01.04.1980
Sameinað þing: 40. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1678 í B-deild Alþingistíðinda. (1551)

116. mál, fjárlög 1980

Birgir Ísl. Gunnarsson:

Herra forseti. Hv. 9. þm. Reykv. hefur bæði í kvöld og í gærkvöld sagt okkur sögur af breskri pólitík, og við höfum hlýtt hér á sögur sem hann hefur sagt okkur af breskum ráðherrum. Í gærkvöld sagði hann okkur sögu af breskum ráðherra sem var of lausmáll og skýrði fyrir fram frá mikilvægum stjórnaraðgerðum og þurfti þar af leiðandi að segja af sér. Í kvöld fengum við sögu af breskum ráðherra sem neitaði stöðugt yfirvofandi gengisfellingu, gengisfellingu sem kom, og hann varð líka að segja af sér. Með þessu er hv. þm. búinn að rökstyðja með eftirminnilegum hætti að hæstv. sjútvrh. Steingrímur Hermannsson eigi að segja af sér fyrir lausmælgi, eins og breski ráðherrann í gærkvöld, og að hæstv. viðskrh. Tómas Árnason eigi líka að segja af sér fyrir þagmælsku, eins og breski ráðherrann í kvöld. Svona geta menn látið gamminn geisa, og er ekki nema gott eitt um það að segja.

Það væri freistandi að ræða almennt um þetta fjárlagafrv., fara nokkrum orðum um þær meginstefnur sem í því felast. Það væri freistandi að ræða um stefnu þessa frv. varðandi fjármál ríkisins, þá gegndarlausu erlendu skuldasöfnun sem þetta frv. ber með sér. Það væri freistandi að ræða þá stefnu í skattamálum sem fram kemur í þessu frv. og reyndar þeim frv. sem dembt hefur verið yfir hv. Alþ. nú undanfarna daga. Það væri líka freistandi að ræða stefnu eða stefnuleysi þessa frv. í peningamálum, gegndarlausa seðlaprentun sem stefnt er að með þessu frv., og það væri líka freistandi að ræða það, hvaða afleiðingar þetta fjárlagafrv. sé líklegt til að hafa varðandi verðbólgu í landinu, en þetta frv. er mjög verðbólguhvetjandi eins og það lítur nú út. Ég ætla þó ekki að falla í þá freistni því að þessi meginstefna, sem í því felst, hefur ítarlega verið rædd af ýmsum öðrum ræðumönnum í þessari umr. í dag og í kvöld. Ég get þó ekki orða bundist að vekja sérstaka athygli á einu atriði varðandi þá tekjuöflun, sem nú er ráðgerð, og þá sérstaklega því ráðleysi sem fram kemur í meðferð ríkisstj. á svonefndu olíujöfnunargjaldi, sem þó er ekki annað en viðbótarsöluskattur.

Í gær mælti hæstv. fjmrh. fyrir frv. um þetta olíujöfnunargjald, en það felur í sér tvö ný söluskattsstig, og þessi tvö nýju söluskattsstig áttu að gefa í tekjur 7 milljarða kr. á þessu ári. Og í samræmi við það var flutt brtt. frá nokkrum þm. undir forustu hv. þm. Geirs Gunnarssonar við sjálft fjárlagafrv., þar sem nýr liður, orkujöfnunargjald, kom inn í tekjulið frv. upp á 7 milljarða.

Í dag hefur síðan verið útbýtt hér til okkar þm. brtt. við frv. frá því í gær, þannig að tvö söluskattsstig eru nú orðin 1.5. Jafnframt er lögð fram ný brtt., reyndar með sama þingskjalsnúmeri, en þar stendur: „Leiðrétt þingskjal.“ Þar eru 7 milljarðarnir komnir niður í 6 milljarða. Nú er það alveg ljóst, að önnur hvor þessara fjárhæða er vitlaus. Ég hef ekki fengið neinar skýringar á því í þessari umr., hvernig á þessu stendur, en þó sýnist mér að það sé augljóst að sú tala, sem hæstv. fjmrh. flutti okkur í gær, hafi verið röng, þannig að þetta frv., eins og það var lagt fram í gær, gefi í raun meiri tekjur en okkur var skýrt frá og fyrri brtt. sagði fyrir um. Mér er nær að halda að það gefi 8 milljarða kr. Þessi flumbrugangur við undirbúning svo stórs máls, svo alvarlegrar till. eins og hér er lögð fyrir hv. Alþ., — slíkur flumbrugangur er að sjálfsögðu algjörlega ósæmandi vinnubrögð af hálfu nokkurrar ríkisstj.

Ég vildi aðeins vekja athygli á þessu til þess að sýna hvernig vinnubrögð eru hér viðhöfð í þessu máli, og vonandi fáum við þm., hvort sem það verður í kvöld eða við umr. um olíujöfnunargjaldið á morgun, einhverja nánari skýringu á þessu máli. En þessa nýju skattlagningu ætla ég ekki að ræða frekar, þar sem hún er sjálfstætt mál sem mun koma til sjálfstæðrar umr. hér síðar.

En það er fleira sem má lesa út úr þessu fjárlagafrv. en stefna eða stefnuleysi í efnahagsmálum eða fjármálum ríkisins. Það má líka lesa út úr þessu frv. stefnu í ýmsum smærri málum, sem almenningur lætur sig þó miklu skipta. Ég ætla að gera eitt þeirra mála að umtalsefni, aðeins eitt, þannig að ég mun ekki taka langan tíma frá hv. þm. hér í kvöld.

Þetta eru fjárframlög til dagvistarheimila og þá ekki síst dagvistarheimila í mínu kjördæmi, Reykjavík. Hér er um að ræða málaflokk sem Alþb. hefur sérstaklega helgað sér. Alþb. hefur í orði kveðnu komið fram sem sérstakur málsvari þeirra sem þurfa á slíkri þjónustu að halda. En því miður stangast á orð og efndir í þessum málaflokki, eins og í ýmsum öðrum sem Alþb. kemur nálægt.

Í rauninni læddist fyrsti grunur að manni um raunverulegan hug Alþb. í þessum málaflokki þegar Alþb. fékk úrslitaáhrif í málum Reykjavíkurborgar. Á þeim vettvangi hafði Alþb. í mörg ár hamrað á því, að ekki væri nóg að gert í þessum efnum, meðan Sjálfstfl. hafði meiri hl. í Reykjavík. Þó var Reykjavíkurborg undir forustu Sjálfstfl. brautryðjandi í þessari mikilvægu félagslegu þjónustu, eins og reyndar í ýmsu öðru sem að félagsmálum lýtur. Þessi grunur um áhugaleysi Alþb. staðfestist í borgarstjórn á s. l. ári, þegar ljóst var að ekki varð framkvæmt fyrir nema hluta af því fjármagni sem áætlað var til þessa málaflokks. Fjárhagsáætlun fyrir árið 1979 gerði samtals ráð fyrir að 358 millj. kr. yrðu notaðar til byggingar dagvistarstofnana, en af þessu fjármagni voru aðeins notaðar um 262 millj., tæplega 100 millj. kr. var ekki eytt á árinu. Það liggur fyrir, að þetta var sjálfstæð ákvörðun, að draga úr framkvæmdum við þennan málaflokk. Áhuginn er ekki meiri en svo.

Þetta rifja ég hér upp sem nokkurs konar forleik að því sem nú er að gerast í þessum málaflokki við þessa fjárlagagerð að því er snertir Reykjavík.

Árið 1979 voru á fjárlögum ætlaðar til dagvistarstofnana í Reykjavík 143 millj. kr. Samkv. því fjárlagafrv., sem hér liggur fyrir, er gert ráð fyrir 170.6 millj. kr. til þessa málaflokks árið 1980. Hækkunin er 33.5%, sem er langt undir verðbólgu. Það er sem sagt um að ræða verulegan samdrátt í þessum framkvæmdum. Það er gert ráð fyrir því að minna sé hægt að framkvæma fyrir fjárframlög ríkisins á árinu 1980 heldur en á árinu 1979 í þessum uppáhaldsmálaflokki Alþb.

Skuld ríkissjóðs um áramót vegna framkvæmda, sem þegar hefur verið unnið að, er um 167.1 millj. kr., þannig að framlagið á þessu fjárlagafrv. dugar rétt fyrir þeirri skuld sem þegar hefur stofnast. Miðað við vísitölu, eins og hún var í ársbyrjun 1980, þyrfti framlagið að vera, burt séð frá þessari skuld, 224.2 millj. kr., miðað við þær hugmyndir, sem eru nú uppi um byggingu dagvistarstofnana í Reykjavík, og miðað við vísitölu í marslok þyrfti framlagið að vera 253.5 millj. kr.

Eftir öll stóru orð Alþb. í þessum málaflokki í borgarstjórn, í Þjóðviljanum og jafnvel hér á hv. Alþ. hefði mátt ætla að einhverjir af þm. Alþb., einhverjir af Reykjavíkurþingmönnum Alþb., t. d. 8. landsk. þm., Guðrún Helgadóttir, sem oft gerir þennan málaflokk sérstaklega að umtalsefni, eða hæstv. félmrh., Svavar Gestsson, eða hv. 11. þm. Reykv., Ólafur Ragnar Grímsson, að einhverjir þessara manna mundi nú taka sig til, bæta hér um og flytja brtt. til þess að færa þetta til betri vegar.

Ég hafði ekki hugsað mér að flytja till. um þennan málaflokk né aðra til hækkunar á þessu fjárlagafrv. En ég beið í ofvæni eftir því, að áhugaliðið um dagvistarmálin hér í Reykjavík flytti slíka brtt., og ég ætlaði mér að styðja hana. En ekkert slíkt hefur gerst. Þessir hv. þm., sem ég gat um áðan, eða aðrir þm. Alþb. hafa hvorki hreyft legg né lið í þessu máli.

En hvað er hér að gerast? Í málefnasamningi ríkisstj. er sérstaklega vikið að þessum málaflokki. Þar segir á bls. 4, undir liðnum efnahagsmál og undir liðnum kjaramál, í 2. tölul.:

„Til þess að draga úr almennum peningalaunahækkunum er ríkisstj. reiðubúin til þess að beita sér fyrir eftirtöldum ráðstöfunum í tengslum við kjarasamninga.“

Og síðan segir í staflið a: „Á árunum 1980 og 1981 verði tryggðir 5–7 milljarðar kr., sem renni m. a. til eftirtalinna verkefna.“ Síðan er talið í fyrsta lagi bygging verkamannabústaða, í öðru lagi bygging hjúkrunar- og dvalarheimila aldraðra, en í þriðja lagi til byggingar dagvistarheimila.

Á sameiginlegum fundi, sem haldinn var með borgarfulltrúum í Reykjavík og þm. Reykjavíkur í síðustu viku, þar sem rætt var um ýmsa þætti fjárlaganna, var þetta m. a. gert að umtalsefni, og þetta var eitt af því sem borgarfulltrúar í Reykjavík kvörtuðu yfir. Þá gaf hæstv. félmrh. mjög athyglisverða yfirlýsingu, sem var eitthvað á þá leið, að í væntanlegum samningum við verkalýðssamtökin yrði hugsanlega samið um aukið fjármagn til dagvistarstofnana. Hann gat þess ekkert hvaðan ætti að taka þétta fjármagn, hvort það ætti að taka það með nýjum sköttum, en ljóst var að það átti þá að gerast utan við fjárlög á einhverjum síðari stigum málsins. En það, sem er þó athyglisverðast við þessa yfirlýsingu, og reyndar fellur hún alveg saman við stjórnarsáttmálann og þau ákvæði sem ég las áðan, er það, að áhugi Alþb. á þessum uppáhaldsmálaflokki sínum er ekki meiri en svo, að það á að versla með dagvistarheimilin. Það er nú vísvitandi dregið úr fjárframlögum til dagvistarheimila til þess að geta fengið verkafólk til þess að sætta sig við lægri laun og kaupa það á þann hátt með auknum fjárframlögum til dagvistarstofnana. Það er með miklum ólíkindum hvernig að þessu máli er staðið og hversu gróflega Alþb. gengur á svig við öll sín fyrri loforð og öll sín stóru orð um þennan málaflokk.

Herra forseti. Ég gat þess í upphafi, að ég hefði ekki hugsað mér að ræða fjárlagafrv. almennt við þessa umr. Ég vildi aðeins drepa hér á eitt mál, að vísu mál sem snertir fjölda fólks og margir bíða í ofvæni eftir að fá einhverja lausn á. En því miður virðist þetta fjárlagafrv. ekki leysa úr því. Og það sem verra er, það er stefnt að því að versla með þennan mikilvæga málaflokk í þeim kjarasamningum sem standa nú fyrir dyrum, án þess þó að nokkur grein sé gerð fyrir því, hvernig eigi að afla fjármagns til þess að standa við þau kaup, þegar þau hafa verið gerð.