09.04.1980
Neðri deild: 56. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1747 í B-deild Alþingistíðinda. (1640)

136. mál, olíugjald til fiskiskipa

Frsm. minni hl. (Matthías Bjarnason) [frh.]:

Herra forseti. Ég tel það nú fremur óvenjulegt í umr. um lagafrv., að ræða standi nokkuð á aðra viku, þó að æðilöng hvíld hafi verið gerð. En hæstv. ráðh., sem þetta mál heyrir undir, sagði að afgreiðsla frv. um tímabundið olíugjald, sem var til afgreiðslu í janúar, hefði farið í gegnum báðar deildir á svo til engum tíma. Þetta er hverju orði sannara og réttara. Þannig fer yfirleitt með mál sem er samkomulag um og enginn ágreiningur. Um það mál var samkomulag í Verðlagsráði sjávarútvegsins og allir fimm fulltrúar í yfirnefnd Verðlagsráðsins greiddu fiskverðinu atkv. með þessari skýringu. En það er eins og það fari óskaplega í þá, sérstaklega framsóknarmenn, þegar lögð eru fram mál, að stjórnarandstaðan skuli leyfa sér að flytja nokkrar ræður. Hér er það ég sem ræð, vilja þeir sumir segja, og hvað eruð þið að leyfa ykkur að hafa einhverja aðra skoðun en við?

Þó gengur út yfir allt samtalið við formann þingflokks Framsfl. í Tímanum á fimmtudaginn. Ég les það blað ekki nema með höppum og glöppum, en mér var bent á þetta áðan. Þar segir þessi þm. með alveg óskaplegu yfirlæti, eins og honum hafi stigið það svo til höfuðs að verða formaður þingflokks Framsfl. að hann telji að þingið eigi að falla á kné fyrir honum þegar hans vilji er annars vegar, — hann segir: „Með málþófi og algerlega óviðurkvæmilegum aðferðum hefur minni hl. hér á Alþ. reynt að hindra lýðræðislegan meiri hl. í því að koma fram nauðsynlegum málum.“ Svo segir Páll Pétursson, formaður þingflokks framsóknarmanna, í gærdag í viðtali við Tímann um umræður þær sem verið hafa á Alþ. síðustu daga. Enn fremur segir hann: „Þinglið ríkisstj. hefur verið samhent um það að koma fram þessum nauðsynlegu málum, sem ekki þola bið. Sem dæmi um framkomu stjórnarandstæðinga má nefna það, að þeir töfðu endanlega atkvgr. um fjárlögin með löngum fyrirlestrum, úrúrsnúningum og greinargerðum þegar þeim var gefinn kostur á að gera grein fyrir atkv. sínu. Einkum misnotuðu þeir Halldór Blöndal og náttúrlega Vilmundur Gylfason aðstöðu sína gróflega í atkvgr.“

„Málþóf stjórnarandstæðinga hófst í fyrradag,“ segir Tíminn áfram í greininni, „þegar fjárlagafrv. kom til afgreiðslu. Var fjallað um frv. frá því kl. 5 á þriðjudag og fram til kl. 4 um nóttina.“ Hugsa sér nú, hvílíkt málþóf við afgreiðslu og umr. um fjárlög! Ætli nokkur þm. geti bent á, þegar bornar eru saman umr. um fjárlagafrv., 2. og 3. umr., að styttri umr. hafi farið fram en einmitt núna? En þingflokksformaður Framsfl. getur þess ekki, að fjárlagafrv. átti að koma til umr. kl. 2 þennan dag, en þá bað hann um frestun á fundum í Sþ., því það mun einhver kengur hafa verið í Framsfl. Hann segir ekkert frá því í sínu elskulega málgagni. Ég spyr: Hvað á svona að þýða? Hvaða málþóf átti sér stað við umr. um fjárlög? Þetta er eins og hvert annað utangarnakjaftæði í formanni þingflokks Framsfl., sem hann sennilega skilur ekki sjálfur, hvað þá aðrir.

Svo segir Tíminn: „Í gærmorgun“ — sem sagt á miðvikudagsmorgun, þetta blað kom út á skírdag — „hófst umr. um orkujöfnunargjaldið. Páll Pétursson sagði um frv. um orkujöfnunargjaldið, að það fæli í sér leið til að jafna þann ógurlega mismun sem er á upphitunarkostnaði á olíusvæðunum og t. d. í Reykjavík. Það er á ábyrgð manna eins og Halldórs Blöndals, Matthíasar Bjarnasonar, Sighvats Björgvinssonar og Vilmundar Gylfasonar, ef meiri hl. Alþingis fær ekki tækifæri til að afgreiða þetta mikla réttlætismál nú.“ Ég veit ekki hvað hann meinar með orðinu nú. Ætluðu þeir kannske að afgreiða þetta á skírdag eftir að við vorum farnir heim? Ég veit ekki til þess, að ég hafi talað orð við meðferð þessa máls á Alþ., — ekki eitt einasta orð. En það er ekki minnst á það, að teknar voru 2300 millj. út úr fjárlagafrv. Tómasar Árnasonar til þess að greiða niður upphitunarkostnað. Við sjálfstæðismenn vorum alveg á því, að sú tala væri í fjárl. Það var ekki gert fyrir okkar tilstilli að taka það út. Og ég hef ekki heyrt að Alþfl. hafi heldur farið fram á það. Það hlýtur því að vera ættað úr herbúðum stjórnarinnar. Og sjálfsagt hefur það verið gert með vitund og vilja Framsfl.

Það, sem um er að ræða í sambandi við þetta mál, er að ef verið væri að flytja frv. eingöngu um tekjuöflun til þess að lækka upphitunarkostnað, þá mundi það mál hafa runnið í gegn á tiltölulega örskömmum tíma. En hér er um almenna fjáröflun að ræða fyrir ríkið, sem þingflokksformaður Framsfl. sleppir alveg að segja frá í páskaboðskap sínum í Tímanum.

Svo kemur hann að frv. um olíustyrk til fiskiskipa sem hér er til umr. „Það hafði ekki komist til umr. þegar langt var liðið á kvöld,“ segir þingflokksformaðurinn „vegna málþófs stjórnarandstæðinga.“ Þeir eru að leyfa sér að tala, stjórnarandstæðingar, í blóra við formann þingflokks Framsfl.! Og svo bætir hann því við, sem mér finnst falla inn í þetta mál: „Fiskverð kemur ekki til framkvæmda fyrr en þetta frv. hefur verið afgreitt,“ sagði Páll Pétursson. Hann er formaður sjútvn. Nd. Fiskverðið er ákveðið, það er komið til framkvæmda. Það hefur engin áhrif á uppgjör til sjómanna, — ekki nokkur áhrif. Olíugjaldið er það eina sem hefur áhrif á skipti útgerðar og fiskvinnslu, en ekki sjómanna. Og svo bætir hann við: „Og sjómannaverkfallið á Ísafirði leysist ekki fyrr en málið hefur verið afgreitt. Ef það tefst er það fyrir tilverknað Matthíasar Bjarnasonar og félaga hans.“ M. ö. o. þegar frv. um olíugjald til fiskiskipa er komið fram, þá er lausn fengin á sjómannaverkfallinu á Ísafirði!

Ég vissi ekki að formaður sjútvn. Nd., Páll Pétursson bóndi á Höllustöðum, væri svona vel að sér í verkalýðsmálum og öllu því er lýtur að verðlagningu sjávarafurða. Ég vissi fyrir að hann er mjög vel að sér í því sem lýtur að hans starfsgrein. En mér finnst hann hafa farið afskaplega gætilega með vitneskju sína og þekkingu á þessum málum fram að þessum tíma. (Gripið fram í: Enda er hann bara varaformaður.)Já,fyrirgefið varaformaður og frsm. n., því að formaðurinn hafði ekki lyst á því að mæla fyrir frv., enda stendur hann kannske nær sjómönnum en varaformaðurinn.

Frv. um tímabundið olíugjald var lagt fram í janúar eins og ég sagði áðan, og samþ. með shlj. atkv. og fullu samkomulagi. Þegar það frv. var lagt fram höfðu orðið gífurlegar breytingar á olíuverði, olían hafði hækkað upp í 155,25 kr. gasolíulítirinn í desembermánuði. Í grg. með því frv. segir að hætta geti verið á, þó ekki sé um það fullyrt, að olíuverð hækki á árinu 1980. Þó taldi þáv. sjútvrh. að vonir væru bundnar við það, að nýir viðskiptasamningar við breska risaolíufélagið gætu dregið úr þessari hættu á hækkun þegar kæmi fram á síðari hluta þessa árs. Það var ekki verið að hækka olíugjaldið þá. Það var verið að lækka það úr 9% niður í 5%. Og það var talin forsenda þess að útvegsmenn gætu samþ. fiskverðið og staðið að því í janúarmánuði, sem átti að gilda frá áramótum, að olíugjaldið yrði ekki lægra.

Í frv. núv. sjútvrh. er gert mikið veður út af olíuverðinu og þar segir: „Nú hafa mál hins vegar skipast svo, að skráð gasolíuverð á Rotterdammarkaði hefur að undanförnu verið á bilinu 295–300 dollarar fob. hvert tonn, en viðmiðunarverð var tæplega 329 dollarar þegar gasolíuverðið var ákveðið 155,25 hver lítri í desember 1979.“ Síðan segir áfram í frv. núv. sjútvrh.: „Verð á Bandaríkjadollar hefur aftur á móti hækkað verulega í íslenskum krónum frá des. 1979 og enn eru nokkrar birgðir af olíu í landinu á hærra verði, en þó virðast um þessar mundir frekar líkur til lækkunar olíuverðs en hækkunar á næstu mánuðum.“ Ég spyr: Er það skynsamlegt að lækka olíugjaldið á meðan verðið á olíunni er óbreytt hér heima? Þetta viðmiðunarverð á Rotterdammarkaðinum hefur ekki haft nein áhrif til lækkunar á olíuverði hér enn þá. Ef olían lækkar tel ég sjálfsagt að taka þetta mál aftur til athugunar. En á meðan olíuverðið er það sama og í desember, þá er verið að rýra stórkostlega tekjur útgerðar til þess að bæta fiskvinnslunni, sem þarf auðvitað á þessum tekjum að halda og meira til. En það verður ekki gert með þeim hætti að tryggja taprekstur útgerðarinnar eins og gert er ráð fyrir með þessu frv.

Mér þætti gaman að heyra hvort þm. stjórnarliðsins — sem eru að berjast fyrir að fá framlengingu á vanskilalánum útgerðarfyrirtækja í sínum byggðarlögum og vilja fá úr opinberum sjóðum ný lán — telja að þetta sé leiðin til þess að styrkja stöðu þessara aðila sem nú eru að biðja um ný lán. Það væri fróðlegt að vita t. d. hvort stjórnarmenn úr stjórnarliðinu í Framkvæmdastofnun ríkisins, sem vilja fá afgreiðslu á slíkum málum, telja að þetta sé leiðin. Það væri líka fróðlegt að heyra úr herbúðum stjórnarþm. hvað þeir telja um grundvöllinn fyrir t. d. loðnuútgerðinni, sem stendur höllustum fæti allrar útgerðar í landinu, hvort ekki sé nú verið að ganga of nærri henni, því nógir erfiðleikar voru þar fyrir. Og ekki held ég að það bæti rekstrarstöðu þeirra báta, sem mest nota olíu, eins og við togveiðar, og þá á ég ekki síst við báta í Vestmannaeyjum sem eru þar hlutfallslega flestir. Verður þetta til þess að styrkja stöðu þeirrar útgerðar? Það er leitt að formaður sjútvn. Nd. skuli ekki vera hér í þingsalnum til þess að sannfæra mig um að þetta styrki stöðu útgerðar í Eyjum. Kannske er hann í Vestmannaeyjum að sannfæra Eyjamenn um að þetta sé til þess að styrkja rekstrarstöðuna. Ég veit það ekki.

Lögin um Verðlagsráð sjávarútvegsins eru sú eina leið sem bæði hagsmunaaðilar í sjávarútvegi og stjórnmálaflokkar á Alþ. hafa séð í sambandi við ákvörðun fiskverðs. Ég gat þess í fyrri hluta þessarar ræðu, að það fordæmi, sem skapað var með einhliða úrskurði oddamanns yfirnefndar, yrði ekki notað oftar, því að það mundi þýða það sama og að leggja niður lögin um Verðlagsráð. Allir aðilar þessa máls mundu mótmæla því, að tekið væri upp aftur það sem gert var 1964, 1967 og 1968, í þremur tilfellum. Aðeins í tveimur tilfellum auk þessa hefur verð á sjávarafla verið ákveðið með minni hl. atkv. í Verðlagsráði, með tveim atkv. í hvort skiptið og þrír sátu hjá. Á síðustu árum, eða í rúmlega tólf ár, hafa aldrei verið teknar ákvarðanir um fiskverð nema með meiri hl. atkv. í yfirnefnd, eða Verðlagsráðinu ef ekki hefur verið vísað til yfirnefndar. Þetta er í fyrsta skipti í tólf ár sem þessi aðferð er notuð. Og þessi aðferð er að mínum dómi stórhættuleg og hún skapar aukinn glundroða. Ég hef áður — og ætla ekki að orðlengja frekar um það — talið óvarlegt að klípa 2.67% af launauppbót til sjómanna þegar aðrir fengu 6.67% frá 1. mars, því að það skapar ríkisstj. og sjútvrh. mjög mikla erfiðleika við næstu fiskverðsákvörðun, sem á að liggja fyrir eftir rúmlega 11/2 mánuð. Og það er ekki af illum hug sagt eða gert, að ég vara við því að ríkisstj. skapi sér á þennan hátt óþarfa erfiðleika, nógir verða þeir samt þegar á að ganga til ákvörðunar um fiskverð fyrir næsta verðtímabil.

Það kom fram á sameiginlegum fundi sjútvn. beggja deilda í upplýsingum þjóðhagsstjóra, að laun sjómanna hefðu hækkað hlutfallslega meira en laun almennra launþega í landinu frá árinu 1974 til ársloka 1978, en þá raskaðist þetta hlutfall sjómönnum í óhag. En það var ekki fyrr en vinstri stjórn hafði verið mynduð sem þessu hlutfalli var raskað, því að á tímabili ríkisstj., sem sat 1974–1978, var meðaltalshækkun á fiskverði á þessu tímabili öllu 287.6%, en kauptaxtar verkamanna hækkuðu á þessu sama tímabili um 261.6% og kauptaxtar allra launþega í landinu hækkuðu á þessu sama tímabili um 252.7%. Bilið á milli hækkunar til sjómanna og hinna almennu launþega var um 29% á þessu tímabili, sem sjómenn náðu að rétta sinn hlut. En nú virðist stefnan vera sú — og hafa verið að verulegu leyti síðan haustið 1978 — að aftur eigi að sækja í sama horfið og áður var. Og þetta á að réttlæta með auknum afla í öðru orðinu. Það er rétt, að aflinn hefur stóraukist. Síðast í dag heyrði maður í hádegisútvarpi að landað hefði verið yfir 50% meira á Rifi og Snæfellsnesi en á sama tíma og í fyrra, ég held 54 eða 55%. Það sýnir hvað aflinn hefur aukist. Hins vegar kemur svo þar á móti, að takmarkanir á veiðum eru stórlega auknar og það dregur auðvitað úr tekjum bæði sjómanna og útgerðar, eins og gefur að skilja.

Ég ætla ekki að hafa þessi orð miklu fleiri. Ég tel að með samþykkt laganna í janúar um tímabundið olíugjald til fiskiskipa hafi það ákvæði verið sett, að þau lög hafi átt að gilda út árið 1980, því að í 4. gr. þeirra laga segir að lög þessi öðlist þegar gildi og skuli ákvæði þeirra taka til fiskafla og hlutaskipta frá upphafi til loka árs 1980, nema aðilar að kjarasamningum sjómanna og útvegsmanna komi sér saman um önnur hlutaskipti. Ég tel ekkert réttlæta það að svíkja þetta loforð sem alþm. gáfu með shlj. atkv. hér á Alþ., nema ef olíuverð lækkaði hér heima. En þó að viðmiðunarverð á Rotterdam-markaði lækki hefur það ekki lækkað hér heima, það hefur ekki létt á útgerðarkostnaði hér á Íslandi. Meðan svo er, þá eru það svik að hverfa frá því sem samþ. var hér í janúarmánuði í vetur.