09.04.1980
Efri deild: 59. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1743 í B-deild Alþingistíðinda. (1634)

142. mál, heilbrigðisþjónusta

Félmrh. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Vorið 1978 voru samþ. lög nr. 57/1978, um heilbrigðisþjónustu. Síðan hefur komið í ljós að nauðsynlegt er að breyta ýmsum ákvæðum þessara laga eða lagfæra þau í ljósi reynslunnar og hér hefur ríkisstj. lagt fram til athugunar á Alþingi frv. til l. um breyt. á lögum um heilbrigðisþjónustu. Hér er fyrst og fremst um það að ræða að breyta nokkuð umdæmamörkum frá því sem er í lögum nr. 57/1978. Þessar brtt. eru sem hér segir:

Það er í fyrsta lagi snertandi Húsavíkurumdæmi eða 14. gr., 6. tölul., undirlið 3.1 í lögunum, og brtt. gengur út á það, að Kelduneshreppur, Öxarfjarðarhreppur, Fjallahreppur og Presthólahreppur flytjist frá Húsavík og yfir til Kópaskers. Þegar lög um heilbrigðisþjónustu voru síðast til meðferðar á Alþingi vorið 1978 láðist að ákvarða Kópaskeri sérstakt starfssvæði og er með þessari brtt. bætt úr þeim ágalla heilbrigðisþjónustulaganna.

Í öðru lagi gerir frv. þetta ráð fyrir að undir Þórshafnarumdæmi falli nú Raufarhafnarhreppur, en í staðinn verði H-stöð á Raufarhöfn, en ekki H 1 eins og nú er gert ráð fyrir í lögum um heilbrigðisþjónustu. Fyrir þessu liggja rök sem þekkt eru, að erfiðlega hefur gengið að manna þessi svæði á þeim misserum sem liðin eru frá því að heilbrigðisþjónustulögin tóku gildi. Það hefur raunar reynst ógerlegt að fá lækni til að setjast að á Raufarhöfn og erfiðlega hefur gengið að fá lækni til Þórshafnar.

Í þriðja lagi er hér gert ráð fyrir því, að Skeggjastaðahreppur falli undir Vopnafjörð, H 1 stöðina þar, og flytjist þar með undan H-stöðinni á Bakkafirði.

Þá er hér gert ráð fyrir því, að Vatnsleysustrandarhreppi verði þjónað í Keflavíkurumdæmi, en hann fellur samkv. núgildandi lögum undir Hafnarfjarðarumdæmi.

Í samræmi við þá brtt., sem gerð er varðandi Þórshafnarumdæmi, er gerð brtt. í sambandi við ákvæði til bráðabirgða um að orðin „og heilsugæslustöð á Þórshöfn þjónar Skeggjastaðahreppi“ falli niður úr þessu bráðabirgðaákvæði 14.10.

Loks er hér um að ræða brtt. sem er sennilega ein sú veigamesta. Það er brtt. við lið 34.4 í lögunum, en það ákvæði laganna er nú þannig orðað: „Ríkissjóður og sveitarfélög ern eignaraðilar í hlutfalli við framlag til sjúkrahúsbygginga, en greiða viðhald fasteigna og tækja að jöfnu.“ Í frv. þessu er gert ráð fyrir að viðhaldskostnaður vegna fasteigna og tækja greiðist af daggjöldum.

6. gr. frv. hljóðar þannig: „Lög þessi öðlast þegar gildi.“ En með tilliti til þess, að fjárlög hafa nú nýlega verið afgreidd fyrir árið 1980, tel ég í rauninni eðlilegast, ef Alþ. afgreiðir þetta frv. á þessu vori, að frv. taki gildi frá 1. jan. 1981.

Ég vil annars segja það í tengslum við þetta mál, að nú er til athugunar á vegum ríkisstj. öll verkefnaskipting ríkis og sveitarfélaga, þar meðtalin auk þess tekjuskipting ríkis og sveitarfélaga. Ég fyrir mitt leyti tel út af fyrir sig, að miðað við allar aðstæður geti verið eðlilegt, vegna þess hvað hér er um stórt mál að ræða, að ákvörðun um viðhaldskostnað fasteigna og tækja í sjúkrahúsum verði látin bíða heildarákvörðunar um breytingu á verkefnaskiptingu ríkis og sveitarfélaga, en í þetta skipti einbeiti Alþ. sér að lagfæringum á heilbrigðisþjónustulögunum í samræmi við þá reynslu sem fengist hefur af þeirri umdæmaskiptingu sem þar er gert ráð fyrir. Í þessu sambandi hljóta að hafa vaknað meðal hv. alþm. allmargar spurningar um það, hvort núgildandi kostnaðarskipting við framkvæmdir og rekstur í þessum efnum sé eðlileg að öllu leyti. A. m. k. hefur sú spurning vaknað í mínum huga, hvort ekki sé með öllu óeðlilegt, að ríkið leggi fram langt umfram helming af framkvæmdakostnaði við sjúkrahús og heilsugæslustöðvar, en eigi í rauninni engan rétt að því er varðar stjórnun þessara fyrirtækja. Stjórn þessara stofnana er einvörðungu í höndum sveitarfélaganna í grennd. Ég tel að það gæti komið til greina og væru í raun og veru full rök fyrir því, að ríkið ætti aðild að sjúkrahúsum og heilsugæslustöðvum sem eru fjármögnuð að 85% af ríkinu sjálfu. Og ég minni á að á þessu ári, 1980, er gert ráð fyrir að ríkið leggi fram í þessu skyni 3080 millj. kr.

Við meðferð þessa máls hér á hv. Alþ. held ég að eðlilegt væri að hv. heilbr.- og trn. athuguðu ýmsar fleiri brtt. og hugmyndir um breytingar á þessum lögum sem fram hafa komið opinberlega á undanförnum mánuðum. Mun heilbr.- og trmrn. sjá til þess, að hv. heilbr.- og trn. deildarinnar fái þær till. um breytingu á þessum lögum sem borist hafa rn., en ekki hefur verið tekin afstaða til í rn. út af fyrir sig, þannig að Alþ. geti um þessar till. fjallað. Það er auðvitað eðlilegast að með mál af þessu tagi sé þannig farið, að Alþ. hafi þar ítrasta meðráðarétt á öllum stigum málsins.

Ég leyfi mér svo að lokum, herra forseti, að leggja til að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og trn.