í þeim viðhorfum að hafa fjárlagagerðina sveigjanlegri en hingað til hefur tíðkast. Þá á ég sérstaklega við það, að samráð við þá aðila, sem gera upphaflegu áætlunina, verði meiri og komi fram aftur eftir að fjvn. hefur fengið málið til meðhöndlunar. Með þeim hætti er tryggt að fjvn. komi til móts við þarfir og óskir þeirra sem sent hafa tillögur sínar til rn., þaðan til fjárlaga- og hagsýslustofnunar og fengið niðurskurð á báðum stöðum og jafnvel enn meiri niðurskurð í fjvn. sjálfri. Þannig er komið til móts við þá, að þeir fá tækifæri til að taka þátt í endanlegri ákvörðun málsins.

Vegna ágreinings Rannsóknaráðs við semjendur fjárlagafrv., eins og kemur fram í texta aths. fjárlagafrv., langar mig til þess, með leyfi forseta, að lesa örstutta ályktun sem samþ. var shlj. á fundi Rannsóknaráðs ríkisins 28. mars s. l. Þar segir:

„Með tilvísun til einróma ályktunar Alþingis frá 21. maí 1979 um langtímastefnu í rannsókna- og þróunarstarfsemi í þágu atvinnuveganna og með tilvísun til 25. gr. laga nr. 13 frá 1979, um stjórn efnahagsmála, óskar Rannsóknaráð ríkisins eftir því við ríkisstj. að framfylgt verði ofangreindri ályktun Alþingis.

Við ákvarðanir um málefni rannsóknastarfseminnar í þágu atvinnuveganna verði höfð hliðsjón af langtímaáætlun Rannsóknaráðs ríkisins 1976–1981 svo og síðari endurskoðaðri útgáfu hennar. Þá óskar ráðið eftir að haldið verði áfram því samráði sem hafið var við fjárlagaundirbúning 1980 milli rannsóknastofnana, fagráðuneyta, fjárlaga- og hagsýslustofnunar, fjvn. og Rannsóknaráðs ríkisins.“

Hér lýkur þessari ályktun Rannsóknaráðs, sem samþ. var shlj. hinn 28. mars s. l.

Í fyrri hluta ályktunarinnar er skorað á ríkisstj. að framfylgja eigin stefnu, og verður ekki annað sagt en það sé sanngjörn ósk. Ég veit að hæstv. fjmrh. skilur þennan málstað mjög vel þar sem hann var til svara á hv. Alþ., þegar umrædd þáltill. var samþ. fyrir tæplega ári í Sþ., og hafði þá mörg og góð orð um stuðning við þessa málaleitan, þá sem æðsti yfirmaður Rannsóknaráðs eða hæstv. menntmrh. Aðrir, sem tóku til máls við þá umr. og lofuðu og blessuðu þetta mál, voru ráðh. í þáv. ríkisstj. og eiga báðir sæti í núv. hæstv. ríkisstj.

Þá vil ég víkja að einu máli sem gerð er grein fyrir á þskj, og kemur fram sem breyting á lið 8 á þskj. 262 og fjallar um Hjálparstofnun kirkjunnar. Við 2. umr. var samþ. að hækka fjárframlag til Hjálparstofnunar kirkjunnar úr 1 millj. í 1 millj. 150 þús., en við 3. umr. leggur fjvn. til að þessi upphæð fari í 2 millj. kr. Ég tel ástæðu til að gera örstutta grein fyrir því, hvers vegna um aukið framlag er að ræða til Hjálparstofnunar kirkjunnar úr ríkissjóði samkv. þessari tillögu.

Hjálparstofnunin hefur haft 980 þús. til 1 millj. á fjárlögum allt frá árinu 1971 og hefur ekki hækkað þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir. Þó er það meginregla í starfi stofnunarinnar að reyna að byggja upp starf sitt án þess að skerða gjafafé sem fólk leggur fram til Hjálparstofnunarinnar og þarf að renna óskert til þeirra málefna sem Hjálparstofnunin styrkir á hverjum tíma. Stofnunin hefur beint og óbeint gengið erinda og starfað í þágu ríkisvaldsins og dæmi um slíkt er frá s. l. ári. Þá var safnað fyrir bættum aðbúnaði fatlaðra hér á landi. Safnað var 60 millj. kr., en reikna má með að upphæð sú hefði fyrr eða síðar komið úr ríkissjóði. Einnig var leyst beiðni, er ríkisstj. barst frá Sameinuðu þjóðunum, um kaup á eggjahvítuefnaríkri fæðu til flóttafólks í Zaire. Keypt voru að beiðni ríkisstj. 10 tonn af skreið fyrir 10 millj. kr. Þurfti í ofanálag að greiða 560 þús. kr. í útflutningsgjöld vegna þessarar fyrirgreiðslu við ríkissjóð sem ekki hefur fengist endurgreitt þrátt fyrir ítrekaðar óskir. Beiðni þessari hefði aldrei verið sinnt af hálfu Hjálparstofnunarinnar ef henni hefði verið tilkynnt af utanrrn. í upphafi að stofnunin þyrfti að greiða fyrrnefndar upphæðir, en líta má á þetta sem skatt á stofnunina fyrir að sinna beiðni ríkisstj. — Þetta nefni ég hér því að þetta skýrir í og með hvernig ríkið gefur og ríkið tekur aftur í þessum efnum. Er það náttúrlega stjórnvöldum hér á landi til háborinnar skammar. Þá má geta þess til viðbótar, að Hjálparstofnun kirkjunnar hefur oft og tíðum gripið verulega inn í, þar sem göt eru á opinberu tryggingalöggjöfinni, og hefur innt af hendi alls kyns fyrirgreiðslu í þá veru.

Næst vil ég nefna litla breytingu, sem þó er nokkuð stór í augum sumra, en hún varðar tölul. 13 á þskj. 262. Þar breytist textinn þannig, að í stað þess að standi Borgarspítali B-álma er þeirri upphæð, sem þeirri álmu var ætluð nú skipt í tvennt og er í tveimur liðum: Borgarspítali B-álma og Borgarspítali G-álma.

B-álma Borgarspítalans í Reykjavík er sú álma sem á að hýsa langlegusjúklinga og aldraða. Það var einmitt á þeim forsendum unnið að því máli með hjálp ríkisstj. og fjölda aðila að fá fjárveitingar til þessarar byggingar. Reykjavíkurborg hefur hins vegar lagt áherslu á G-álmuna svokölluðu, sem er þjónustuálma, og hún er nánast fullbúin nú. Í trausti þess, að Reykjavíkurborg láti til skarar skríða við B-álmuna eins fljótt og hugsast getur, var það samdóma álit flestra, ef ekki allra þm. Reykjavíkur að hægt væri að fallast á þá málaleitan að skipta þessari upphæð þannig að við þyrftum ekki að standa frammi fyrir því að G-álman, þjónustuálman, stæði hálfköruð og nýttist hvergi þótt allmiklum fjárhæðum hefði verið varið í þá byggingu úr vasa Reykvíkinga. Ég vil leggja áherslu á það í þessu sambandi, að þessi upphæð var, eins og ég sagði fyrr, fyrst og fremst sett inn á fjárlög með aðstoð hæstv. heilbrrh., m. a. til að sinna því hlutverki að koma til móts við þær miklu þarfir sem eru fyrir hendi svo hægt sé að hjúkra öldruðum.

Þá vil ég einnig í þessu sambandi nefna náskylt atriði, sem kemur fram í brtt. n. á þskj. 262 undir liðnum 7.5. Þar segir, með leyfi forseta, að fjmrh. eða ríkisstj. sé heimilt að gera í samráði við fjvn. Alþ. samning við Reykjavíkurborg um skuldir ríkissjóðs vegna framkvæmda í heilbrigðismálum. Það var að frumkvæði Reykjavíkurborgar sem þess var óskað að tekið væri inn á heimildargreinina ákvæði í þessum dúr, vegna þess að upp hafa hlaðist skuldir ríkissjóðs við Reykjavíkurborg fyrst og fremst í heilbrigðismálunum. Er talið að skuldin hafi numið við áramótin síðustu 848 millj. kr. þegar ekki hefur verið tekið tillit til hugsanlegra verðbóta, en væri þessi upphæð fyllilega verðbætt, sem hún er reyndar ekki, mætti þrefalda upphæðina og væri hún þá um það bil 2.5 milljarðar. Þm. Reykjavíkur hefðu að sjálfsögðu óskað að ákveðnara orðalag kæmist inn í heimildagreinina. En við verðum að sætta okkur við þetta orðalag eins og það er nú í trausti þess, að sá skilningur sé fyrir hendi af hálfu fjmrn. að það þurfi að ganga frá samningum við Reykjavíkurborg og endurgreiða þessa miklu skuld áður en í algert óefni rekur. Reykvíkingar voru tilbúnir til þess að lána talsvert fé til byggingar á sjúkrahúsum innan borgarmarkanna, en því miður er stefna ríkisins gagnvart þessu stóra sveitarfélagi þannig að það er nánast útilokað. Þetta nefndi ég reyndar sérstaklega í fyrri ræðu minni, en ég ítreka það hérna vegna þess að Reykjavík hefur nokkra sérstöðu vegna gífurlegrar stærðar sinnar sem sveitarfélags, en Reykjavíkurborg er langtum fjölmennari en þau sveitarfélög sem næst koma að stærð.

Um aðrar heimildagreinar get ég verið stuttorður, en vil þó nefna að í frv. er gert ráð fyrir því í lið 5.24, í 6. gr., á bls. 138, að ríkið hafi heimild til að selja Landssmiðjuna. Ég tel — og hef lýst þeirri skoðun minni í fjvn. — að með þessu sé verið að efa ríkinu heimild til að selja Landssmiðjuhúsið. — Ég biðst nú afsökunar á þessu. Það á auðvitað að vera hús Landssmiðjunnar, en ekki Landssmiðjan sjálf. Ég hefði unnið stórsigur ef hitt hefði tekist, en það var reyndar ekki. — En ég leyfði mér að lýsa því yfir að minn skilningur á þessu máli væri sá, að aðeins væri heimild til að selja húsið, en ekki til að taka þá fjármuni, sem þannig fengjust, og setja í annan og stórbrotnari rekstur, jafnvel innan sama sviðs. Vona ég að sá skilningur fái að standa. Því miður hafði iðnrn. svo mikið að gera við að reikna út skatta á landsmenn að fulltrúar þess gátu ekki komið á fund fjvn. til að gefa okkur haldbæra skýringu á því, hvað þarna væri um að ræða, en sjálfur hef ég átt kost á að kynna mér nokkuð þessi mál og veit að uppi eru talsverðar ráðagerðir af hálfu Landssmiðjunnar um að gerbreyta rekstrinum og sýnist sumt skynsamlegt í þeim efnum.

Þá vil ég geta þess hér, að inn á borð fjvn. kom beiðni frá Pósti og síma, studd af samgrn., þess efnis, að heimilt væri að fella niður öll aðflutningsgjöld af mælitækjum til að mæla tímalengd símtala innanbæjar í því skyni að fá þannig tækifæri til að heimta inn meiri gjöld hér í þéttbýlinu til að greiða niður símgjöld annars staðar á landinu. Þessi heimildargrein var að sjálfsögðu ekki tekin með í frv., enda er óeðlilegt að þessi ríkisstofnun njóti þeirra fríðinda að flytja inn í landið án gjalda tæki sem beinlínis eru sett til höfuðs ákveðnum gjaldendum og neytendum þeirra gæða sem póst- og símamálastjórnin sér um að framleiða í landinu. Hér er um að ræða gjaldskrármál sem fjvn. og aðrir aðilar hljóta að þurfa að skoða mun betur áður en gengið verður í málið.

Það má geta þess í þessu sambandi, að Neytendasamtökin og þó einkum og sér í lagi Gísli Jónsson prófessor, sem á sæti í stjórn samtakanna, hafa látið sig þetta mál nokkru varða. Ég vil leyfa mér, herra forseti, ef ekki koma fram mótmæli, að lesa örlítinn kafla úr viðtali við nefndan Gísla Jónsson, sem birtist fyrir skömmu í Dagblaðinu. Það hljóðar þannig:

„Við hjá Neytendasamtökunum getum ekki séð að nægileg rök hafi verið færð fyrir væntanlegri skrefamælingu Pósts og síma,“ sagði Gísli Jónsson prófessor þegar Dagblaðið hafði samband við hann. Gísli er manna kunnugastur um lög og reglugerðir Pósts og síma. Sem stjórnarmaður í Neytendasamtökunum hefur hann kynnt sér þau mál vel og rækilega.

„Þetta á að gera til þess að jafna símkostnaðinn innanlands, að því er sagt er. Mér og okkur finnst að þetta muni fyrst og fremst koma niður á öldruðu, fötluðu og sjúku fólki sem ekki á heimangengt og notar símann til þess að halda sambandi við vini og ættingja. Með nýja fyrirkomulaginu neyðist fólk til þess að skera niður símanotkun til almennra umræðna og verður þetta því til þess að fólk einangrast enn þá meira.

Ég er einnig hræddur um að opinberar stofnanir megi bæta símaþjónustu sína. Oft þarf að bíða tímunum saman eftir því að fá samband. Það verður dýrt fyrir almenning að þurfa að bíða langtímum saman í símanum á meðan skrefateljarinn gengur.

Auðvitað er gott út af fyrir sig að jafna gjöldin um landið, en í lögum um póst og síma nr. 36 frá 1977, í 11. grein, er ráðherraheimild sem hvergi hefur verið minnst á. Þar segir að ráðh. sé heimilt að ákveða að sama gjalds skuli krafist fyrir símtöl við helstu stjórnsýslustofnanir í landinu, sem staðsettar eru í Reykjavík hvaðan sem talað er af landinu. Mér finnst miklu nær að beita þessu ákvæði, en mér vitanlega hefur ekki verið minnst á það. Þetta hlýtur að vera framkvæmanlegt fyrst það er sett í lögin.“

Þetta les ég úr viðtali við Gísla Jónsson í því skyni að benda á að til eru færar aðrar leiðir en reynt var að koma inn hjá hv. fjvn. með þeirri tillögu sem henni var ætlað að afgreiða eins og hverja aðra færibandatill. með heimild í 6. gr. fjárlaga.

Í ræðu minni við 2. umr. minntist ég á sértekjur og þjónustugjöld sérstaklega í því skyni að þau mættu gjarnan hækka meira til að ná fram hallalausum rekstri ríkisstofnana. Í þessu sambandi þykir mér rétt að nefna það sem mína skoðun, að ég tel að Námsgagnastofnunin, sem farið hefur fram á talsverða fjármuni til rekstrar, eigi að leysa vandamál sín með því að taka meira gjald fyrir framleiðslu sína, sem er fyrst og fremst skólabækur. Það er löngu liðin tíð, að mínu viti, að ríkið þurfi að útvega skólabörnum ókeypis námsbækur. Það var á sínum tíma full ástæða til þess að svo væri gert, og því var þá fyrir komið með þeim hætti að sérstakt námsbókagjald var lagt á skattgreiðendur. En nú er tíðin önnur og engin ástæða til annars en fólk, sem á börn í skóla, læri að umgangast skólabækur eins og hver önnur verðmæti og að börn alist upp við slík sjónarmið. Því miður hagar því þannig, að í þessum efnum og reyndar í fjölmörgum öðrum stjórnast gjaldskrármál öll og þá um leið sértekjur ríkisstofnananna fyrst og fremst af vísitölunni. Það er hún sem hefur tekið stjórnina í sínar hendur hér á landi.

Ég hafði ekki hugsað mér og ætla mér ekki að minnast mörgum orðum á B-hluta fyrirtækin né önnur ríkisfyrirtæki almennt. Til þess gefst vonandi betri tími síðar. Ég vil þó nefna tvö fyrirtæki og taka þau út úr sérstaklega, annars vegar Rafmagnsveitur ríkisins og hins vegar Skipaútgerð ríkisins.

Eins og allir vita hafa Rafmagnsveitur ríkisins átt við mikla fjármagnsörðugleika og fjárhagsörðugleika að stríða undanfarin mörg ár. Vegna þess að um það hafa farið fram umr. á Alþ., að merkja þyrfti sérstaklega félagslegar framkvæmdir Rafmagnsveitna ríkisins, tel ég ástæðu til að benda á að það er ekki nóg að mínu viti að skipta framkvæmdum í annars vegar arðbærar framkvæmdir og hins vegar óarðbærar framkvæmdir og skýra svo þær óarðbæru félagslegar. Til þess að hægt sé að tala um félagslegar framkvæmdir þarf að koma til stjórnmálalegt mat. Mér er kunnugt um að að þessu er unnið annars vegar á vegum rafmagnsveitustjóra og hins vegar Brynjólfs Sigurðssonar hjá fjárlaga- og hagsýslustofnun. Ég vonast til að það mál komist í eðlilegt horf áður en næstu fjárlög verða gerð. Það er þó ástæða til að nefna að til Rafmagnsveitnanna fer í þessu fjárlagafrv. 1 milljarður sem var merktur sem félagslegur milljarður, en hann hvarf að sjálfsögðu í skuldahít Rafmagnsveitna ríkisins og er notaður til að borga niður gamlar skuldir. Þetta nefni ég ekki vegna þess að ég telji að það sé óeðlileg ráðstöfun fjárins, heldur vegna hins, að ég tel að Alþ. eigi að hafa með það að gera hvaða framkvæmdir í raforkumálum eru félagslegar og hverjar ekki.

Í sambandi við RARIK mætti líka benda á að með hækkuðum olíuniðurgreiðslum má búast við heldur lakari afkomu Rafmagnsveitnanna, vegna þess að húshitunarrafmagn, sem selt er á vegum Rafmagnsveitna ríkisins, er háð olíuverði og er ákveðið hlutfall af olíuverði.

Um Ríkisskip eða Skipaútgerð ríkisins er fjallað á þskj. 263. Þar kemur í ljós, sem ég tel vert að leggja sérstaka áherslu á, að gert er ráð fyrir að meðgjöf ríkisins með Skipaútgerðinni sé rúmur milljarður á þessu ári. Á fjárlögum 1977 var upphæðin 200 millj. Reyndar þyrfti ég að geta þess í leiðinni, að jafnframt er gert ráð fyrir að á lánsfjáráætlun komi 200 millj. til fyrirtækisins til að byggja skemmu við Reykjavíkurhöfn. Ég minnist hér á þetta sérstaklega vegna þess að það eru fleiri aðilar í landinu sem stunda flutningastarfsemi en Skipaútgerð ríkisins og ég tel að kominn sé tími til þess, að hv. Alþ. kanni með hverjum hætti best sé skipað samgöngumálum þjóðarinnar, sérstaklega að því er varðar vöruflutninga. Ég er sannfærður um að uppbygging Skipaútgerðarinnar hefur verið röng á undanförnum árum. Það má vel vera að áætlanir forstjóra fyrirtækisins séu á eðlilegum rökum reistar, en ég tel ástæðu fyrir Alþ. að skoða það mál vandlega áður en anað verður út í að kaupa ný skip og reyna þannig að fullnægja þeim þörfum, sem forstjórinn bendir á að séu nauðsynlegar, áður en nokkur athugun hefur farið fram á þessu máli.

Þá vil ég geta þess, að við hv. þm. Lárus Jónsson og Guðmundur Karlsson, sem skipum þann minni hl. í fjvn. sem er settur saman af stjórnarandstæðingum í Sjálfstfl., leyfum okkur að endurflytja till. á þskj. 243, VIII, um aðlögunargjald og vonumst til að sú till. verði samþ. á Alþ. Í till. koma fram þau áform að skila beri iðnaðinum þeim hluta aðlögunargjaldsins sem samkv. fjárlagafrv. er látinn fara í allt annað. Það er ástæða til þess að minnast sérstaklega á þetta atriði, þar sem gera má ráð fyrir að árið í ár sé síðasta árið sem aðlögunargjaldsins nýtur. Með þessum hætti, sem hér er gert ráð fyrir í frv., má segja að verið sé að ýta vandanum á undan sér til næsta árs, því að þá þarf ríkissjóður væntanlega að leggja fram 1 milljarð eða um það bil til þess að standa skil á loforðum sínum.

Á sama þskj. kemur fram till. frá hv. þm. Albert Guðmundssyni, till. nr. VI, þar sem gert er ráð fyrir lækkun á einum lið. Það sjaldgæft að hv. þm. flytji lækkunartill., en ég vil nota þetta tækifæri til að lýsa yfir stuðningi mínum við till. Þetta er lækkun á þeim lið undir fjmrn. sem gerir ráð fyrir til blaðanna fari 100 millj. Hefur sú upphæð hækkað á milli fjárlaga úr 60 millj. í 100 millj. Það er spurning hvort það sé hlutverk ríkissjóðs að fjármagna þessi blöð. Þetta nefni ég sérstaklega því að til viðbótar hafa — og það undrar mig — allir formenn þingflokka flutt tillögur um að ríkinu sé heimilt að kaupa aragrúa af dagblöðum sem setja á inn í opinberar stofnanir til að tefja þau störf sem þar eiga að fara fram. (MB: Þið ættuð að senda þau heim til manna.) Það væri miklu betra. Ég vona að hæstv. ráðh. hafi heyrt þessa tillögu.

Hv. þm. Sighvatur Björgvinsson flutti gagnmerka ræðu í gær í umr. Hann er fyrrv. hæstv. fjmrh., þannig að þm. taka almennt mikið mark á honum, eins og sjá má þegar til hans er vitnað í fjárlagaumr. þrátt fyrir að hann hafi staðið að úreltri útgáfu af fjárlagafrv. Hann sagði í umr. í gær, að líkast til færu lántökur ríkisins yfir 110 milljarða kr. á þessu ári. Það verður aldrei of oft sagt, að með því að leggja ekki fram fullkomna lánsfjáráætlun með fjárlagafrv. og með því að gera ekki grein fyrir öllum lántökum ríkissjóðs á fjárlagaárinu er verið að fela mjög mikilvægar staðreyndir fyrir hv. þm. — ekki aðeins staðreyndir sem hafa þýðingu á fjárlagaárinu, heldur hafa þýðingu langt fram í tímann því að með lánsfjáráætlun og með skuldbindingum ríkissjóðs er verið að ákveða fjölmarga liði á fjárlögum næstu ár. Þótt verðbólga hér á landi sé hugsanlega fyrst og fremst aðeins kostnaðarverðbólga svokölluð má gæta sín á því að auka ekki mjög verulega fjármagn í umferð, ekki síst þegar búið er nú að festa vaxtakjörin og gera þau óháð framboði og eftirspurn. Það er alþekkt og viðurkennt af öllum, sem eitthvað þekkja til efnahagsmála, að slíkt hlýtur að valda gífurlegri þenslu innanlands, sem lýsir sér í mikilli eftirspurn og að sjálfsögðu vaxandi og mjög mikilli verðbólgu. Við sjálfstæðismennirnir í fjvn. mótmæltum að sjálfsögðu þessum aðförum ríkisstj. með sérstakri bókun í hv. fjvn., eins og hv. frsm. minni hl., Lárus Jónsson, hefur þegar gert rækilega grein fyrir.

Eins og fram kemur í nál. minni hl. er allri ábyrgð lýst á hendur ríkisstj. og sjónarmiða hennar á hv. Alþ. vegna þeirra vinnubragða sem viðhöfð hafa verið þegar frv. er keyrt í gegn þrátt fyrir gerbreyttar forsendur vegna nýframkominna stjfrv.

Það er sérstök ástæða til að benda enn einu sinni á hvernig ríkisstj. hefur beinlínis notfært sér erfiðleika fólksins í landinu til að herða tekjuöflun sína. Þá á ég við þá erfiðleika sem fólk á olíukyndingarsvæðunum á við að glíma. Í þessu sambandi er rétt að rifja upp, að á sínum tíma voru teknir 2.3 milljarðar út úr fjárlagafrv. og þeir settir í allt aðra og óskylda hluti en til að greiða niður olíukyndinguna. Síðan leggur hæstv. ríkisstj, fram söluskattsfrv., sem gera mátti ráð fyrir að næði inn 8.2, jafnvel 8.4 milljörðum kr. Það hefur nú verið lækkað aftur með brtt. sem nýkomin er fram. En þeir fjármunir, sem þannig áttu að fást og heimtast inn sem orku jöfnunargjald, — það hét orkujöfnunargjald, ef ég man rétt, — áttu aðeins að litlum hluta að fara til slíkrar niðurgreiðstu. Ríkisstj. ætlaði sér að næla í 6 milljarða kr. með skattheimtu sinni á þeim fölsku forsendum að verið væri að hjálpa því fólki hér á landi sem hefur orðið harðast úti vegna orkukreppunnar. Slíkt framferði ber Alþ. að básúna, þannig að það komist rækilega til skila að hæstv. ríkisstj. misnotar sér aðstöðu sína og gerir bágindi fólks hér á landi sér að féþúfu. — Það er hins vegar ekkert óeðlilegt að það hafi gengið erfiðlega fyrir stjórnarliðið að kyngja þessum áformum að fullu. Mér er sagt að það hafi ekki eingöngu verið Gutenberg að kenna að ekki voru haldnir fundir í hv. Alþ. í dag heldur hafi farið fram heitir fundir meðal stjórnarflokkanna þar sem tekist var á um hvaða prósentustig skyldi lagt til grundvallar í atlögu ríkisstj. að íslenskum skattgreiðendum.

Það væri að sjálfsögðu hægt að ræða hér fjölmörg önnur atriði varðandi fjárlagaafgreiðsluna, en því miður gefst ekki mikill tími til þess. Það er ljóst að stefna ríkisstj. í verðlagsmálum hefur beðið skipbrot. Söluskattshækkun kemur til með að eiga sér stað, gengið hefur sigið, miklar hækkanir verða á þjónustugjöldum opinberra stofnana og verðlagsráð hefur neitað að verða við tilmælum viðskrn.

Þá er óþarfi að minnast á stefnu stjórnarinnar í skattamá(um. Síðan hæstv. forsrh. lét hafa eftir sér í dagblöðum um daginn að ekki yrði um skattahækkanir að ræða hefur varla stöðvast frumvarpaflóðið á Alþ. þar sem gert er ráð fyrir sífellt nýjum og nýjum sköttum. Þarf ekki annað en minnast á útsvarið á sínum tíma, sem auðvitað er skattar í augum almennings, flugvallarskatt, sem maður les um í fjárlagafrv. að komi til með að hækka, og söluskattsaukann sem ég nefndi áðan.

Gengismálin ætla ég ekki að fjalla um. Þau eru alþekkt hér sem umræðuefni undanfarna daga.

Í peningamálunum er sama uppi á teningnum. Vaxtastefnan er sú gamla stefna vinstri flokkanna að halda vaxtastig hafi engin áhrif á eftirspurn og framboð á fjármagni innanlands. Með lánsfjáráætlun virðist eiga að stórauka fjármagn sem í umferð á að komast.

Ég þarf ekki að minnast á ríkisfjármálin. Við höfum verið að ræða um fjárlagafrv, hér, en þar er að sjálfsögðu það megineinkenni vinstri flokka áberandi að ekkert má skera, ekkert spara, aðeins á að loka endum og hnýta fyrir með aukinni skattheimtu. Sjónarmið ríkissjóðs sitja í fyrirrúmi, en sjónarmið annarra verða að víkja. Þjóðhagsstofnun var beðin af fjvn. að endurskoða áætlanir sínar og skýra frá því, áður en fjárlög yrðu afgreidd á Alþ., hvað væri að gerast varðandi framfærsluvísitöluna. Eins og fram hefur komið er gert ráð fyrir að hún verði talsvert hærri en kemur fram í forsendum fjárlagafrv., talsvert hærri en ríkisstj. hefur gert ráð fyrir í sinni undirbúningsvinnu. Yfir þessu á ekki að gleðjast, en þetta er enn ein sönnun þess að ríkisstj. á við miklu meiri erfiðleika að etja en hún sjálf viðurkennir. (Gripið fram í.) Það verður alltaf að lifa í voninni.

Það kom fram í ræðu hv. frsm. minni hl. fjvn. að á fundi fjh.- og viðskn. í dag hefðu komið fram kröftug mótmæli frá launþegasamtökunum, BSRB og ASÍ. Þar er farið hörðum orðum um þá aðför að launamönnum sem mörkuð er með áformaðri söluskattshækkun. Ég ætla ekki að lesa þessar yfirlýsingar aftur, þær voru lesnar í ræðu hv. frsm. minni hl., en mig langar í þessu sambandi til að lesa þrjár eða fjórar línur úr stjórnarsáttmála ríkisstj. Gunnars Thoroddsens, með leyfi forseta. Þar stendur í upphafi kaflans um kjaramál:

„Á undanförnum árum hafa staðið yfir mikil átök um launamál. Ríkisstj. leggur höfuðáherslu á að leysa þau mál með samstarfi og samráði“ o. s. frv.

Þetta hef ég lesið úr því kveri sem mér var ráðlagt að lesa bæði kvölds og morgna og hef reynt að gera eins og tími hefur unnist til. (Gripið fram í: Þm. átti að kunna þetta utanbókar.) Ég er nú ekki sá moðhaus að ég leggi það í vana minn að læra svona hluti utanbókar, þótt ég viti að sumum gefst betur að reyna þá aðferðina. En ég get hins vegar upplýst hv. þm. um að ég geng alltaf með þetta kver í töskunni hjá mér og sýni það gjarnan vinum og kunningjum þegar við erum að skemmta okkur, og hafa menn mikið gaman af.

En það er ekki aðeins siðferðiskrafa launþegasamtakanna að hæstv. ríkisstj. hafi samráð við launþegasamtökin, það er bókstaflega lagaleg krafa því að um þessi mál eru til lög á Íslandi, ef ég má nota svo virðulegt nafn á lögum nr. 13 frá 1979. Í II. kafla þeirra laga er því lýst nákvæmlega, hvernig slíkt samráð eigi að eiga sér stað, og þar er sagt frá því, hverjir eiga að taka þátt í slíku samráði og út á hvað það eigi að ganga. Þar er nákvæmlega sagt frá því, að þegar fjallað er um mál eins og þessi — þetta er í 5. gr. — skuli hafa samráð við aðila vinnumarkaðarins. Það er auðvitað með lagalegum rétti sem launþegasamtökin hafa látið álit sitt í ljós. Það hlýtur nefnilega að þreyta þessi samtök til lengdar þegar sífellt er verið að rétta þeim félagsmálapakka í fallegum umbúðum með engu í.

En það eru ekki aðeins launþegasamtökin sem hafa látið álit sitt í ljós. Hv. fjh.- og viðskn. Nd. leitaði enn fremur umsagnar Vinnuveitendasambands Ísland og Verslunarráðsins um söluskattshækkunina. Þar er auðvitað tekið í sama streng og á það er bent rækilega í báðum erindunum að um er að ræða leið sem hlýtur að vera mjög örðug og varasöm fyrir ríkisstj., ekki síst ef þröngva á slíku máli í gegnum Alþ. á stuttum tíma. Ég ætla ekki að lesa úr þessum plöggum, en ég veit að hingað í ræðustól koma menn sem án efa munu skýra frá þessum sjónarmiðum.

Það hlýtur að vera spurning okkar nú þegar senn líður að þeim tíma að Alþ. verður að taka hlé frá störfum, hvað ríkisstj. hyggst gera í þeim málum sem enn eru ekki afgreidd á þessu þingi, en þarf að sjálfsögðu að afgreiða fyrr en síðar. Vegna seinlætis ríkisstj. eru þau mál nú komin í eindaga. Ríkisstj. verður þess vegna að sjálfsögðu að gera það upp við sig hvernig hún ætlar að standa að afgreiðslu mála á hinu háa Alþingi nú þegar við höfum aðeins nokkrar stundir til stefnu.

Hv. þm. Geir Hallgrímsson lýsti þeirri skoðun sinni í gær, að ef ríkisstj. legði á það ofurkapp að afgreiða söluskattshækkunina, auðvitað á sína ábyrgð, gæti stjórnarandstaðan að sjálfsögðu ekki lagt stein í götu hennar né breytt þeim áformum. Það sýnist vera miklu eðlilegra að láta slíkar skattahækkanir koma fram, láta þær ekki svífa í lausu lofti og hafa áhrif á spákaupmennsku hjá þeim sem hyggjast kaupa sér dýra vöru og hagnast þannig á því að kaupa hana fyrr en síðar. Ég veit ekkert um hvernig hæstv. ríkisstj. hefur ætlað sér að afgreiða þessi mál fyrir skírdag. Mér hefur þó verið sagt að hún leggi fyrst og fremst áherslu á fjárlagafrv. Sé það rétt getur hún keyrt það fram, en það hlýtur þá að vera á kostnað annarra mála.

Við gerum grein fyrir málstað okkar í nál. minni hl. fjvn. Þar kemur afstaða okkar skýrt fram. Við stöndum að sjálfsögðu fast á þeirri afstöðu og ætlumst til þess af hæstv. ríkisstj. að einhver talsmaður hennar komi hér í ræðustól, — þeir geta komið hingað hvenær sem er fyrirvaralaust, til þess hafa þeir frelsi og rétt samkv. fundarsköpum, — og segi okkur hvernig þeir ætli að standa að afgreiðslu þessara mála.

Ég vil að lokum nota tækifærið, eins og aðrir fjvn. menn sem hér hafa talað, og þakka nm. fyrir sér í lagi ágætt samstarf. Ég verð að segja að mér finnst það með þeim ágætum að ég vil gjarnan fá tækifæri til að skoða þetta frv. aftur og betur eftir páska.