20.12.1979
Neðri deild: 9. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 126 í B-deild Alþingistíðinda. (164)

42. mál, bráðabirgðafjárgreiðslur úr ríkissjóði

Frsm. (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Fjh.- og viðskn. hefur tekið til meðferðar frv. til l. um bráðabirgðafjárgreiðslur úr ríkissjóði og heimildir til lántöku á árinu 1980. N. hefur rætt efni þess og leitað upplýsinga og í því skyni komu fulltrúar fjmrn. á fund nefndarinnar. N. leggur til að frv. verði samþ. með þeim breytingum sem fram koma á þskj. 62.

Þær breytingar eru þess eðlis, að við 1. gr. frv. sé bætt, en hún orðaðist þannig: „Þar til fjárlög fyrir árið 1980 taka gildi er ríkisstj. heimilt að greiða úr ríkissjóði til bráðabirgða“ o.s.frv. Þar komi inn: „Þó ekki lengur en til 15. febr.,“ þ.e.a.s. nefndin leggur til að þessi greiðsluheimild til handa ríkisstj. vari ekki lengur en til 15. febr., og væntanlega verður þá að taka til endurskoðunar hvort sé nauðsynlegt að framlengja heimildina ef fjárlög hafa þá ekki verið samþykkt.

Í öðru lagi leggur n. til að breyting verði gerð á 3. gr. frv., en greinin hljóðaði þannig:

„Fjmrh. f. h. ríkissjóðs er heimilt að taka lán allt að 12 milljörðum kr, á árinu 1980 og verja andvirði þess í samráði við fjvn.“ o.s.frv.

Þar komi: „Fjmrh. f.h. ríkissjóðs er heimilt að taka lán allt að jafnvirði 12 000 millj. kr. í erlendum gjaldeyri á árinu 1980 og verja andvirði þess að fengnu samþykki fjvn.

N. telur eðlilegt, eins og nú er málum komið, að fjvn. taki þessa ráðstöfun til meðferðar og fari engin ráðstöfun fram nema að fengnu samþykki fjvn.

Á nefndarfundi í morgun var upplýst að þau mál, sem einkum þyrfti fjármagn til í jan. og febr., væru þessi: Til vegagerðar 1500 millj., vegna Grundartanga 100 millj., vegna Landsvirkjunar 263 millj., vegna járnblendiverksmiðju 195 millj., eða samtals í A-hluta 2058 millj. Í B-hluta: Byggðasjóður 1000 millj., Lánasjóður ísl. námsmanna 700 millj., Ríkisútvarp 250 millj., Rafmagnsveitur ríkisins 1000 millj., byggðalina 1500 millj., dreifikerfi 100 millj., byggðalína, skuldir, 1200 millj., Póstur og sími 400 millj., jarðstöð 468 millj. og endurlán 34 millj., eða samtals í A- og B-hluta 8711 millj. Þar að auki hitaveitur 1500 millj., Orkubú Vestfjarða 250 millj., ýmislegt 139 millj. eða samtals 10 600 millj.

N. hefur út af fyrir sig ekki gert neina athugun á eða lagt neitt mat á hvaða nauðsyn væri hér á, en það verður aðsjálfsögðu verkefni fjvn. og fjmrn. og fjmrh. að fjalla nm það. En í þessu skyni er talið nauðsynlegt að taka 12 milljarða lán, m.a. vegna þess að talið er hagstætt að hæfileg fjárhæð í þessu skyni sé u.þ.b. 30 millj, dollara, t.d. upp á lántöku erlendis, og sú lántaka sé a.m.k. vegna fyrstu tveggja mánaða ársins. Það er náttúrlega mikilvægt að þessi lántaka sé sem hagkvæmust fyrir þjóðarbúið.

Varðandi ríkissjóð var upplýst í n. nú í morgun, að gerð hefur verið greiðsluáætlun fyrir ríkissjóð í jan. og febr. Þar er gert ráð fyrir að tekjur ríkissjóðs verði í janúarmánuði 19 milljarðar og 97 millj. kr., en gjöld 26 milljarðar og 525 millj. eða rekstrarhalli í janúarmánuði 7 milljarðar 428 millj., en í febrúarmánuði verði tekjur 22 milljarðar og 5 millj. kr. og gjöld 27 milljarðar og 876 millj. eða rekstrarhalli 5 milljarðar 871 millj. Það er því ljóst að til þess að mæta rekstrarhalla fyrstu tvo mánuðina mun ríkissjóður þurfa að stofna til viðskiptaskuldar við Seðlabankann. Er veitt heimild til þess í 2. gr. frv. að ríkissjóður stofni til tímabundins yfirdráttar á aðalviðskiptareikningi ríkissjóðs hjá Seðlabankanum eins og áður, en þannig er háttað á þessum árstíma að óhjákvæmilegt er að stofna til slíkra skulda.

Ég tel ekki ástæðu, herra forseti, að gera frekari grein fyrir máli þessu, en vil aðeins ítreka að n. leggur til að frv. verði samþ. með þeim breytingum sem ég hef nú þegar gert grein fyrir.