02.04.1980
Neðri deild: 55. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1713 í B-deild Alþingistíðinda. (1580)

135. mál, orkujöfnunargjald

Frsm. 3. minni hl. (Karvel Pálmason):

Herra forseti. Áður en ég vík að því að ræða það mál, sem hér er til umr., þykir mér ástæða til að fara örfáum orðum um nokkuð af því sem fram kom hjá hv. frsm. 1. minni hl., formanni fjh.- og viðskn. Það var merkilegt að hlýða á þennan annars ágæta þm., hv. þm. Halldór Ásgrímsson, upprennandi stjörnu innan Framsfl., æskja þess sérstaklega að framin yrðu helgispjöll á Alþ., óska eftir að fundir yrðu á morgun. Og í beinu áframhaldi af því vildi ég gjarnan spyrja hæstv. forseta hvort hann hyggist verða við þessari beiðni framsóknarfulltrúans um að helgispjöll verði framin á Alþ. með fundarhöldum á morgun. (GJG: Má ég minna hv. þm. á að verkalýðsfélögin - ). Ég beindi ekki spurningu minni til hv. þm. Guðmundar J. Guðmundssonar, en vegna ástands í sálarlífi hans undanfarna daga og ekki síst með tilliti til þess máls sem hér er til meðferðar, þá er ekki óeðlilegt og ég tek það ekki illa upp og frekar vorkenni honum að hann skuli tala með þessum hætti. Ég var ekki að spyrja um frystihús eða Dagsbrún eða neitt slíkt. Ég var að spyrja um Alþ. (Gripið fram í.) Ég bíð þess að hæstv. forseti greini frá því á eftir, hver ætlun hans er gagnvart þessari ósk formanns fjh.- og viðskn. Það kemur í ljós. (Gripið fram í.) Það kemur væntanlega á eftir álit formanns Verkamannasambandsins varðandi það mál, sem hér liggur fyrir til umr., og hver afstaða hans kann að vera varðandi það, að sjálfsögðu þá sem umbjóðanda þeirra félaga og einstaklinga sem innan þess sambands eru.

Það er sjálfsagt að nota þann tíma, sem eftir er fram til matarhlés, til að ræða um þessa hlið mála. Það er ástæðulaust að fara að byrja á aðalefni málsins fyrr en eftir hádegi úr því sem komið er.

Það er ekkert nýtt að sjálfsögðu, að mönnum þyki óeðlileg og óæskileg vinnubrögð viðhöfð á Alþ., jafnvel í hinum stærstu og mestu málum. Ég hef ekki lengi setið á Alþ., en ég hef oft látið það í ljós að mér finnst allt of oft á því bera að hér eru í raun og veru stjórnlaus vinnubrögð. Ég er ekki með þessu að ásaka hæstv. forseta, ég vil taka það fram. Hér er fyrst og fremst um að ræða málatilbúnað hæstv. ríkisstj. á hverjum tíma. En ég held að nú keyri úr hófi fram varðandi málsmeðferð á Alþ. Hér er fleygt á borð þm. hverju stórmálinu á eftir öðru og til þess ætlast að þeir taki afstöðu til þessara mála án þess að hafa til þess tækifæri, nema að örlitlu leyti, að kynna sér efni og innihald málanna sem um er að ræða.

Hæstv. forsrh. — og ég met það mikils hjá honum, ég skal taka það fram strax — ber mikla umhyggju fyrir virðingu Alþingis. Ég er sammála honum um að þar þarf um að bæta og auka þarf virðingu Alþ. frá því sem verið hefur. En það verður ekki gert með vinnubrögðum eins og hér hafa verið viðhöfð á undanförnum dögum. Það þurfa gjörbreytt vinnubrögð að koma til í sambandi við afgreiðslu mála hér ef það á að verða til að auka virðingu Alþingis.

Hv. þm. Halldór Ásgrímsson sagði áðan, og í sjálfu sér er ég sammála honum í því, að það væri afskaplega óæskilegt að mál eins og þetta væru lengi til meðferðar í þinginu. En svo er spurningin hvað menn telja lengi. Ég hygg að hann sé mér sammála um að það verði ekki litið svo á að þetta mál hafi verið lengi í þinginu. Það kemur fram á mánudegi. (Gripið fram í: Það er útlit fyrir það.) Það er lagt fram á mánudegi, hv. þm., og það er ætlast til að málið hafi hlotið sex umræður í báðum deildum á þremur dögum ásamt öðrum þeim málum sem hér eru til umr. og lokaumræðu og afgreiðslu fjárlaga. Ég vísa því alfarið á bug að það sé að sakast við stjórnarandstöðu þó að hún hlaupi ekki upp til handa og fóta til afgreiðslu á málum sem því sem hér er til umr. án þess að fá nægilegt tækifæri til að gera sér grein fyrir efni málsins og hvaða afleiðingar það kann að hafa. Ég veit ekki betur en t. d. ég hafi verið hér sveittur við í allan gærdag að hlaupa á milli funda fyrir hv. stjórnarliða til að greiða fyrir málum. Ég hafði ekki einu sinni aðstöðu til þess að vera hér og hlýða á umr, eða taka þátt í þeim. Og er það kannske hvað verst.

En svona gengur þetta til, að það eru mörg stórmál til umr. og meðferðar á sama tíma í þinginu og það er ætlast til þess, að þm. afgreiði þau svo til á stundinni með handauppréttingum með eða á móti. Þessu verður að breyta. Og þó að sumir hverjir hv. flokksbræður hæstv. forsrh. hafi ekki mikla trú á að hann breyti þessu, þá er ég a. m. k. að vona að hugur hans stefni til þess að breyta vinnubrögðum frá því sem verið hefur.

Það var að mínu viti vonlaust mál hjá hæstv. ríkisstj. að ætlast til þess á sunnudagskvöldið s. l. að stjórnarandstaðan fengi ekki meiri tíma til að kynna sér það mál, sem hér er um að ræða, en fram til miðvikudags og þá ætti að ljúka málinu á Alþ. Og það er með ólíkindum ef ekki hefur verið til þess tími hjá hæstv. ríkisstj. að ganga frá þessu máli með einhverjum öðrum hætt: í hendur þingsins, því að vandamálið, sem hæstv. ríkisstj. hyggst leysa með þeirri skattheimtu, sem hér er nú til umr., er búið að vera til umr. í þinginu allt frá því í desember meira og minna. Það hefur staðið upp á hæstv. ríkisstj., frá því að hún var mynduð í byrjun febrúar, að taka afstöðu til málsins. Það verður því að vísa til hæstv. ríkisstj. og stjórnarliða á Alþ. ef mönnum sýnist langur tími í það fara að koma þessu máli frá þinginu. Ég tel það ekki langan tíma þó að þetta mál yrði ekki afgreitt fyrr en eftir páska. En þar er ekki við stjórnarandstöðuna að sakast, heldur við hæstv. ríkisstj. og stjórnarliða.

Hv. formaður fjh.- og viðskn., frsm. 1. minni hl., vék að nokkrum atriðum og sagði í fyrsta lagi að allra upplýsinga, sem um hefði verið beðið, hefði verið aflað, að undanteknu því sem hann gat réttilega um, hvernig ætti að ráðstafa þeim fjármunum sem hér er verið að afla. Og mér skildist — vel má vera að það sé misskilningur — á hv. þm., og auðvitað væri ég sammála honum um það, að það væri ekkert vandamál hjá hæstv. ríkisstj. að eyða þessum peningum öllum og þótt helmingi meiri hefðu verið. Hún verður ekki í vandræðum með það. En spurningin er ekki um það. Við viljum fá að vita hver verður framkvæmdin á ráðstöfun þess fjár sem hér er verið að leggja til að afla. Og það er auðvitað meginspurningin. Auðvitað hefði það átt að vera svo, hefði allt verið með felldu, að samhliða tekjuöflunarfrv., sem hér er til umr., hefði komið frv. sem gerði grein fyrir því, með hvaða hætti ætti að ráðstafa fjármununum.

Það er óeðlilegt að mínu viti, að alþm. sé ekki gerð grein fyrir því, þegar verið er að leggja til skattahækkun upp á um 11 milljarða miðað við eitt ár, — að jafnhliða sé ekki gerð grein fyrir því með hvaða hætti og á hvern hátt á að ráðstafa því fé. Um þetta hafa ekki fengist neinar upplýsingar aðrar en þær, að tæplega helmingur af þessu fjármagni eigi að renna samkv. því frv., sem hér er um að ræða, til jöfnunar á upphitunarkostnaði.

Frá því að núv. hæstv. ríkisstj. kom til valda, sem er að nálgast tvo mánuði að ég hygg, hefur hún verið æðidugleg að koma í gegn á Alþ. málum sem hafa leitt til stórkostlegrar skatthækkunar, aukinnar skattbyrði miðað við það sem áður var. Það má raunar kannske furðu telja hversu greiðlega hæstv. ríkisstj. og stjórnarliðum hefur gengið að koma öllum þessum skatthækkunarmálum í gegn. Hér er búið að samþykkja hækkun útsvarsins t. d., heimild til hækkunar á útsvari upp á 10%, sem er á sjötta milljarð miðað við eitt ár. Verði þetta frv. samþ. þýðir það 11 milljarða kr. skatthækkun miðað við eitt ár. Tekjuskattshækkun verður a. m. k. 40% í ár, hækkun flugvallagjalds í kringum 60% og hækkun sjúkratryggingagjalds eitthvað álíka. Öllum þessum skatthækkunarfrv., að undanskildu því sem hér er nú til umr., hefur hæstv. ríkisstj. tekist að koma í gegn í þinginu, svo óskiljanlegt sem það nú er. Allar þessar hækkanir eiga að koma yfir landslýð á sama tíma, og yfirskrift fjárlagafrv. núv. hæstv. fjmrh. er: 4.5% kjaraskerðing, engar grunnkaupshækkanir hjá launafólki í ár. (Forseti: Ég vil benda hv. ræðumanni á að nú slær klukkan tólf og ætlunin var að gera hlé á fundi hv. deildar til hálftvö, ef nú stendur þannig á fyrir honum að hann kýs að gera hlé nú á máli sínu eða fljótlega.) Hæstv. forseti. Það er hægt að hætta hvenær sem er. Ég skal hætta strax. (Forsrh.: Alveg, já.) Nei, það geri ég ekki fyrir hæstv. forsrh. að hætta alveg. Það skal hann vera viss um, að áfram verður haldið að loknu matarhléi. [Frh.]