02.04.1980
Sameinað þing: 41. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1737 í B-deild Alþingistíðinda. (1613)

116. mál, fjárlög 1980

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Þessi till. var því aðeins flutt að gera það fært, að stjórnvöld geti staðið við loforð sem bæði skriflega og munnlega var gefið sjómannasamtökunum í sambandi við gerð kjarasamninga fyrir rösku ári um svokallaðan félagsmálapakka, en í honum var einn þátturinn fjárframlag úr ríkissjóði til stofnkostnaðar sjómannastofa. Ég hélt satt að segja, að það væru mistök hjá hæstv. ríkisstj., hún hefði hreinlega gleymt að hafa þetta framlag í frv., og flutti þessa till. aðeins til þess að bæta fyrir það sem ég hélt að væru mistök hæstv. ríkisstj. Nú virðist vera ljóst orðið að þetta eru ekki mistök, heldur af ráðnum huga gert af hæstv. fjmrh. og hæstv. félmrh. að svíkja með þessum hætti skrifleg og munnleg loforð við sjómannasamtökin sem þessi hæstv. ráðh. gáfu fyrir rösku ári. Ég ætla að vonast til þess, að þó að þessi till. falli sjái þessir hæstv. ráðh. sóma sinn í því að reyna með einhverjum öðrum hætti að standa við orð sín, sem eru ekki nema rúmlega eins árs gömul. Ég segi já.