09.04.1980
Neðri deild: 58. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1815 í B-deild Alþingistíðinda. (1667)

135. mál, orkujöfnunargjald

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Ég vil vekja athygli á þeim ummælum, sem hv. 7. þm. Reykv. viðhafði í ræðu sinni áðan, Guðmundur J. Guðmundsson, formaður Verkamannasambands Íslands, þegar hann tók alveg skýrt fram að þær miklu skattaálögur og það mikla stjórnleysi, sem hefði sýnt sig í sambandi við fjárlagafrv., hefði þegar haft skaðleg áhrif á vinnumarkaðinn. Hann tók einnig fram að það væri síður en svo af neinni bjartsýni eða með glöðum huga sem hann ætlaði að greiða því frv. atkv. sem hér um ræðir. Hann afsakaði það raunar í leiðinni að hann hygðist fylgja þeim skattahækkunum sem þegar hefði verið lagt fram frv. um. En á hinn bóginn urðu ummæli hans ekki skilin á annan veg en þann, að hann mundi kjósa helst að gildistaka laganna, sem nú á að samþykkja og felast í frv., næði ekki nema til þessa árs þar sem hann gerði sér vonir um að til annarra ráða yrði unnt að grípa við afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 1981. Þess er því fastlega að vænta að hv. þm. muni samþ. þá till. sem hv. 3. þm. Vestf. lagði fram áðan.

Ég verð að segja, að það er mjög virðingarvert af hv. þm. að hann skuli þrátt fyrir allt hafa manndóm í sér til að segja það umbúðalaust á Alþ. að hann sé kominn í þau málefnalegu þrot að verða að fylgja ríkisstj. eða vilja gefa ríkisstj. tækifæri þó að hann viti að hún sé á rangri leið, en með von um að honum takist að rétta af kúrsinn síðar meir á árinu. Hann hefur með þessum hætti einnig svarað þeim aðfinningum, sem að honum hefur verið beint, þó að hann á hinn bóginn geti ekki þvegið sig með þessum hætti af þeirri sök að hafa fyrir réttum tveim árum varið fé verkalýðshreyfingarinnar til að vinna því brautargengi í vorkosningum 1978 að til valda kæmu þeir flokkar sem lofuðu samningunum í gildi, en hafa svikið það allt saman, enda verður að segjast eins og er, að þeir flokksbræður hans, sem skipa ráðherrastólana, eru ekki í hópi þeirra þm. sem trausts njóta hjá verkalýðshreyfingunni.

En líka vekur athygli afstaða hv. 8. landsk. þm., Guðrúnar Helgadóttur, sem á sæti í stjórn Bandalags starfsmanna ríkis og bæja og ferðaðist bæ frá bæ á árinu 1978 og birti stórar yfirlýsingar um að hún vildi koma samningunum í gildi. (GHelg: Og gerði það.) Og hefur ekki gert það, sveik það í borgarstjórn fyrst með frægum hætti þannig að það kostar málaferli. Hér eru ýmsir inni sem kunna að rekja þá sögu betur, og væri skemmtilegt að hún yrði rakin í þingsölunum. En hér liggur fyrir Alþ. samþykkt frá stjórn BSRB þar sem þessum skattahækkunum er mótmælt. Þessi þm. hefur rétt kjark til þess að grípa fram í þar sem hún stendur frammi á gangi í staðinn fyrir að koma inn í d. og reyna að tala fyrir máli sínu manneskjulega og af einhverri festu. En það er eins þarna og svo víða endranær hjá því fólki sem reynir að koma sér áfram á bakinu á launþegum í landinu með því að níðast á því trúnaðartrausti, sem það hefur aflað sér þar á röngum forsendum, — þegar það stendur frammi fyrir því að því er svarað hefur það ekki kjark til að skýra afstöðu sína og skoðanir.

Það er að sjálfsögðu algerlega ástæðulaust að láta þessa 3. umr. fara svo, að ég ítreki ekki enn sérstaklega, vegna þess að hv. 8. landsk. þm. hefur verið sá endemis vesalingur að taka ekki undir þær réttmætu kröfur sem ég hef gert til fjmrh. og ætlast til þess að hann svari núna, vegna þess að þetta er ekki í fyrsta skipti, heldur hef ég gert þetta hvað eftir annað, að ég óska eftir að vita hvernig staðan sé í samningamálum opinberra starfsmanna. Ég álít að það sé kominn tími til þess að einhver svör fáist við því, um leið og ég vek athygli hæstv. fjmrh. á því, að yfirlýsing hv. 7. þm. Reykv. áðan jafngildir því að þær loðnu yfirlýsingar um frekari skattahækkanir síðar á árinu, sem gefnar voru við 3. umr. fjárl. af hæstv. fjmrh., hafa greinilega ekki fylgi þessa þm. (Fjmrh.: Ímyndar þm. sér að við förum að ræða um kjaramál opinberra starfsmanna núna?) Ég hef gefið fjmrh. m. a. tækifæri til að gera það við fjárlagaafgreiðslu, þar sem rætt er um þær launaforsendur sem þar eru. Ég ímyndaði mér ekki að ráðh. mundi gera það hér. — (Gripið fram í: Á ekki slatti af þessu frv. að fara inn í ríkissjóð?) Vegna þess að ráðh. svarar ekki einföldum spurningum. Einu svörin sem opinberir starfsmenn fá frá fjmrh. og ríkisstj. eru þau sem kastað er framan í blaðamenn, að ráðh. séu ekki til viðtals við opinbera starfsmenn fyrr en búið sé að semja á hinum almenna vinnumarkaði, fyrr fái þeir ekki raunverulegt tilboð. Þetta er sú fyrirlitning sem ríkisstj. sýnir opinberum starfsmönnum. Ég verð að segja að ég óska ríkisstj. til hamingju með fulltrúa opinberra starfsmanna í þessari d., því að ríkisstj. er sannarlega fullsæmd af þeim fulltrúa. Þar hæfir virkilega skel kjafti, svo að ekki sé meira sagt. En það er náttúrlega annað mál.

En mönnum eins og hv. 7. þm. Reykv., sem oft hefur þurft að standa í margvíslegum slag, dettur ekki í hug að láta þessa umr, fara svo að ekki heyrist frá honum. Hann vill að menn geri sér ljóst að hann er hundóánægður, hann er fúll. (Gripið fram í: Það má sjá það á honum.) Það má sjá á honum langar leiðir. Ég veit ekki nema hann fari með þrjár dósir á hverjum fundi, hann er svo önnum kafinn við að taka í nefið.

En það er sem sagt þetta sem ég vil lýsa eftir. Einkar fróðlegt væri að heyra hvað hv. 8. landsk. þm. hefur að segja um alla þessa skatta, um allt þetta skeytingarleysi fyrir kjörum opinberra starfsmanna. Og hæstv. fjmrh., það mætti bara spyrja beint, já eða nei: Er hann reiðubúinn til þess að rýmka samningsrétt opinberra starfsmanna? Já eða nei? — Ekkert svar. (Fjmrh.: Þm. hefur ekki lesið það svar sem ríkisstj. hefur gefið.) Ekki eitt einasta svar. (Fjmrh.: Auðvitað veit hann að svarið er jákvætt.) Jákvætt! Hvað þýðir jákvætt? Meinar hæstv. fjmrh. að hann ætlist til þess að opinberir starfsmenn slái af kröfum sínum að öðru leyti? Koma samningsréttarmál þannig við launþega? Eru ekki launþegar að krefjast fulls samningsréttar vegna þess að á þá hefur verið gengið. Þeir hafa ekki fengið þau kjör sem þeir ætluðust til af því að samningsréttur þeirra hefur verið skertur. Er málið ekki þannig vaxið? Og ef á að veita þeim eitthvað rýmri samningsrétt á að gera það strax, í upphafi samningstímabitsins núna, svo að þeir geti tekið ríkisstj. þeim tökum, sem hún á skilið, og staðið almennilega að því að kengbeygja hana, því að það á hún sannarlega skilið eins og hún hefur hagað sér gagnvart launþegum þann stutta tíma sem hún hefur setið að völdum.

Ég vek athygli á hinum mikla mun sem er á hv. þm. Alþb. í Reykjavík, sinn úr hvorum launþegahópnum, Guðmundi J. Guðmundssyni og Guðrúnu Helgadóttur, því að það er mikill mannamunur. Annar þeirra fellur vel í kramið hjá ríkisstj., en hinn ekki.