20.12.1979
Efri deild: 8. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 124 í B-deild Alþingistíðinda. (157)

9. mál, olíugjald til fiskiskipa

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Það er ljóst að sú hækkun á olíuvörum, sem öllum landsmönnum er kunn, hefur skapað margvíslegan vanda í þessu þjóðfélagi, og er nauðsynlegt að sá vandi sé leystur á þann hátt að allrar sanngirni sé gætt og þær aðferðir, sem farnar eru til lausnar þessum vanda, hafi ekki í för með sér að einstakir aðilar hagnist um of eða fái í sinn hlut umframtekjur í samanburði við þann kostnaðarauka sem olíuhækkunin veldur.

Ég er þeirrar skoðunar, að sú aðferð, sem hér er farin í 1. gr. um 9% olíugjald miðað við fiskverð, feli í sér verulega mismunun og geri það að verkum að ýmsir, jafnvel mjög margir aðilar fari mun betur út úr þessu heldur en nemur olíuhækkuninni, þannig að þessi aðferð geti beinlínis haft í för með sér hagnað, ef svo má orða það, á olíuvandanum fyrir einstaka aðila. Ég vil þess vegna óska þess við hæstv. sjútvrh., að hann greini frá því þegar þetta mál kemur hér til 2. umr., og beina því til þeirrar n., sem þetta mál fær til meðferðar, að aflað verði upplýsinga um hvernig þessar breytingar, hækkanir á olíugjaldinu miðað við fiskverð annars vegar og hækkandi olíukostnað hins vegar, hafa komið niður á mismunandi útgerðarstöðum eða útgerð eftir landshlutum og eftir mismunandi legu til þeirra miða sem viðkomandi útgerðaraðilar sækja aðallega á, þannig að það yrðu veittar upplýsingar um tegundir útgerðaryfirtækja eftir landshlutum, t.d. nokkur á meginfiskvinnslustöðum Vestfjarða, önnur á Norðurlandi, þriðju á Austurlandi og svo á Suðvesturlandi, svo að hægt sé að bera rækilega saman hvernig þessi aðferð kemur niður eftir aðstöðu manna og ljóst megi vera að sú aðferð, sem hæstv. ráðh. hefur beitt sér fyrir bæði hér og áður, hafi í för með sér þær sanngirnisniðurstöður sem við hljótum allir væntanlega að vera sammála um að eigi að einkenna þær lausnir sem fundnar eru á þeim vanda sem hækkanir á olíuverði skapa. Ég vil sem sagt eindregið óska eftir því, að slíkra upplýsinga verði aflað og hæstv. ráðh. eða sú n., sem fær þetta mál til meðferðar, láti d. þær í té áður en endanleg afstaða er tekin til málsins.