09.04.1980
Neðri deild: 57. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1786 í B-deild Alþingistíðinda. (1655)

135. mál, orkujöfnunargjald

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Hér er á ferðinni mál sem hæstv. ríkisstj. hefur lagt ofurkapp á að fá afgreitt sem allra fyrst. Hún lagði slíkt ofurkapp á afgreiðslu málsins, að hún ætlaði á tímabili að krefjast þess, að þm. ekki aðeins sætu á fundi fyrir páska bæði daga og nætur, heldur einnig á helgum dögum. Það var gert samkomulag um meðferð málsins og umr. hófst hér um hálfsex. Hæstv. forsrh., oddviti þessarar ríkisstj., hefur ekki verið við umr. Hæstv. fjmrh., sem er flm. þessa frv., hefur setið hér eins og kría á steini, verið með höppum og glöppum viðstaddur umr. Hæstv. iðnrh., sem þetta mál heyrir meira og minna undir, er ekki viðstaddur. Hæstv. viðskrh., sem fer með verðlagsmál í þessu landi, — en verði frv. þetta samþ. mun það hafa áhrif til stórhækkunar á vöruverði og til hömlunar því að menn komist út í margumrædda niðurtalningu verðbólgunnar, — hann er ekki við. Hæstv. utanrrh. fékk á s. l. vetri sett lög sem við hann eru kennd og kölluð Ólafslög, sem mæla svo fyrir að stjórnvöld skuli hafa samráð við aðila vinnumarkaðarins um lagasetningu eins og þessa. Þetta hafa stjórnvöld ekki gert. Sá maður er ekki við sem þessi lög eru við kennd. Hæstv. landbrh. er fyrir nokkru farinn úr húsinu. Hæstv. dómsmrh. hefur ekki verið viðstaddur þessar umr. Hæstv. sjútvrh., formaður stærsta stjórnarflokksins, er ekki viðstaddur. Hæstv. félmrh., sem á að sjá um að lagaákvæðin um samráð við verkalýðshreyfinguna séu virt, er ekki viðstaddur. Aðeins einn hæstv. ráðh., hæstv. menntmrh., hefur setið hér við þessar umr. af tíu ráðherrum. Aldrei hefur verið fjölmennari ríkisstj. á Íslandi en nú, og ég man ekki eftir því á mínum þingferli að hæstv. ráðh. hafi setið jafnilla þingfundi eins og nú. Þessari ábendingu vildi ég koma á framfæri við hæstv. forseta, sem hefur nú ákveðið að halda umr. áfram kl. 9. Ég ætla að mælast til þess við hæstv. forseta, að hann sjái til þess að þeir ráðh., sem því geti komið við, sinni þingskyldum sínum með því að vera hér viðstaddir þegar umr. hefst í kvöld. Verði þess ekki kostur, þá taki hæstv. forseti þá ákvörðun að fresta frekari umr. málsins.