09.04.1980
Efri deild: 59. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1744 í B-deild Alþingistíðinda. (1635)

142. mál, heilbrigðisþjónusta

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Ég mun ekki halda hér langa tölu um frv. það sem hæstv. heilbrmrh. gerði grein fyrir. Mér hefur verið kunnugt um það og fleiri þm. Norðurl. e., að af hálfu heilbrigðisráðs kjördæmisins voru á döfinni breytingar af því tagi sem hér koma fram, í fyrsta lagi beinlínis vegna þess að með þessum hætti þótti auðveldast með skjótum hætti, eins og nú stendur á, að ráða fram úr ákaflega alvarlegu vandamáli varðandi læknisþjónustu á Þistilfjarðarsvæðinu og þá þannig að næði yfir til Raufarhafnar, þar sem ekki hafði tekist að fá lækni til Raufarhafnar og yfirvofandi að missa þann eina lækni sem starfandi hefur verið á Þórshöfn, vegna þess að starfsaðstaða væri ekki sem skyldi á þessu svæði. Það fylgdi raunar með af hálfu þeirra Þistilfirðinganna og eins þess læknis sem setið hefur á Þórshöfn, að ekki nægði nú það eitt að bæta þarna við heimild fyrir annan lækni, heldur þyrfti einnig að gera heilsugæslustöðina á Þórshöfn þannig úr garði að hún héldi a. m. k. vatni og vindi, en þarna er um að ræða gamalt hús sem ekki hefur verið lagt í neinn kostnað við í senn tvo áratugi.

Okkur var einnig kunnugt um að á það var sótt af töluverðu kappi af hálfu þeirra Keldhverfinga og Öxfirðinga að fá lækni staðsettan á Kópaskeri. Og það fylgdi með, að það væri í því von að maður, sem af persónulegum ástæðum hefði áhuga á því að setjast þarna að og er nú að ljúka prófi í læknisfræði, vildi gjarnan koma þangað.

Þá eigum við aðeins eftir að hugleiða stöðu þeirra Raufarhafnarbúa og einnig þeirra fjölmörgu sjómanna sem eiga að sumrinu til a. m. k. skemmsta leið til öruggrar hafnar á Raufarhöfn, ef á læknisaðstoð þarf að halda. Ég er þeirrar skoðunar, að enda þótt við hljótum af mjög illri nauðsyn að sætta okkur við það, sem nú blasir við varðandi stöðu Raufarhafnar, og sætta okkur við þessa lausn sem kannske hinn eina fáanlega kost, að koma upp H2 stöð á Þórshöfn til þess að halda þar læknisþjónustu, þá hljótum við að miða að því að halda því vakandi að útvega einnig lækni sem gæti setið á Raufarhöfn. Hér höfum við 500 manna byggðarlag, meira og minna einangrað að vetrinum, enda þótt úr því hafi nú heldur bæst við tilkomu hafísvegarins og von sé í bættum samgöngum enn þá við Raufarhöfn. Síðan bætist það ofan á, að Raufarhöfn hefur verið ein af meginhöfnum Norðurlands fyrir sjómenn, var það auðvitað á þeim tíma þegar síldveiðarnar voru mestar fyrir Norðurlandi og er einnig sú höfn sem undir vissum kringumstæðum — þegar fiskur heldur sig á norðausturslóðinni — er hin næsta öruggra hafna að leita til, ef slys eða bráða sjúkdóma ber að höndum um borð í fiskiskipum.

Með þessum fyrirvara lýsi ég yfir stuðningi við frv. í þeirri mynd sem það er og að svo miklu leyti sem það varðar Norðurl. e.