02.04.1980
Neðri deild: 55. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1727 í B-deild Alþingistíðinda. (1587)

136. mál, olíugjald til fiskiskipa

Frsm. minni hl. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Eins og fram kom hjá frsm. meiri hl. sjútvn. þessarar hv. d., var sjútvn. ekki samhljóða í afgreiðslu á þessu frv. sem hér var lagt fram s. l. mánudag til 1, umr. og umr. urðu um. s. l. mánudagskvöld og gengið var til starfa um í sjútvn. beggja d. sameiginlega. Á þann fund komu tveir aðilar, formaður yfirnefndar Verðlagsráðs sjávarútvegsins, Jón Sigurðsson forstöðumaður Þjóðhagsstofnunar, og Ingólfur Ingólfsson, fulltrúi sjómanna í Verðlagsráði, formaður Vélstjórafélags Íslands.

Við nm. lögðum allmargar fsp. fyrir þá báða og fulltrúi sjómanna í Verðlagsráði, Ingólfur Ingólfsson, sagði að núv. sjútvrh. hefði ekkert samráð haft við sjómannasamtökin allan þann tíma sem stóð á því að fiskverð yrði ákveðið. Það kom jafnframt fram að það er í fyrsta skipti, þegar jafnerfið staða hefur verið eins og nú við ákvörðun fiskverðs, að sjútvrh. hefur ekki rætt við alla aðila þessa máls. Út af fyrir sig finnst mér það skrýtinn háttur hjá hæstv. núv. sjútvrh. að ræða ekki við fulltrúa launþega í verðlagsráðinu, því að það vissi sjútvrh. og ríkisstj. í heild, að sjómannasamtökin lögðu á það mikla áherslu að fiskverðið hækkaði til samræmis við uppbætur á laun frá 1 mars sem allir aðrir launþegar hafa fengið í þessu þjóðfélagi.

Fulltrúi sjómanna sagði á fundinum að þegar séð var að ekki mundi reynast unnt að ná fram þessari eðlilegu hækkun á fiskverði til sjómanna, þá tók hann þá afstöðu að sitja hjá við afgreiðslu á tillögu oddamanns yfirnefndar um 4% hækkun á fiskverði, til þess að eiga ekki á hættu að afgreiðsla málsins drægist lengur en þegar var orðið. Ef við lítum yfir þetta verðlagstímabil, sem átti að gilda frá 1. jan. til maíloka, þá hefst það á því, að fiskverð er ekki ákveðið fyrr en 23. eða 24. jan. Og vegna þeirra almennu launahækkana eða uppbóta á laun, sem urðu hjá launþegum í landinu l. mars. s. l., sögðu sjómenn upp fiskverðinu af þessari ástæðu, eða fulltrúar þeirra, og fiskkaupendur af hinni ástæðunni, hvernig hag fiskvinnslunnar var komið og þá sér í lagi hraðfrystiiðnaðarins. Einn aðili sagði ekki upp fiskverðinu. Það var útgerðin. Það var ljóst, að hagur útgerðar fór versnandi frá áramótum, en útgerðarmenn ætluðu að reyna að þrauka út verðlagstímabilið. Það er svo aftur notað til þess að gera sérstaka árás á útgerðina í landinu með því að lækka olíugjaldið úr 5% í 2.5%.

Ég heyri að sumir stjórnarliðar eru að halda því fram, og aðrir eru að bera hæstv. forsrh. fyrir því, að það sé ekkert fiskverð fyrr en þetta frv. sé orðið að lögum. Þetta er eins og hvert annað kjaftæði út í bláinn. Í frétt frá Verðlagsráði segir: „Það er forsenda þessarar ákvörðunar að lögum nr. 3/1980, um tímabundið olíugjald til fiskiskipa, verði breytt þannig að olíugjaldið lækki úr 5% í 2.5% af skiptaverði frá og með 1. mars 1980.“ Þetta er forsenda oddamannsins og þess manns sem veitti honum aðstoð til þess að koma fiskverðinu á. „Ríkisstj. hefur lýst því yfir, að frv. þessa efnis verði lagt fram á Alþ. í dag. Þegar tillit hefur verið tekið til þessarar væntanlegu lagabreytingar má lýsa niðurstöðum fiskverðsmálsins að þessu sinni í meginatriðum á eftirfarandi hátt“ — eins og síðar segir. Það hefur alltaf verið tekið gilt í Verðlagsráði, ef ríkisstj. eða stjórnvöld hafa heitið að afgreiða eitthvert mál. Þá hefur ákvörðun Verðlagsráðsins tekið gildi þann sama dag og til var ætlast og ákveðið er, svo að þetta er ekkert annað en útúrsnúningur sem þessir hæstv. ráðh. eru að bera hér á borð. Þetta snertir ekki á nokkurn hátt uppgjör hjá skipum almennt við sjómenn. Olíugjaldið fer fram hjá skiptum, hvort sem það er 5% eða 2.5%. Fiskverðið er ákveðið á hinar einstöku tegundir. Það er reikningur sem útgerðin gerir til þeirra sem fiskinn kaupa. Þeir borga það verð. Það eina, sem má þá deila um á milli útgerðar og fiskkaupenda, er þetta: Á að borga 2.5% olíugjald ofan á fiskverðið eða 5%? Ég skil ekki í því að himinn og jörð farist þó að afgreiðsla þessa máls bíði fram yfir páska. Er ekki fiskveiðibann núna? Er ekki hvíld frá störfum yfirleitt í útgerðinni? Eru ekki skrifstofur yfirleitt lokaðar þessa viku? Uppgjör samkv. þessari ákvörðun Verðlagsráðsins getur farið fram og þetta ákvæði varðar sjómenn ekki neinu, því þeir eiga rétt á sínu. Það er hægt að halda þessu fram við einhverja óvita, en það er ekki hægt að halda því fram við menn sem þekkja þessi mál. Og ég tel mig vera einn af þeim.

Ef við lítum á það sem gerist í Verðlagsráðinu, þá skeður það nú eftir langt árabil að minni hluti yfirnefndar Verðlagsráðsins ákveður hið almenna fiskverð. Þrisvar sinnum, skömmu eftir að verðlagsráðslögin tóku gildi, var gripið til þessa örþrifaráðs, að oddamaðurinn kvað upp einhliða úrskurð um fiskverð. Það var í janúar 1964 sem Hákon heitinn Guðmundsson kvað upp úrskurð einn um almennt fiskverð. Næst var það 1967, mig minnir að það hafi verið í sambandi við síldarverð, sem Bjarni Bragi Jónsson kvað upp einhliða úrskurð. Og 14. febr. 1968 kvað Jónas Haralz upp einhliða úrskurð. Þessir eins manns úrskurðir voru orðnir það illa séðir hjá öllum aðilum sjávarútvegsins, að ef þeim hefði verið beitt oftar hefðu lögin um Verðlagsráð sjávarútvegsins ekki orðið að neinu. Þá hefðu þau verið úr sögunni, og þá væri þetta kerfi ekki til. Það má auðvitað segja: Hvað gerir þá til að þetta kerfi hrynji? En hafa menn eitthvað annað betra að benda á? Ég hef engan heyrt enn sem hefur komið fram með betri tillögu til þess að ákvarða fiskverð heldur en þessa löggjöf, þó að ýmislegt megi út á hana setja.

Í fjögur ár stóð ég oft frammi fyrir svipuðum vanda og hæstv. núv. sjútvrh. og við miklu erfiðari aðstæður, þegar stórfelld lækkun varð á velflestum útflutningsafurðum okkar. Þá var erfiðara að ákvarða fiskverðsbreytingar heldur en nú við nokkurn veginn stöðugt verðlag, þrátt fyrir tiltölulega litla verðlækkun á tiltölulega litlu magni af heildarútflutningi nú fyrir skömmu. Þá þurfti að beita mikilli vinnu til þess að fá menn til að setjast niður og skilja sjónarmið hver annars og ná meirihlutafylgi við verðlagsákvarðanir.

Það er rétt, sem hv. frsm. meiri hl. sjútvn. sagði, að það kom til tvisvar sinnum í sögu Verðlagsráðsins að tveir af fimm í yfirnefndinni ákváðu verð á fiski. En í báðum tilfellum var um tiltölulega smávægilega verðlagningu að ræða. Annað þetta fordæmi er frá 1962. Þá var um að ræða að ákveða verð á karfa til bræðslu, sem var samþ. af tveimur mönnum af fimm í Verðlagsráði, en þrír sátu hjá. Í hinu tilfellinu, sem var nokkrum árum síðar, kom líka til að ákveða verð á loðnu til frystingar, sem var gert með atkvæðum tveggja manna, en þrír sátu hjá. Alla tíð síðan hefur verð ekki verið ákvarðað — þegar máli hefur verið vísað til yfirnefndar — nema af meiri hluta yfirnefndar Verðlagsráðs, þannig að í öllum öðrum tilfellum hafa þrír orðið ásáttir um það fiskverð eða verðlag sem ákvörðun hefur verið tekin um hverju sinni. Svo hefur þó nokkuð oft orðið samkomulag milli allra fimm í yfirnefndinni, og einnig og ekki síður hefur það oft verið að tveir hafa greitt atkvæði á móti.

Ég tel — og um það hljóta allir að vera sammála — leiðinlegt þegar á að taka jafnmikilvægar ákvarðanir og um verðlag á sjávarafurðum að ekki fæst meiri hluti og það sé gert með minni hluta atkvæða. Hins vegar dregur enginn í efa lögmæti þessarar fiskverðsákvörðunar, því að þrír af fimm nefndarmönnum í yfirnefnd tóku þátt í atkvæðagreiðslunni, tveir með og einn á móti, svo að þessi ákvörðun Verðlagsráðsins er í fyllsta máta lögmæt.

Þá komum við að hinu sem deilan stendur um. En áður en ég vík að því vil ég almennt segja nokkur orð um hið svokallaða olíugjald eða tímabundna olíugjald, eins og svo margir skattar í okkar landi eru kallaðir þó þeir verði í reynd til langframa.

Ég er ekki neinn sérstakur talsmaður þess að leggja á olíugjald og því síður hef ég verið ánægður með hvernig þessu olíugjaldi hefur verið ráðstafað almennt til skipa. Það geta verið um það skiptar skoðanir, og það er engin skoðun sem ber svo af annarri að hún sé algerlega fullkomin í sambandi við skiptingu á slíku gjaldi. Hins vegar eru kostir hinna ýmsu leiða mismunandi og mismunandi góðir. En fullkomið réttlæti fæst sennilega aldrei í sambandi við skiptingu á þessu olíugjaldi.

En það sem gerðist hér á hæstv. Alþ. var það, að vinstri stjórnin sálaða tók upp olíugjaldið á árinu 1979, þá um vorið. Í marsmánuði í fyrra kostaði gasolíulítirinn 68,90 kr. Og olían hélt áfram að hækka. Eftir að Alþ. lauk störfum um vorið gaf þáv. hæstv. ríkisstj. út brtt. til þess að hækka enn prósentuna í olíugjaldi til fiskiskipanna. Þessi brbl. komu til umr. hér á þingi strax í haust, en þá stóð þinghald ekki lengi og engin mál afgreidd, svo að þessi brbl komu til staðfestingar á þinginu í desember, eftir kosningar, og voru lögð fram af þáv. ríkisstj., minnihlutastjórn Alþfl., sem leitaði samráðs við þm. úr öllum flokkum til að afgreiða og staðfesta þessi brbl. En þessi lög áttu að renna út og runnu út 31. des. 1979. Þá var sjáanlegt við fiskverðsákvörðun og viðræður allar í janúarmánuði að ekki væri hægt að hverfa frá olíugjaldinu, því að það mundi hafa svo geigvænleg áhrif vegna fiskiskipa í landinu almennt að ekkert samkomulag mundi nást um fiskverð og sjáanlegt væri að meginhluti fiskiskipaflotans mundi stöðvast ef olíugjaldið yrði lagt niður. Þá tók þáv. sjútvrh. upp það ráð að lofa fiskvinnslunni nokkrum fríðindum í sambandi við gengissig og þess háttar og útgerðinni því að leggja fram nýtt frv. til l. um olíugjald, sem átti og á að gilda fyrir árið 1980. Þetta frv. bar hæstv. þáv. sjútvrh. fram og við fulltrúar flokkanna hér á Alþ. fengum þetta frv. til meðferðar og afgreiddum það sem lög 24, jan. 1980, eða réttara sagt það var samþ. á Alþ. þann dag, þó að forseti hafi staðfest lögin nokkrum dögum síðar. Í þessum lögum segir, að „þegar fiskiskip selur afla í innlendri höfn, eða afhendir afla sinn til vinnslu án þess að sala fari fram, skal fiskkaupandi eða fiskmóttakandi greiða útgerðarmanni eða útgerðarfyrirtæki olíugjald, sem nemi 5% miðað við fiskverð eins og það er ákveðið af Verðlagsráði sjávarútvegsins. Hið sama gildir, þegar fiskiskip selur afla sinn öðru skipi til löndunar í innlendri höfn. Olíugjald þetta kemur ekki til hlutaskipta eða aflaverðlauna.“

Og í 4. gr. þessara laga segir: „Lög þessi öðlast þegar gildi og skulu ákvæði þeirra taka til fiskafla og hlutaskipta frá upphafi til loka árs 1980, nema aðilar að kjarasamningum sjómanna og útvegsmanna komi sér saman um önnur hlutaskipti.“ Setning þessara laga var því algert samkomulagsatriði allra aðila sem stóðu að fiskverðsákvörðun, samkomulagsatriði sjómanna, útvegsmanna, fiskkaupenda, stjórnvalda, og staðfesting Alþingis var með samhljóða atkvæðum.

Í hæstv. ríkisstj. eiga sæti a. m. k. sjö ráðherrar sem stóðu að setningu löggjafar um efnahagsmál o. fl., sem samþ. var á Alþ. 7. apríl 1979, þar sem þeir ákveða með þessari löggjöf að hafa samráð stjórnvalda við samtök launafólks, sjómanna, bænda og atvinnurekenda. Í 3. gr. þeirra laga segir að efla skuli reglubundið samráð og samstarf stjórnvalda og launafólks, sjómanna, bænda og atvinnurekenda í efnahags- og kjaramálum. Þar segir einnig að þátttakendur í samráði samkv. 3. gr. laganna skuli vera fulltrúar launafólks, sjómanna, bænda og atvinnurekenda og opinberra aðila. Samráðsfundi má halda bæði með fulltrúum einstakra samtaka og fulltrúum ríkisstj. og öllum samráðsaðilum í senn. M. ö. o. á að vera samráð og samstarf á milli hins opinbera, milli stjórnvalda og allra þeirra sem aðild eiga að kjaramálum í þessu landi. En eftir að þessi lög eru samþ. af Framsfl., Alþb. og Alþfl. eru þau þverbrotin hvað eftir annað. Samráð við launþegana í landinu hefur aldrei verið minna en eftir að það var lögfest. Okkur, sem vorum í stjórnarandstöðu þá, fannst ekkert mikið til þessara laga koma og mörg ákvæði þeirra lítils virði. En lög, sem eru samþykkt, eru lög á meðan þau eru í gildi, og þá er ætlunin að þjóðfélagsþegnarnir fari eftir þeim lögum.

Fyrir brot á hegningarlögum er mönnum refsað, en nær engin hegning yfir þessa ríkisstj. þegar hún brýtur lögin? Það væri fróðlegt að fá eitthvað að heyra frá hæstv. dómsmrh. í sambandi við það, hvað hann segir þegar ríkisstj. brýtur landslög, hvort það sé í lagi. En hinn óbreytti borgari má það ekki, því að þá er hann tekinn. Og ef brotið er alvarlegt, þá er hann látinn undir lás og slá.

Það er undarleg ríkisstj. sem hagar sér á þennan hátt. Það er eins og þessir menn skilji alls ekki hvað þeir hafa gert, ekki eingöngu í þessu máli, heldur í öllu öðru, einnig í þeim skattpíningarfrv. sem hér liggja fyrir hv. Alþ. Það er haldið áfram á þessari sömu braut. Ef þessi ríkisstj. er ákveðin í því að hafa ekkert samráð við aðila vinnumarkaðarins í þessu landi, hví í ósköpunum manna þeir sig ekki upp í það að afnema þessi lög? Hver bannar þeim það?

Fulltrúi útgerðarinnar í Verðlagsráðinu, sem greiddi atkv. á móti þessari fiskverðsákvörðun, segir að með þessari fiskverðsákvörðun sé vandi fiskvinnslunnar fluttur yfir á útgerðina. Vegna launahækkana 1. mars og vegna áhrifa gengissigs á aðföng útgerðarinnar, sem nú er ráðgert 8% á næstu dögum, breytist afkoma útgerðarinnar frá því að vera 1% hagnaður í 4% tap. Hvað sér hæstv. sjútvrh. og hin glöggskyggna ríkisstj., hinir níu sem með honum sitja, hvað sjá þeir í því að færa frá útgerðinni, sem stóð aðeins yfir núll fyrir, — færa frá henni þessar tekjur þannig að hún er rekin með tapi? Þetta minnir á það þegar menn pissa í skóinn sinn, þá volgnar fóturinn svolítið í bili, en verður því kaldari á eftir. Þessi aðferð, að pissa í skóinn sinn, hefur aldrei gefist vel og hún kemur ekki til með að gefast vel. (Gripið ham í: Þeir vita það fyrir vestan.) Nei, það er aðallega fyrir sunnan sem þeir stunda þessa iðju núna, og það meira að segja í ríkisstj. sem hv. þm. styður enn þá, með semingi þó sem von er.

Þó að ég beri ekkert traust til núv. ríkisstj., þá verð ég auðvitað að viðurkenna það, að hún er ríkisstj. í landinu sem á að heita að hafi meiri hl. þm. á bak við sig, þó að sumir hverjir styðji hana með hangandi hendi, fleiri en einn og fleiri en tveir, svo að það er aldrei að vita hvenær þessi hryggðarmynd hrekkur upp af. Ég hugsaði á þann veg, og vildi ekki vera verri þm. en það, að skynsamlegra væri að leysa fiskverðsmálin núna á miðju verðtímabili í sátt og samlyndi við sjómenn, þegar ekki var um meira að ræða en 2.67%, í sátt og samlyndi við útgerðina, sem hefði einnig getað gengið til samninga um aðeins minna en sjómenn fengu. En með því að leysa málið með þessum hætti er ríkisstj. að velta vaxandi vanda yfir á maímánuð eða yfir í maílok. Þá stöndum við frammi fyrir meiri verðbótum til launþega í þessu landi en þeir fengu 1. mars. Þá stöndum við frammi fyrir kröfu sjómanna um sömu verðbætur og aðrir koma þá til með að fá, auk 2.67% verðbóta sem þeir voru snuðaðir um við þessa fiskverðsákvörðun.

Þannig hefur ríkisstj. gert þennan vanda meiri en hann þarf að vera. Það hefði verið betra að ná samningum um eitthvað minna og hafa menn sæmilega ánægða og fara ekki í leiðindi út af ekki meiri ágreiningi en hér er um að ræða.

Mér er það alveg ljóst, að ríkisstj. á við erfiðleika að etja í þessum efnum eins og allar ríkisstj. á hverjum tíma. Og nú segja menn og að sjálfsögðu segir hæstv. sjútvrh.: Hvað segir þá frsm. Sjálfstfl. í sjútvn. um vanda fiskvinnslunnar? Vandi fiskvinnslunnar er gífurlegur. Ég var einn af þeim fyrstu, a. m. k. hér á Alþ., sem gerðu að umræðuefni hinn geigvænlega vanda fiskvinnslunnar, og gerði það hér í ræðustól utan dagskrár. En þá hafði forsrh. áður látið hafa eftir sér í blöðum og öðrum fjölmiðlum að þeir hefðu grætt svo á undanförnum árum að þeir yrðu að bera sínar byrðar sjálfir og það kæmi ekki til greina að líta neitt til fiskvinnslunnar. Svona er nú óþægilegt þegar menn eru að tala um hluti sem þeir hafa ekkert vit á. Og þetta frumhlaup forsrh. kostaði það, að gengissigið var stöðvað í nokkra daga til þess að gera hann ekki að algjörum ómerkingi nema þá stuttan tíma. Sjútvrh. boðaði gengislækkun og fékk snuprur fyrir. Að mörgu leyti var það eðlilegt, en hann er ekki einn um það. Það eru margir Íslendingar sem hafa boðað gengislækkun til þess að auka spákaupmennsku í þessu landi.

Annar hæstv. ráðh. sagði alveg fram á elleftu stundu að það yrði engin gengisbreyting gerð. Og meira að segja eftir að Seðlabankinn var búinn að fella gengi dollarans þrætti hann fyrir það. En hann sagðist hafa sagt alveg satt allan tímann og fór tvo hringi sama daginn og hafði mikinn heiður af, að því er sagt er. Svo kom hér þm. í nótt og sagði að það ætti að láta sjútvrh. fara úr ríkisstj. fyrir að tala svona opinskátt um gengislækkanir, en hinn, sem sagði ekki satt frá, átti að vera áfram. (Forseti: Ég þykist vita að hv. þm. eigi eftir mikið af ræðu sinni, en gæti hann hugsað sér að gera hlé á henni.?) Það er alveg sjálfsagt að verða við beiðni hæstv. forseta í þeim efnum. — [Frh.]