02.04.1980
Neðri deild: 55. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1716 í B-deild Alþingistíðinda. (1582)

135. mál, orkujöfnunargjald

Frsm. 3. minni hl. (Karvel Pálmason) [frh.]:

Herra forseti. Hæstv. forseti orðaði það svo, áður en frestað var fundi, að eins og hv. þm. væri alkunna legði hæstv. ríkisstj. á það ofurkapp að afgreiða bæði þau mál sem hér væru á dagskrá. Ég skildi hæstv. forseta svo, að hann teldi ástæðu til að hann legði sig í líma til að framkvæma þá sérstöku ósk hæstv. ríkisstj. Heldur fannst mér þetta í véfréttastíl af hálfu hæstv. forseta, og vildi ég gjarnan endurtaka þá spurningu til hæstv. forseta, sem ég vona að hann svari þá á eftir, hvort hann hyggst verða við þeirri beiðni hv. þm. Halldórs Ásgrímssonar að halda hér fund á morgun, þ. e. á skírdag, sem ég teldi vera helgispjöll. Ég æski þess að hæstv. forseti gefi nánari skýringar á áformum sínum um hvað hann hyggst fyrir í þessu efni. (Sjútvrh.: Skírdagur hefst ekki fyrr en á miðnætti.) Það mun fleiri en hæstv. ráðh. vera kunnugt um hvenær skírdagur hefst. Þetta var ekki spurning um það. Ég sagði á skírdag. Hæstv. ráðh. er það væntanlega ljóst. — En sé það hins vegar orðið stefnumál Framsfl. að hér beri að haldi þingfundi jafnvel á helgum dögum til að koma fram málum sem hæstv. ríkisstj. hefur fyrst og fremst áhuga á, þó að það séu í mörgum tilfellum óþurftarmál, er það ný vitneskja, að ég hygg. En kannske ætlar hin nýja forusta Framsfl. að hafa þetta á oddinum. (Sjútvrh: Nei, nema á laugardaginn.) Hæstv. ráðh. hefði átt að vera hér á virkum dögum þegar þingfundir hafa verið haldnir, en ekki að vera að pressa á að þeir væru endilega á helgidögum. Og það nær kannske til fleiri hæstv. ráðh. en sjútvrh. Þeir ættu frekar að vera hér á venjulegum fundartíma á þingfundum á virkum dögum en að vera að pressa á að þingfundir séu haldnir á helgidögum. (Gripið fram í.) Væntanlega kæmu þeir ekkert frekar á helgidögum en virka daga — eða kannske það sé orðið öfugt: Þeir muni frekar vilja vera hér þá.

Þá er líklega rétt að fara að snúa sér að dagskrármálinu, sem hér er til umræðu, eða efnisatriðum þess. Að vísu er rétt að bæta nokkrum orðum við út af því, sem ég sagði áðan um vinnubrögð á Alþ., og því, að hv. þm. stjórnarliðsins hafa beint að stjórnarandstöðunni að hún bæri ábyrgð á því, ef þetta mál yrði ekki afgreitt fyrir páskaleyfi. Rétt er að ítreka það, sem hér hefur raunar komið fram áður: Var það stjórnarandstöðunni að kenna að hér var frestað þrívegis í gær fundi í Sþ. þegar átti að byrja 3. umr. fjárlaga? Var það stjórnarandstöðunni að kenna? Hverjum var það að kenna? Ætli það hafi ekki verið fyrst og fremst að kenna stjórnendum þingsins, sem eru hæstv. ríkisstj. og að sjálfsögðu hæstv. forsetar, að svo miklu leyti sem þeir vilja taka tillit til óska eða krafna hæstv. ráðh.? Ég hygg að það sé ekki með neinum sanni hægt að ásaka stjórnarandstöðuna um að hér var þriggja tíma fundarhlé í gær án þess að nokkuð væri gert. Það hefði hugsanlega gefist tími til að ræða þetta mál á slíkum tíma.

Hér er nú til umr. það frv., sem lagt var fram á mánudaginn, um 2% hækkun á söluskatti, sem hæstv. ríkisstj. virðist ætla að nota sem tekjulind til að ná í a. m. k. 4–5 milljarða á þessu ári til að nota í annað en haft er að yfirvarpi við flutning frv. Frv. er nú með brtt., sem flutt er við þessa umr., komið í það að vera 1.5% hækkun á söluskatti. Nú vil ég, áður en lengra er haldið, taka það fram, að ég hygg að allir hv. alþm. séu um það sammála að veita þurfi fé til að jafna þann gífurlega mismun sem er á upphitunarkostnaði meðal landsmanna. Um hitt greinir menn á, hvaða leiðir skuli fara að því marki. Hæstv. ríkisstj. leggur til, að söluskattur verði hækkaður um 2%, sem þýðir að það á að skattleggja landsmenn um 11 milljarða miðað við heilt ár umfram það sem nú er lagt á í söluskatti. Af þessum 11 milljörðum ætlar hæstv. ríkisstj. allra náðarsamlegast að láta 4 milljarða til þess verkefnis sem hér er verið að tala um. Hitt á að fara í ríkishítina. Hér er því um það að ræða að hæstv. ríkisstj. notar sér það neyðarástand, sem í þessum málum ríkir úti á landsbyggðinni, til að ná í stórkostlega aukna fjármuni í gegnum söluskattinn til að eyða, en ekki til að jafna þann gífurlega aðstöðumun sem í upphitunarkostnaðinum er. Hér er því um að ræða frv. frá hæstv. ríkisstj. um 2% hækkun á söluskatti.

Nú ber að athuga að fyrrv. hæstv. fjmrh., Tómas Árnason núv. viðskrh., lagði fram á Alþ. frv. til fjárlaga á s. l. hausti. Í því frv. voru, ef ég man rétt, 2.3 milljarðar sem áttu að fara í niðurgreiðslu á olíu vegna þess munar og þeirra byrða sem fólkið, sem á olíusvæðunum býr, verður við að búa. Þetta var líka innifalið í frv. Sighvats Björgvinssonar, hæstv. fjmrh. Alþfl.-stjórnarinnar. Þar voru líka 2.3 milljarðar ætlaðir til þessa. En svo bregður við að þegar frv. hæstv. núv. fjmrh., fulltrúa — að eigin mati — þeirra sem verst eru settir, fulltrúa öreiganna, eins og þeir orða það oft svo Alþb.-menn, er lagt fram á ekki að verja einum einasta eyri í olíustyrki. Samkv. því fjárlagafrv., sem hæstv. fjmrh. Ragnar Arnalds lagði fram, á ekki að verja einum eyri til að jafna þann mun sem hér er um að ræða. Þessa 2.3 milljarða tekur því hæstv. fjmrh. Alþb. í aðra eyðslu. Og eins og lýsir sér í frv. ætlar hann að nota tækifærið — ég vona að honum takist það ekki — til að skattleggja almenning langt umfram það sem hann ætlar að skila aftur í niðurgreiðslu á olíu.

Það er athyglisvert, að það skuli vera Alþb.-maður, hæstv. fjmrh., sem með þessum hætti stendur að máli. Það er ekki síst athyglisvert í ljósi þess að sá hinn sami hæstv. ráðh., eins og ég vék að áðan, lýsir því yfir í fjárlagafrv. að það skuli verða 4.5% kjaraskerðing á yfirstandandi ári og að það skuli engin grunnkaupshækkun eiga sér stað til launafólks í landinu á yfirstandandi ári. Eru ekki þessar yfirlýsingar alveg samhljóða því sem frambjóðendur Alþb. boðuðu í kosningunum í des. s. l.? Er þetta ekki samhljóða því sem þá var sagt? Ætli það muni ekki fleiri hv. þm. en ég hinar fjálglegu yfirlýsingar frambjóðenda Alþb. um að það kæmi ekki til mála að skerða almennar launatekjur fólks í landinu? Jú, ég hygg að margir muni eftir þeim yfirlýsingum frá s. l. hausti úr munni hv. þm. og frambjóðenda Alþb. En það hefur farið svo í þetta skipti, eins og raunar oft áður, að orð eru annað en efndir. Breytingin kemur mér ekki á óvart frá orðum frambjóðenda Alþb. til gjörðanna nú, en kannske kemur það einhverju launafólki á óvart hver breyting er hér og hvaða svik er hér verið að framkvæma miðað við það sem lofað var á s. l. hausti.

Ég tek það enn fram, sem raunar þarf ekki að gera, það er öllum ljóst, að það er enginn ágreiningur um að leggja beri fram fjármagn til að jafna þann aðstöðumun sem hér er um að ræða. En menn greinir á um leiðir. Alþfl. lagði fram við 2. umr. fjárlagafrv. tillögur um að mæta þessum vanda innan ramma fjárlagagerðarinnar án þess að auka nokkuð skatta á landsmönnum til þess að svo gæti orðið. Þessu var hafnað af stjórnarliðum á Alþ. Þeir höfnuðu því að fara þá leið, sem Alþfl. vildi, að mæta þessum vanda verði mætt með tiltölulega litlum sparnaði í ríkisríkiskerfinu sjálfu og fría þannig landsmenn við stórkostlega aukna skatta vegna þessa vanda. Þessu var hafnað við 2. umr. fjárlaga. Alþfl. flytur enn við 3. umr. fjárlaga tillögur í samræmi við þá afstöðu sína að þessum vanda verði mætti með tiltölulega litlum sparnaði í ríkiskerfinu og samdrætti, en að sleppa launþegum og almenningi í landinu við stóraukna skatta til viðbótar því sem hæstv. ríkisstj. hefur komið í framkvæmd á þeim tíma sem hún hefur setið að völdum.

Eins og fram hefur komið hér áður, mættu á fundi hjá fjh.- og viðskn. fulltrúar bæði frá Alþýðusambandi Íslands og BSRB að ósk nm., svo að kæmu fram viðhorf fulltrúa launþegasamtakanna til þessa máls. Það hefur margoft verið um það rætt hér áður í umr., ekki einvörðungu um þetta mál, heldur og um önnur mál, að í gildi eru lög sem leggja þá skyldu á herðar stjórnvöldum að þau hafi samráð við aðila vinnumarkaðarins, við fulltrúa launþegahreyfingarinnar í landinu um hvernig haga eigi stefnunni í efnahagsmálum þjóðarinnar. Þetta er lagaskylda um samráð við forsvarsmenn hreyfinga launamanna um hvernig stjórnvöld á hverjum tíma hyggist haga framkvæmd efnahagsmála. Um þetta er sérstök reglugerð til, um samráð við launþegahreyfinguna í landinu. — Og í salinn gengur nú hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson, sem ég hygg að sé einn af þeim sem gengu frá eða a. m. k. lýstu stuðningi við þessa samráðsreglugerð við aðila vinnumarkaðarins af hálfu stjórnvalda. Ég hygg ég fari ekki með rangt mál er ég segi að hann hafi átt talsverðan hlut að máli við þá reglugerðarsmíð. (Gripið fram í: Það er rétt.) Að sjálfsögðu er það rétt. Ræðumaður fer yfirleitt með rétt mál.

Um þetta hefur verið talsvert mikið rætt í þinginu á undanförnum vikum og á það deilt, að það er brot á landslögum af hálfu núv. hæstv. ríkisstj. og hverrar þeirrar stjórnar, sem hagar sér eins og hún, uppfylli hún ekki ákvæði laga og reglugerðar um samráð við launþegahreyfinguna í landinu, eins og t. d. í málum eins og hér er verið að ræða.

Það hefur verið vikið að þeim áður, og prentaðar eru sem fskj. með nál. 2. og 3. minni hl. ályktanir sem gerðar voru af hálfu Alþýðusambands Íslands og BSRB um þessi mál einmitt í gær. Fulltrúar Alþýðusambandsins og BSRB voru sérstaklega spurðir hvort haft hefði verið samráð við ASÍ og BSRB af hálfu hæstv. ríkisstj. um þá skatthækkun sem hér er lagt til að verði. Og hvert var svarið? Hvað skyldi svarið hafa verið? Því var fljótsvarað af þeirra hálfu, að ekkert samráð á neinu stigi máls hefði verið haft við fulltrúa þessara launþegahreyfinga varðandi þetta mál né önnur þau mál sem hér hafa verið til umr. eða afgreidd og í sér fela stórkostlega aukna skatta. Að vísu sagði starfandi forseti Alþýðusambands Íslands að sér hefði verið tilkynnt um þetta eftir að hæstv. ríkisstj. hefði verið búin að ganga frá málinu. Ég hygg að þetta sé rétt.

Í áframhaldi af þessu langar mig til að spyrja hv. þm. Guðmund J. Guðmundsson sem form. Verkamannasambands Íslands — þess sambands sem hefur innan sinna vébanda nafninu samkvæmt verst setta og lægst launaða fólkið í landinu: Var haft samráð við fulltrúa eða forsvarsmenn Verkamannasambands Íslands um þetta mál af hálfu hæstv. ríkisstj.? (GJG: Ég get svarað þessu strax.) Mín vegna. Ég þykist vita hvert svarið er. (GJG: Nei.) Er svarið nei? Já, ég þóttist vita það. (Gripið fram í: En við hv. þm. sjálfan?) Það er svo annað mál, sem kannske er rétt að víkja aðeins að, hvort hafi ver'ð haft samband við hv. þm. Guðmund J. Guðmundsson sjálfan, eins og menn orða það. (HBl: Heldurðu að það hafi verið gert?) Er verið að spyrja mig? Ég er ekkert viss um að að fyrra bragði hafi verið leitað þessa samráðs af hálfu forustuliðs Alþb. í hæstv. ríkisstj., en ég skal þó ekki fortaka það. Hitt þykist ég vita af kynnum mínum við hv. þm. Guðmund J. Guðmundsson, að hann gengur nauðugur til þess leiks sem hér er verið að leika, að ætla að hækka um 1.5% söluskatt í landinu sem verkalýðshreyfingin alfarið og um langt árabil hefur harðlega mótmælt, ekki síst fulltrúar láglaunamanna innan hreyfingarinnar. Og ég þykist vita að hv. þm. yrði það ekkert leitt þó að drægist að afgreiða þetta frv. frá Alþ. Ég þykist vita að það sé mjög á móti sannfæringu hans að stuðla að því að þetta mál nái fram að ganga. Hvað svo kann að verða endanlega við afgreiðslu málsins eiga menn eftir að sjá.

En þetta er aðeins eitt dæmið um það, að hvað viðkemur fögrum fyrirheitum og fögrum loforðum er ekki betur við þau staðið en hér hefur verið rakið og raunar rakið af miklu fleiri en mér.

Ég er nærri því viss um að hefði hæstv. ríkisstj. borið gæfu til að taka upp samráð við launþegahreyfinguna í landinu um það, með hvaða hætti hún teldi eðlilegast og æskilegast að ráðast gegn þessum vanda, þá hygg ég að það hefði fengist samkomulag við hreyfinguna. Ég vil a. m. k. trúa því og hef ekki ástæðu til annars, að fulltrúar verkalýðshreyfingarinnar í landinu geri sér ljóst að það verður ekki búið við þennan ójöfnuð lengur og það verður að lagfæra hann. En menn greinir á um leiðir að því marki.

Það mun reyna á það við atkvgr. í Sþ. á eftir hvort enn á að hafna þeirri leið sem lagt hefur verið til að farin væri til að jafna aðstöðumun í orkuneyslu með því að gera það innan ramma fjárlaganna án þess að auka skattheimtu í landinu. Um þetta eru gerðar tillögur bæði af hálfu Alþfl. og Sjálfstfl. við 3. umr. fjárlaganna sem atkvgr. fer fram um hér á eftir. Og það verður vissulega forvitnilegt að fylgjast með því, hvaða afstöðu hv. þm. eins og t. d. Guðmundur J. Guðmundsson og Guðrún Helgadóttir, fulltrúar launþega taka. (ÓRG: Launafólks.) Launafólks, segir farandverkamaðurinn eða fulltrúi þeirra. Það skiptir mig engu máli hvort það er launþega eða launafólks. Það er í mínum munni sama merking í þeim orðum. En það verður fróðlegt að fylgjast með því, hvaða afstöðu þessir tveir hv. þm., fulltrúar launafólks, við skulum hafa orðrétt eftir formanni þingflokks Alþb., hafa, hvort þeir kjósa fremur að stórauka skattheimtu á launafólki, svo við höfum nú rétt orðalag, langt umfram það sem þarf til þess að mæta þeim vanda sem hér er verið að tala um, eða hvort þessir fulltrúar á Alþ. vilja heldur fara þá leið, sem Alþfl. hefur lagt til, að draga örlítið úr umsvifum ríkisins, draga úr ríkisútgjöldunum til að brúa þetta bil. (Gripið fram í.) Alls ekki, segir hv. þm. Guðrún Helgadóttir. Hún vill alls ekki draga úr. Hún ætlast til þess að allir aðrir en ríkissjóðshítin dragi úr og spari, en það má ekki koma nálægt því að spara þegar núv. hæstv. ríkisstj. situr að völdum, sem hefur þó yfirskrift að nú beri að gæta sérstaks aðhalds í ríkisrekstrinum — ég held að ég muni það rétt að þetta er í stjórnarsáttmálanum. (HBl: Gleymdu ekki borginni.) Ég ætlaði helst ekki að fara inn á þau mál hér, en kannske gefst tími og tækifæri til þess. Það er af nógu að taka í sambandi við þetta mál.

Ég er alveg viss um að það verður eftir því tekið af launafólki víðs vegar um landið, ef það fer svo, mót minni von, að það verði fellt á Alþ. að mæta þessum umtalaða vanda án þess að efna til stórkostlegrar nýrrar skattheimtu, en farið í kjölfar þess, sem hæstv. ríkisstj. leggur til, og skattheimta stóraukin á launafólki almennt til að ná fjármagni og langt umfram það sem þarf til olíuniðurgreiðslunnar.

Mig langar í framhaldi af þessu til að spyrja t. d. hv. þm. Guðmund J. Guðmundsson og Guðrúnu Helgadóttur hvort það hefði nægt til að mæta því, sem ríkisstj. ætlar að gera í þessu máli, að leggja á 1% til viðbótar því sem er. Telur ekki hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson, form. Verkamannasambandsins, að miðað við þær hugmyndir, sem hæstv. ríkisstj. hefur um að minnka þennan mun, hefði nægt að hækka söluskattinn um 1%? Ég heyri að eitthvað stendur í hv. þm. Ekki býðst hann til að svara strax núna eins og áðan. En vonandi kemur svarið þó síðar verði. (HBl: Þú getur farið á þingflokksfundinn hjá Alþb. á eftir.) Ég er að geta mér þess til af minni góðvild í garð hv. þm., að hann telji að til þess að gera það sem hæstv. ríkisstj. ætlar að gera í málinu nægi að hækka þetta um 1%. (Gripið fram í.) Ég vildi biðja hæstv. forseta sem siðameistara þingsins að siða starfsmenn sína. Það má grípa fram í, en menn eiga að vera kurteisir þó að skapið sé heitt niðri fyrir. — Ég heyri að það ætlar ekkert svar að koma strax við þessu. (Forseti: Það er alls ekki leyfilegt að menn kveðist á hérna í salnum.) Það hefur ekki alltaf verið spurt um hvað leyfilegt er, hæstv. forseti, ekki forseti sjálfur heldur. En ég bíð rólegur varðandi þetta.

Eins og fram kemur á nál. 3 minni hl. fjh.- og viðskn. er ljóst að Alþfl. er andvígur þeirri skattheimtu, sem hér er lagt til að framkvæmd verði, og hefur beitt sér fyrir og flutt tillögur um að farnar verði aðrar leiðir án þess að íþyngja launþegum eða skattborgurum meira en þegar er orðið. Og það er hörmulegt til þess að vita, að núv. hæstv. ríkisstj. og .stjórnarliðar skuli ætla að notfæra sér það neyðarástand, sem nú ríkir á olíuhitunarsvæðunum, til að skattpína launafólk í landinu langt umfram það sem þarf til að mæta vandanum, miðað við það sem hugmyndir ríkisstj. eru. Langt umfram það á að skattpína launafólk í landinu og að því standa fulltrúar öreiganna í landinu. Ég hefði kosið hv. þm. Guðmundi J. Guðmundssyni annað hlutskipti en það, ef hann verður til þess neyddur. Ég veit að ef hann samþ. frv. verður hann neyddur til að greiða atkv. með því. Ég hefði kosið honum annað hlutskipti og betra.

Það hefur margt komið fram í þessum umr., þótt ekki séu þær langt enn, miðað við það sem þær kunna að verða ef hæstv. ríkisstj. ætlar að halda uppi þeim þvergirðingshætti að stilla stjórnarandstæðingum upp við vegg í þessu máli. Það er þó ástæða til að ítreka það við hæstv. forsrh. Það þýðir ekkert að tala um þetta við hæstv. fjmrh., hann er eins og þverdrumbur í þessu máli, eins og því miður virðist vera raunin með a. m. k. tvo hæstv. ráðh. Alþb., hæstv. fjmrh. og félmrh., að þeim málum, sem þessir hæstv. ráðh. eru með á dagskrá þingsins, koma þeir yfirleitt í hnút vegna þvergirðingsháttar í garð þm. almennt. (Gripið fram í.) Hæstv. landbrh. er sómamaður. (Gripið fram í.) Já, þeir finna hann svo sannarlega þar. En það er vissulega ástæða til að ítreka þá við hæstv. forsrh., hvort ekki sé hyggilegra, miðað við allar kringumstæður, að þessari umr. verði frestað og menn fái að skoða málið ofan í kjölinn. Hverju breytir það, ef á annað borð er búið að handjárna allt stjórnarliðið til þess að fylgja þessu máli, þó að skattborgarar landsins, launþegar og aðrir, steppi við þessa skattpíningu í eina viku í viðbót? Er það alveg knýjandi nauðsyn, komið undir páskahelgi, og ræður það úrslitum að hægt verði að skattpína þetta fólk einni vikunni lengur en skemur? Er það það sem málið snýst um? Mér sýnist það vera. Ég veit að hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson tekur í framrétta hönd mína í þeim efnum að sleppa þó láglaunafólkinu í eina vikuna í viðbót við að borga syndaregistur hæstv. ríkisstj. Ég veit að hv. þm. Guðrún Helgadóttir gerir það líka, þó að ég þekki þann hv. þm. minna.

En ef svo fer að hæstv. ríkisstj. ætlar að halda sig við að knýja þetta mál í gegn með fundarhöldum um páskahelgina, öðruvísi verður það ekki gert, er ljóst að gæfuleysi hæstv. ríkisstj. er miklu meira en ég þó taldi vera. (GHelg: Þm. er búinn að tala svona lengi.) Hv. þm. Guðrún Helgadóttir sagði að ég væri búinn að tala mikið. Ég get talað miklu lengur. Ef hv. stjórnarliðar ætla sér að knýja þetta mál í gegn er ekkert vandamál að tala við þá fram yfir páskahelgi. Hins vegar vil ég í lengstu lög afbiðja mig því að þurfa að standa í streði við þá hv. þm., sem herja á mörgum sviðum, yfir helgidagana, til að fría launafólk við syndaregistri þeirra með dyggum stuðningi við hæstv. ríkisstj.

Hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson sagði áðan, að í Dagsbrún og í frystihúsunum væri enginn helgidagur. Það má rétt vera. En við eigum að vinna að því að verkafólk fái frí þessa daga. Og við eigum að vera fyrirmyndin að því. Alþ. á að ganga á undan með góðu fordæmi og sýna fram á að við virðum helgina sem fram undan er, en óskum þess ekki eindregið, eins og einn hv. þm. Framsfl. gerði áðan, að það verði fundir á skírdag, líklega þá á föstudaginn langa líka, ef málið verður ekki búið, en þá eru hvorki Dagsbrúnarfundir eða unnið í frystihúsum. Það þykist ég vita. (Gripið fram í.) Það er rétt, eins og allt sem ég hef sagt hér er rétt. Þetta er ekki það fyrsta sem hv. þm. tekur undir og segir að sé rétt. Ég veit að hann er innilega sammála mér um það sem ég hef verið að segja. Hafi hann aðra afstöðu í málinu, komi það í ljós, er það vegna einhvers annars en þess, að hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson hafi ekki sannfæringu til þess að vera mér sammála í þessu máli. Það fullyrði ég.

Af því, sem ég hef sagt, er ljóst að Alþfl. hafnar alfarið þeirri leið sem hér er lagt til að farin verði til aukinnar skattpíningar launafólks í landinu. Alþfl. tekur undir þau viðhorf Alþýðusambandsins, BSRB og ég vænti Verkamannasambands Íslands, að þessi fyrirhugaða skattheimta hæstv. ríkisstj. er með þeim hætti að ekki verður hjá því komist, bæði fyrir þessar hreyfingar og fyrir þá aðila sem kenna sig við verkalýðshreyfingu í landinu, að snúast hart gegn. En ég ítreka það enn einu sinni, að það er enginn ágreiningur um að veita þurfi fjármagn til þessa verkefnis. Það er ljóst. Við Alþfl.-menn viljum gera það án þess að leggja á fólk nýja skatta. Við viljum gera það innan ramma fjárlagafrv. eða fjárlaganna með smávegis sparnaði og aðhaldi, en fulltrúar hæstv. ríkisstj. vilja stórauka skattheimtu til þess að af þessu geti orðið. Þar skilja leiðir. Og mér finnst satt að segja — ég verð að viðurkenna það — hryggilegt ef það á eftir að koma í ljós við afgreiðslu þessa máls í þinginu að fulltrúar launafólksins í landinu ætla sér að stuðla að því að þetta frv. nái fram að ganga á Alþ. Ef þeir vilja það heldur en taka saman höndum við okkur hina, sem viljum leysa málið án nýrrar skattheimtu, er eitthvað öðruvísi en það á að vera eftir að fulltrúar launafólks eru sestir á þingbekki. Þá hafa þeir aðrar skoðanir en þeir hafa haft í baráttunni innan hreyfingarinnar sjálfrar. En það verður þá að koma í ljós.

Þess verður beðið og eftir því verður tekið hvort þessir einstaklingar úr forustusveit launþegahreyfingarinnar í landinu, og þá ekki síst þeirra lægst launuðu og verst settu, ætla að vera í fylkingarbrjósti fyrir því að skattpína launafólk með þessum hætti langt umfram það sem þörf er til að sinna því verkefni sem hér er verið að tala um. Þá liggja aðrar hvatir að baki en góður hugur eða það sjónarmið að fylgja fram því sem umbjóðendur þeirra hafa falið þeim í þingmennsku. Þetta á allt eftir að koma í ljós.

Ég skal ekki, herra forseti, að sinni hafa orð mín öllu fleiri. En ég vænti þess, að hæstv. forseti svari öllu skýrar þeirri spurningu, sem ég beindi til hans fyrr, hvort hann ætlar að verða við kröfu fulltrúa Framsfl. um að þingfundur verði hér yfir páskahelgina.

Ég segi svo það að lokum að þessu sinni, að Alþfl. leggur til að þetta frv., eins og það er nú, verði fellt. Til þess er tækifæri. Í stað þess verði farin sú leið, sem Alþfl. lagði til við 2. umr. og tekur upp í lítt breyttu formi við 3. umr. fjárl., að málið verði leyst innan fjárlagadæmisins. Það er aðeins hægt ef stjórnarliðið er fáanlegt til að falla frá því að stórhækka skatta til að leysa málið.