09.04.1980
Efri deild: 59. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1745 í B-deild Alþingistíðinda. (1636)

142. mál, heilbrigðisþjónusta

Lárus Jónsson:

Herra forseti. Ég vil gera tvö atriði að umræðuefni strax við 1. umr. þessa máls.

Í fyrsta lagi vil ég hafa fyrirvara um það að fylgja 1. gr. sem fjallar um umdæmisskiptingu á Norðurlandi eystra. Þarna er um að ræða að sumu leyti, eins og hv. þm. Stefán Jónsson kom inn á, mál sem er verulegt deilumál heima fyrir, hvernig skuli skipa málum. Við þm. Norðurl. e. höfum oft rætt þetta mál og verið einhuga um að í því þyrfti að finna einhvers konar málamiðlun heima fyrir án þess að þar kæmu bein fyrirmæli að ofan, hvort heldur væri frá rn. eða hinu háa Alþingi. Við höfðum mælst til þess, að nýskipað heilbrigðisráð, sem á þessu svæði starfar eins og öðrum svæðum nú orðið, tæki þetta mál sérstaklega til umfjöllunar — og mér er til efs að það bæti úr skák að þetta frv. er komið fram nú — að finna þarna á einhverja lausn sem menn mundu geta sætt sig við heima fyrir. Ég verð þá að segja að ég sé ekki neitt athugavert við það, að frv. sem slíkt sé lagt fram og síðan sé leitað umsagnar um það, ef það er alveg ljóst að ekki er meiningin að keyra þetta frv. í gegn á skömmum tíma, t. d. á þeim skamma tíma sem eftir er af þessu þingi. Ef svo er, þá sé ég ekki annað en gott sé að frv. er komið fram.

Það væri gott, ef hæstv. ráðh. vildi tjá sig um það, hvað hann telur þurfa að hafa mikinn hraða á þessu máli, en ég tel að tími þurfi að gefast til þess fyrir aðila heima fyrir í Norðurl. e. að átta sig á þeim brtt., sem felast í 1. gr. þessa frv.

Annað atriði, sem ég vildi gera að umræðuefni núna um þetta mál, er að ég tel mjög orka tvímælis, svo ekki sé meira sagt, að ætla sér að taka fleiri liði inn í daggjaldakerfi sjúkrahúsa. Ég held að þetta kerfi sé í sjálfu sér gengið sér til húðar. Það hefur verkað þannig, að menn hafa fengið svokölluð halladaggjöld nokkurn veginn án eftirlits til viðbótar þeim daggjöldum sem menn fá til þess að standa undir rekstrinum. Þetta hefur að sjálfsögðu ekki orðið til þess að auka aðhald í rekstri sjúkrahúsa, sem er ekki síður nauðsynlegt í þeim rekstri en öðrum, þannig að ég held að það ætti að athuga hvort ekki fyndist nýtt og betra form á samrekstri ríkis og sveitarfélaga á sjúkrahúsum heldur en daggjaldakerfið. Það væri eðlilegt að huga að því áður en farið er að auka við það.

Ég get tekið undir það, að nauðsynlegt er að skera úr um hver eigi að greiða viðhaldskostnað þessara mannvirkja. Í lögunum er núna gert ráð fyrir 50% af hálfu ríkisins og 50% af hálfu sveitarfélaganna, sem sveitarfélögum hefur fundist mjög ósanngjörn regla. Ég get tekið undir það, að það er nauðsynlegt að endurskoða þá reglu, en mér er mjög til efs að þarna sé verið að benda á þá leið sem er farsælust.