09.04.1980
Efri deild: 60. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1818 í B-deild Alþingistíðinda. (1673)

136. mál, olíugjald til fiskiskipa

Sjútvrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér er til umr., um breyt. á lögum um tímabundið olíugjald til fiskiskipa, er liður í lausn erfiðrar deilu um fiskverð. Í jan. s. l. náðist samkomulag um fiskverð sem m. a. fól í sér að aðilar að því samkomulagi höfðu rétt til að segja því upp ef breytingar yrðu á grundvallarforsendum.

Tveir aðilar sögðu því samkomulagi upp eftir 1. mars s. l., í fyrsta lagi sjómenn, sem sögðu upp samkomulaginu vegna þess að orðið hafði launahækkun í landi sem nam 6.67%, og í öðru lagi fulltrúar fiskvinnslunnar, sem sögðu samkomulaginu upp vegna þess að þeir töldu ekki lengur grundvöll til rekstrar fiskvinnslunnar vegna þeirrar kostnaðarhækkunar sem hafði orðið í landi, m. a. vegna launahækkunar 6.67% o. fl. Kom fram í þeirra máli að þeir töldu jafnvel að fiskverð þyrfti að lækka um 10–11%. Fulltrúi útvegsmanna sagði samkomulaginu hins vegar ekki upp.

Af þessu má sjá, að verulegur ágreiningur var þarna á milli aðila, enda reyndist lausn þessarar deilu mjög erfið og fór fljótlega til yfirnefndar. Þar voru haldnir mjög margir fundir án þess að árangur næðist.

Þegar málið hafði dregist nokkuð fram eftir marsmánuði má segja að sú lausn eða þær niðurstöður, sem hugsanlegar væru, gætu talist þrjár:

Í fyrsta lagi að samkomulag yrði gert með sjómönnum og útvegsmönnum um hækkun fiskverðs um 6.67%, en sú var krafa sjómanna, eins og ég sagði áðan, og reyndar einnig útvegsmanna eftir að málið kom til verðlagsnefndar. Þessu hefði að sjálfsögðu fylgt nauðsyn á verulegri lagfæringu á rekstrargrundvelli fiskvinnslunnar, sem taldi, eins og ég hef sagt, að fiskverð væri þegar um það bil 10–11% of hátt. Ekki hefði verið unnt að leiðrétta grundvöll fiskvinnslunnar svo að nokkru næmi nema með verulegri gengisbreytingu, eins og ég kem að síðar.

Í öðru lagi var rætt um þann möguleika að oddamaður úrskurðaði í þessari deilu. Það hefur gerst áður fyrir allmörgum árum. Þeirri hugmynd var mjög sterklega andmælt af öllum mönnum í Verðlagsráði og reyndar hótað af fulltrúum sjómanna og fleirum að þeir mundu hætta þátttöku í Verðlagsráði sjávarútvegsins. Ég taldi þessa lausn því ekki koma til greina. Verðlagsráð sjávarútvegsins hefur starfað í 18 ár og þó ýmislegt megi að því finna hafa menn ekki komið með annað betra kerfi til að ákveða fiskverð. Ég tel satt að segja að fara eigi aðrar leiðir til að bæta það, sem við höfum, heldur en sprengja það í loft upp, eins og segja má að gert hefði verið með slíkum einhliða úrskurði oddamanns.

Þriðji möguleikinn, sem segja má að komið hefði til greina, var sá að ná samstöðu með fiskvinnslunni um t. d. óbreytt fiskverð, en þá ýmsar lagfæringar til að mæta verulegum kostnaðarauka fiskvinnslunnar frá því að fiskverð var ákveðið í janúar, eða jafnvel lækkun fiskverðs, sem fiskvinnslan fór fram á. Það hefði þá að sjálfsögðu verið gert í fullri andstöðu við sjómenn og útvegsmenn. Ég hygg að menn geti verið sammála um það, að sú lausn var ekki heldur æskileg. Bæði er það svo, að sjómenn eiga vissulega rétt á nokkurri launahækkun í samræmi við það sem verður í landi, og einnig er ákaflega mikilvægt að halda sem mest friði á milli aðila að sjávarútvegi og fiskvinnslu.

Niðurstaða ríkisstj. varð sú, að 6.67% hækkun fiskverðs fylgi of mikil röskun á gengi — og að sjálfsögðu leiðir það allt til hækkunar á vísitölu, þannig að um það bil 3% hækkun á fiskverði leiðir til um það bil 1.5% lækkunar á gengi, sem hefur í för með sér um það bil 1/2% hækkun á vísitölu.

Einnig má sýna fram á að sjómenn hafa aukið ráðstöfunartekjur sínar allverulega á undanförnum árum eða um 20–25% meira en iðnaðarmenn og verkamenn frá árinu 1974. Ég vil alls ekki með þessu gefa til kynna að tekjur sjómanna séu óeðlilega háar. Ég veit að í þessari hækkun ráðstöfunartekna felst verulega aukin vinna, þannig að segja má að aukningin felist að nokkru leyti í meiri yfirvinnu og meiri aukavinnu. Hitt held ég að megi einnig sýna, að hluti af þessum auknu tekjum felst í meiri framleiðni, meiri afköstum bátaflotans, betri aðbúnaði að öllu leyti, að það er ekki óréttmætt að taka eitthvert tillit til þess. Það skal jafnframt viðurkennt, að með fiskverðshækkun í janúar var tekið nokkurt tillit til þessa, en þá varð fiskverðshækkun til skipta nokkru minni en launahækkun varð í landi, annars vegar 11% til skipta, en 13.2% launahækkun í landi.

Eftir verulegt þóf og viðræður manna innan Verðlagsráðs sjávarútvegsins náðist að lokum samstaða sem felst í því, að annar fulltrúi fiskvinnslunnar og oddamaður samþykktu þá niðurstöðu sem varð. Fulltrúi sjómanna og hinn fulltrúi fiskvinnslunnar sátu hjá, en fulltrúi útvegsmanna greiddi atkv. á móti. Þessi niðurstaða felst í því að olíugjald, sem hafði verið lækkað í janúar úr 9% í 5%, lækkar úr 5 í 2.5%. Hins vegar hækkaði fiskverð á móti um 4%, þ. e. 2.5% til að mæta þessari lækkun olíugjalds og 1.5% til viðbótar. Fiskverð til skipta hækkar því um 4% í stað 6.67%, sem sjómenn og útvegsmenn fóru fram á. Jafnframt var á vegum sjútvrn. gerð allítarleg athugun á rekstrargrundvelli fiskvinnslunnar og drög lögð að vissum endurbótum sem mér þykir rétt að nefna í örfáum orðum, þótt rétt sé að taka það fram strax, að ekki vega þær þungt í þeim vanda sem þar blasir við.

Þessar lagfæringar felast í því í fyrsta lagi, að vextir Fiskveiðasjóðs verði lækkaðir úr 5. 5% í 4.25%, og var sú till. samþ. í ríkisstj.

Í öðru lagi lagði ég til að aðflutningsgjöld eða sölugjöld af nokkrum fjárfestingarvörum fiskvinnslunnar yrðu felld niður til samræmis við það sem þegar er orðið hjá svokölluðum samkeppnisiðnaði. Þetta var einnig samþ. Nemur tekjutap ríkissjóðs af þessum lækkunum 250–300 millj. kr. á ársgrundvelli, en líklega um 200–250 á þeim mánuðum, sem eftir eru af þessu ári.

Í þriðja lagi lagði ég til að stimpilgjald yrði lækkað frá því sem nú er, úr rúmlega 1.2% í 0.48%, eins og það var fyrir lagabreytingu 1978. Ekki var talið fært að verða við þessu nú. Þetta mundi hafa í för með sér um það bil 300 millj. kr. tekjumissi fyrir ríkissjóð og talið nauðsynlegt að kanna það mál betur.

Í fjórða lagi hefur sjútvrn. ákveðið að beita sér fyrir því, að lausaskuldum í sjávarútvegi og fiskvinnslu verði breytt eins og kostur er í föst lán. Lausaskuldir hafa aukist mjög mikið upp á síðkastið, vanskil alveg sérstaklega í því sambandi, og eru örugglega yfir 10 milljarðar, kannske nær 12 milljörðum. Þessi vanskil eru ekki að öllu leyti óeðlileg. Staðreyndin er sú, að rekstrarfjárþörf sjávárútvegs og fiskvinnslu hefur hvergi nærri verið fullnægt í vaxandi verðbólgu og því hafa þessi vanskil myndast og má segja að skuldaskil séu nánast leiðrétting á því sem þannig hefur orðið af verðbólgunnar völdum. Einnig var samþ. í ríkisstj. að þetta yrði þegar sett í gang, og er nú verið að byrja á því verki.

Þá var jafnframt ákveðið að gera þegar samanburðarathugun á aðstöðu útflutningsatvinnuvega okkar. Þar er nokkuð um það deilt, hvaða atvinnuvegur standi best. Ég skal ekki dæma um það, en í þessari athugun sjútvrn. kom m. a. fram að uppsafnaður söluskattur hjá fiskvinnslunni er 3.8 milljarðar á ári á verðlagi ársins í ár og þar af um 2 milljarðar hjá frystihúsunum, sem náttúrlega gefur fyrst og fremst til kynna, að ástæða er til að kanna breytingu yfir í virðisaukaskatt fyrr en seinna, sem mundi skapa útflutningsatvinnuvegum okkar svipaða aðstöðu að þessu leyti.

Þó að þeir þættir, sem ég hef hér nefnt, vegi e. t. v. ekki þungt í 10–11 milljarða tekjuskorti hjá fiskvinnslunni, þá stuðluðu þeir þó allir að því, að sú afstaða til fiskverðsins fékkst sem ég nefndi áðan, þar sem annar fulltrúi fiskvinnslunnar greiddi atkv. með, en hinn sat hjá.

Ég veit að menn spyrja gjarnan: Hvernig stendur á þessari erfiðu aðstöðu eða afkomu fiskvinnslunnar? Það er ekki langt síðan fisverð var ákveðið með öllum atkv., þ. e. í janúar s. l. Ég hygg að ekki sé nein ein örugg skýring á því, en þó sýnist mér í hnotskurn að þessu verði e. t. v. best lýst með þeirri staðreynd að hækkun á hráefni, þ. e. fiskverði, og á vinnulaunum varð á síðasta ári, árinu 1979, um 55–60%, en hins vegar varð hækkun á útflutningsafurðum frystihúsanna um 30%, og er þá bæði tekið tillit til gengissigs og hækkaðs verðs á erlendum mörkuðum. Þarna er eflaust fleira sem skiptir máli, eins og samsetning aflans, sem ég mun ekki fara út í hér.

En hvað sem því líður, þá er það staðreynd, að sérstaklega á þeim mánuðum, sem liðnir eru af þessu ári, hafa þeir mælikvarðar, sem menn hafa á afkomu fiskvinnslunnar, sýnt að afkoman er mjög slök. T. d. hefur framlegð fallið verulega. En framlegð er reiknuð þannig fyrir þá sem ekki þekkja það hugtak — að kostnaður sem felst í hráefni, vinnulaunum og umbúðum, er dreginn frá heildartekjum og gefur þannig til kynna það sem eftir er í ýmsan annan kostnað. Almennt er talið að framlegð í sterku frystihúsi þurfi að vera um 18–20% og meiri þar sem skuldasöfnun hefur orðið mikil og vaxtakostnaður því hár. En það hefur sýnt sig við athugun Þjóðhagsstofnunar, að framlegð hefur fallið jafnvel sums staðar niður fyrir 10% í bestu frystihúsum og er að meðaltali í 12–15 bestu húsum í kringum 14–15% — og þegar ég segi: bestu hús að þessu leyti, á ég við þau hús sem nú koma út með einna hæsta framlegð. Þessu veldur að mínu mati einnig — þó undarlegt sé — mjög mikill afli og lélegri vinnsla úr miklu hráefni sem á land hefur borist, og ætla ég ekki að fara lengra út í það. Það er satt að segja umræðuefni út af fyrir sig. En ég get þess hér vegna þess að athugun á þessu kom mjög inn í þá viðleitni sem höfð var til að ná samkomulagi um fiskverð.

Ég vil geta þess hér, að í meðferð málsins í Nd. var það gagnrýnt að ég hefði ekki haft sérstaka fundi með fulltrúum sjómanna og annarra í Verðlagsráði. Þetta er að nokkru leyti misskilningur, því ég hitti alla fulltrúa í Verðlagsráði sjávarútvegsins og fékk að kynnast sjónarmiðum þeirra, m. a. fulltrúa sjómanna. Það er hins vegar rétt, að ég taldi ekki rétt að grípa fram fyrir hendur á oddamanni, sem gjörþekkir þessi mál og átti fjölmarga sérstaka fundi með öllum þessum fulltrúum og gerði mér grein fyrir þeim málum sem þar komu fram. Ég taldi það ekki nauðsynlegt, þar sem hann skýrði mér þegar frá því, að fyrir lægi að sjómenn mundu sitja hjá við þessa ákvörðun, og jafnframt hafði ég það frá þeim sjálfum, að það eina annað, sem kæmi til greina, væri 6.67% hækkun. Hins vegar átti ég nokkra fundi með fulltrúa útvegsmanna í tilraun minni til að fá þá til að sætta sig við þessa lækkun olíugjalds, en það tókst ekki. Ég átti einnig fund með fulltrúum fiskvinnslunnar til að upplýsa þá um þær aðgerðir aðrar sem ég nefndi áðan og í gangi voru þannig að til þess mátti taka tillit í ákvörðun þeirra um afstöðu til endanlegrar ákvörðunar í ráðinu.

Ég nefni þetta hér af því að þetta bar nokkuð á góma í hv. Nd. Út af fyrir sig legg ég ríka áherslu á að samráð sé með stjórnvöldum og hinum ýmsu aðilum vinnumarkaðarins. En þess þarf þó að gæta, finnst mér, að ráðh. grípi þar ekki fram fyrir hendur þess manns, sem í umboði ríkisstj. hefur með slíkt samráð að gera, og fyrst og fremst komi ráðh. inn í slík mál þegar sá maður, fulltrúi hans, telur það nauðsynlegt. En um þetta má vitanlega deila og getur sýnst sitt hverjum.

Annað atriði, sem mjög hefur borið á góma í umr. Nd. um þetta mál, er hvort hér séu brotin lög eða samningur á útvegsmönnum. Um það varð samkomulag allra aðila, eins og ég sagði áðan, í janúar, að olíugjald skyldi verða 5% og þá lækkað úr 9% í 5%. Nú er þessu gjaldi breytt þrátt fyrir lög sem samþ. voru samhljóða á Alþingi og gera ráð fyrir að olíugjaldið gildi þannig í eitt ár. Þetta kom að sjálfsögðu strax í hugann þegar breyting á olíugjaldi kom til umr. Ég ræddi það þá við lögfróðustu menn, bæði innan ríkisstj. og utan. Þeir voru allir þeirrar skoðunar, að alls ekki væri hér um nein brot eða nein svik á þeim samningum að ræða, því grundvelli þeirra laga, sem samþ. voru í janúar, hafði verið sagt upp af tveimur af fjórum aðilum sem að þeim grundvelli stóðu, og þar með stendur að sjálfsögðu ekki samkomulagið á milli hinna aðilanna sem eru eftir. Samkomulagið var byggt á samþykki allra aðila í Verðlagsráði sjávarútvegsins og því er brostinn sá grundvöllur sem lögin frá því í janúar standa á, enda má þá varpa fram þeirri spurningu, hvort einn aðili í Verðlagsráðinu gæti notað nánast neitunarvald til þess að einhver breyting yrði gerð á olíugjaldi út allt árið, hvað svo sem gerðist með olíuna almennt þannig að ég held að þetta fái ekki staðist. Ég vil segja það eins og er, að mér var þetta verulegt umhugsunarefni og hef reyndar eftir þessar umr. og það nál., sem kom fram, rætt við fleiri lögfróða menn um þetta og þeir hafa allir tekið í þennan sama streng sem ég hef nú lýst.

En það er annað í sambandi við olíugjaldið sem er vert að menn hugleiði, og það er sú deila sem það hefur valdið á milli sjómanna og útvegsmanna. Olíugjald er greitt ofan á fiskverð og er ákveðið á aflamagn. Það er sem sagt hundraðshluti, má segja, ofan á aflamagn, en alls ekki eftir olíueyðslu, þannig að t. d. skip, sem sigla stutt til veiða og afla vel, fá mikið olíugjald. Og til eru dæmi um það, að togarar, sem nota svartolíu, hafi fengið meira olíugjald en allur olíukostnaður hefur verið í einstökum ferðum. Út af fyrir sig má segja að þarna sé þá um tilfærslu á milli fiskvinnslu og útgerðar að ræða, sem er í mörgum tilfellum á einni og sömu hendi. En þetta hefur engu að síður valdið mjög mikilli tortryggni og er liður í þeirri deilu sem nú er risin á Vestfjörðum, þar sem sjómenn þar leggja á það áherslu sem lið nr. eitt að olíugjaldið verði lækkað. Ég hef ætíð verið efins um olíugjaldið og ég tel að því eigi að breyta. Viðræður fara nú fram um hugsanlega breytingu á olíugjaldinu, þannig að það verði greitt af óskiptu miðað við ákveðið verð olíu og á grundvelli lítrafjölda. Sjómenn hafa verið efnis um slíka breytingu og ekki samþykkt hana, en ýmsar hugmyndir eru nú þar til umr. sem ég tel mikilvægt að haldið verði áfram og reynt að leiða til lykta. Þetta tel ég einnig nauðsynlegt að komi hér fram vegna þeirrar umr. sem varð í Nd.

Jafnframt er rétt að ég nefni, eins og kemur fram í grg. með þessu frv., að menn eru nú bjartsýnni um olíuverð á næstunni en menn voru í janúar. Þá var spáð hækkun, en nú er því spáð að verð haldist svipað og það er. Jafnframt eru komnir til landsins farmar af olíu sem eru ódýrari en þeir sem nú eru seldir. Ég skal ekkert fullyrða um það að olíuverð lækki, en ég get aðeins nefnt það sem fróðir menn hafa sagt, að svo geti sem betur fer farið að einhver lækkun verði þegar þessi olía kemur til sölu. Hins vegar ber þar að sjálfsögðu að taka tillit til innkaupajöfnunarreiknings olíu, sem mun vera neikvæður, hygg ég, eins og nú er ástatt.

Herra forseti. Um þetta mál og reyndar allt sem því tengist mætti flytja langa ræðu, um fiskvinnsluna og sjávarútveginn. Ég hef reynt hér að drepa á meginþætti bæði þeirrar ákvörðunar, sem tekin var, og þau atriði sem að baki liggja, og ég reyndi að nefna einnig þau atriði sem gagnrýnd voru fyrst og fremst í hv. Nd. Báðar sjútvn. þingsins hittust sameiginlega á fundi um þetta mál og það er von mín að það verði til að hraða meðferð þess í gegnum þingið. Ég veit að menn gera sér grein fyrir því, að ekki er unnt að gera upp á milli útgerðar og fiskvinnslu fyrr en þetta er samþykkt. Eins og er í dag má segja að fiskvinnslunni beri að greiða 5% olíugjald. Það eru þau lög, sem eru í gildi, þannig að það er ákaflega æskilegt að svona mál fáist afgreidd sem fyrst. Er það von mín að þessi hv. d. sjái sér fært að gera það.

Að þessum orðum loknum legg ég til að málinu verði að þessari umr. lokinni vísað til 2. umr. og hv. sjútvn.