02.04.1980
Sameinað þing: 41. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1735 í B-deild Alþingistíðinda. (1605)

116. mál, fjárlög 1980

Vilmundur Gylfason:

Herra forseti. Þessi litla brtt. leggur ekki auknar byrðar á herðar skattgreiðendum í landinu. Hér er aðeins um að ræða litla tilfærslu,15 millj. kr., sem færast af rekstrarliðum Alþingis, eins og það er orðað í fjárlagafrv., og yfir til þess að sama upphæð, þessar sömu 15 millj. kr. séu notaðar til þess 'að auka möguleika Alþingis til að gera sjálft sig að stofnun fyrir fólkið í þessu landi. Getur það verið annað en Alþ. til hins mesta sóma að fólkið í landinu viti svolítið um það sem hér fer fram? Ég satt að segja hélt ekki. Ég hélt að þessi stofnun væri þannig saman sett, að þeir, sem hana sitja, kysu að fólkið í þessu landi hefði nokkrar upplýsingar um það sem hér færi fram.

Við vitum það, hv. alþm., að fréttaflutningur frá þessari stofnun hefur verið afleitur. Það er ekki fréttamönnum að kenna. Það er að kenna því, að lítið fé hefur verið veitt til fréttaflutnings, fáir fréttamenn hafa verið fengnir hér til starfa og ríkisfjölmiðlar hafa af fjárhagslegum ástæðum verið vanbúnir til þess að sinna sínum störfum. Hér er verið að leggja til að litlar 15 millj. séu fluttar til þess fyrirbæris sem á útvarpsmáli er kallað „stúdíó,“ sem kallað er bein lína, þannig að orð þau, sem hér eru töluð, komist út í loftið ef fréttamenn svo meta. Það þarf að auka tengsl á milli þings og þjóðar. Þjóðin veit allt of lítið um það sem hér fer fram, og sem gamall gagnrýnandi þessarar stofnunar held ég að það sé henni til sóma að fólkið fái meiri vitneskju um það, sem hér fer fram, heldur en það nú hefur. (StJ: Er verið að tala utan dagskrár?) Ég er að biðja um að traustið, sem þjóðin hefur á þessari stofnun og fer dvínandi, m. a. út af aths. af því tagi sem hv. þm. gerði, og ég get vel skilið fólkið í þeim efnum, — ég er að biðja um að þetta traust sé aukið á nýjan leik. Þess vegna er þessi litla till. flutt. Hér er aðeins verið að biðja um það, að litlar 15 millj. séu fluttar af rekstrarliðum Alþingis og til að auka tengst á milli þingsins og þessarar þjóðar. Þetta er lítil till., það eru ekki auknar byrðar á skattgreiðendur. (StJ: Er þm. að gera grein fyrir atkv. sínu?) Ég veit að þessi þjóð vill það, og ég held að þetta þing gæti aukið sóma sinn með því að segja já við þessari till. Ég segi já.