09.04.1980
Efri deild: 60. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1835 í B-deild Alþingistíðinda. (1680)

135. mál, orkujöfnunargjald

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Það var vikið að því áðan nokkrum orðum, og það gerði síðasti ræðumaður, hv. 4. þm. Vestf., með hverjum hætti þetta mál ber að. Það er vissulega með þeim hætti að þetta mál kemur til kasta Alþingis, að um það er ástæða til að fara sérstaklega nokkrum orðum.

Það er þá í fyrsta lagi til þess að vitna, að í lögunum, sem ranglega hafa verið kennd við hæstv. núv. utanrrh. og nefnd Ólafslög, en fjalla um stjórn efnahagsmála, eru skýr og skilmerkileg ákvæði um hvernig skuli háttað samráði við samtök launafólks, sjómanna, bænda og atvinnurekenda, eins og II. kafli laganna raunarheitir. Segir í 3. gr. laganna, með leyfi forseta:

„Efla skal reglubundið samráð og samstarf stjórnvalda og launafólks, sjómanna, bænda og atvinnurekenda í efnahags- og kjaramálum.“

Og í 4. gr. segir enn fremur, með leyfi forseta: „Þátttakendur í samráði samkv. 3. gr. skulu vera fulltrúar launafólks, sjómanna, bænda og atvinnurekenda og opinberra aðila. Samráðsfundi má halda með fulltrúum einstakra samtaka og fulltrúum ríkisstj. og öllum samráðsaðilum í senn.“

Hér eru skýr og ótvíræð tilmæli um að samráð skuli haft við þessa tilteknu aðila um aðgerðir sem þessar sem hér eru nú á döfinni með lagasetningu. En það er ekki aðeins að um þetta séu skýr lagaákvæði, sem núv. ríkisstj. hefur tvímælalaust brotið og haft að engu, heldur er það ekki í fyrsta skipti sem slíkt gerist.

Þá segir og í svokölluðum stjórnarsáttmála ríkisstj.

Gunnars Thoroddsens, með leyfi forseta, í kaflanum um kjaramál:

„Á undanförnum árum hafa staðið yfir mikil átök um launamál. Ríkisstj. leggur höfuðáherslu á að leysa þau mál með samstarfi og samráði. Skal í því sambandi lögð áhersla á eftirgreind meginatriði.“ — Herra forseti. Ég vildi raunar mælast til þess, ef unnt væri, að einhver af ráðh. ríkisstj. gæti verið viðstaddur og hlustað á þessa umr. (Forseti: Hæstv. fjmrh. gengur í salinn.) Já, það er svo sem hann hafi heyrt þetta, og er það vissulega vel. (Fjmrh.: Ég heyrði það með öðru eyranu.) Er það vissulega til bóta að það skuli a. m. k. einn fulltrúi ríkisstj. hafa nennu til að hlýða á þessar umr., þó nokkuð séu orðnar langar kannske.

En það er ekki aðeins að ákvæði laganna um efnahagsmál um samráð við samtök launafólks hafi verið þverbrotin hér, heldur gengur ríkisstj. líka þvert á eigið plagg, svokallaðan stjórnarsáttmála sem gefinn var út 8. febr. 1980. Þar eru skýr ákvæði um samráð. Nú hefur komið fram í þessum umr., kom fram hjá hv. 4. þm. Vestf. mjög skýrt og skilmerkilega áðan, að ekkert samráð var haft við samtök launafólks um þessa nýju skattlagningu. Og það er ástæða til hér, ég held að ráðh. hæstv. ríkisstj. heyri það aldrei of oft, að ítreka og minna enn á mótmæli BSRB, en þar segir svo, með leyfi forseta:

„Stjórn BSRB mótmælir þeim starfsaðferðum ríkisstj. við undirbúning efnahagsráðstafana að hafa ekki samráð við samtök launafólks um heildarstefnu í þessum málum. Í lögum er gert ráð fyrir samráði við samtök launafólks og slík samráð eru einnig boðuð í stjórnarsáttmála núv. ríkisstj. En engin samráð hafa verið höfð við launþegasamtökin.

Það liggja fyrir umsagnir Alþýðusambands Íslands og BSRB. Ég hefði hins vegar kosið og mun óska þess við meðferð málsins í n. að fengnar verði umsagnir fleiri aðila. T. d. væri ekki ófróðlegt að heyra álit stjórnar Verkamannasambands Íslands á þessu máli. Oft hefur þótt ástæða til að spyrja þá góðu menn álits, og ég held að það sé ekki síður nú en endranær sem ástæða væri til að heyra sjónarmið þeirra.

Af því að ágæt bændastétt á í þessari d. marga góða fulltrúa held ég að það væri ekki heldur fjarri lagi að heyra hvert álit stéttarsamtök bænda hafa á þessu frv. og þessari nýju skattheimtu.

En þó svo að ákvæði laganna um efnahagsmál hafi verið brotin og þó svo að hér sé gengið þvert á það sem stendur í stjórnarsáttmálanum, þá gefur það kannske bara til kynna með hverjum hætti stjórnin lítur á það plagg. Það segir raunar þar á næstu síðu, að stefnt skuli að lækkun útsvars á lægstu tekjum o. s. frv. Þetta er náttúrlega svo sem allir vita. Stjórnin virðist hafa þennan sáttmála sinn að engu og er þá eins gott að fólk viti það og geri sér grein fyrir því.

Um það mál, sem hér er fjallað um, orku jöfnunargjald, eru engar deilur því að draga þarf úr því hróplega misrétti sem ríkt hefur varðandi þann mismun á hitakostnaði sem landsmenn verða að una eftir því hvort þeir kynda hús sín með olíu eða heitu vatni. Um það er ekki deilt. Þann mun á að leiðrétta. Um það hygg ég að allir hv. þm. séu sammála og hæstv. ríkisstj. sjálfsagt líka. Hins vegar er um það deilt, hvernig skuli finna fjármagn til þessara hluta, hvar það skuli taka og hvernig þess skuli aflað. Hitt er hins vegar furðulegt, þegar talað er um mismunandi hitunaraðferðir, að nú skuli svo komið að gjald fyrir hitun húsa á Reykjavíkursvæðinu er svo hlægilega lágt að þeir, sem það greiða, fyrirverða sig fyrir að segja frá. hvað það kostar að kynda húsin, þegar þeir ræða við þá sem verða að una því að kynda hús sín með olíu. Þessu gjaldi er haldið niðri á sama tíma og olíuverð hækkar stöðugt. Gjaldinu er haldið niðri þannig að Hitaveita Reykjavíkur, sem ætti að öllu jöfnu að geta verið öndvegisfyrirtæki rekstrarlega séð, á nú við stórfellda örðugleika að etja, getur fyrirsjáanlega ekki útvegað vatn til nýbygginga á sínu svæði, — sem er miklu stærra en Reykjavík, það er Hafnarfjörður líka. Á sama tíma og olíuverðið þýtur upp úr öllu valdi og þeir, sem kynda hús sín með olíu, eiga stöðugt við meiri erfiðleika að etja er markvisst af hálfu stjórnvalda haldið niðri gjöldum Hitaveitunnar, þannig að misvægið verður enn þá meira og raunar, ef svo heldur sem horfir, verið að eyðileggja rekstrargrundvöll Hitaveitu Reykjavíkur.

Hæstv. fjmrh. minntist áðan á frumkvæði Alþfl. í þessum efnum. Það er rétt að Alþfl. hafði frumkvæði með því að leggja fram hér tillögur um orkuskatt. Það var á ráðh. að heyra að flokkur hans væri hlynntur þessum tillögum, því að hann fór um þær hinum fegurstu orðum sem ég hef heyrt hann viðhafa um nokkuð það sem frá Alþfl. hefur komið fyrr eða síðar, en hins vegar hefðu þeir orðið undir, væntanlega þá við atkvgr. í ríkisstj. Við þessu er auðvitað ekkert að segja. Ég hygg þó að æ fleiri hafi orðið ljóst, þegar hugmyndirnar um orkuskatt eins og við settum þær fram á sínum tíma eru skoðaðar betur, að það mál þarf nokkru meiri athugunar við. Ég er alls ekki að segja með þessu að sú leið, sem þar er bent á, sé ófær. Hún er það ekki. Ég hygg hins vegar að það þurfi að skoða betur hvaða hugsanlegar hliðarverkanir hún geti haft og hvaða áhrif almennt úti í þjóðfélaginu áður en til hennar er gripið. Ég held að grundvallarhugmyndin, sem þar er sett fram, sé rétt, en vera má og ég er á því að það mál þurfi svolítið nánari athugunar við.

Hér er sem sagt um það að ræða að hækka almennan söluskatt. Um 2% átti það að vera fyrst, en stjórnin heyktist á því áformi sínu þegar sýnt var að hér var ekki aðeins um að ræða að afla fjár til að jafna upphitunarkostnaðarmun, heldur var um almenna skattheimtu að ræða að langmestu leyti. Jú, það var fallist á það til málamiðlunar við þá, sem óánægðastir voru í búðum stjórnarliðsins, að lækka þetta um 0.5%. Að vísu munu flestir þeirrar skoðunar, að vel hefði dugað að hafa þetta 1% og hefði samt náð tilgangi sínum, en að vísu gæfi það fjmrh. ekki umframfé til ráðstöfunar. Í þessu frv. segir að þetta gjald skuli renna óskipt til ríkissjóðs, en ekki er eitt orð um það meir, hvernig því skuli ráðstafað. Að vísu boðaði hæstv. ráðh. áðan að einhvern tíma í óvissri framtíð, jafnvel þó næstu daga, væri væntanlegt frv. sem kvæði nánar á um það. En um það er ekkert ljóst þegar verið er að samþykkja frv. Það segir bara að hækka skuli söluskattinn, hækkunin skal kölluð orkujöfnunargjald og gjaldið renna óskipt til ríkisins, — ekkert meira. Og gildistíminn er ótakmarkaður. Það er heldur glæsilegt fyrir hæstv. forsrh., sem í sjónvarpi og útvarpi lofaði þjóðinni því að skattar skyldu ekki hækka. Hann sagði: Ég get að vísu ekki lofað skattalækkun, en skattar verða ekki hækkaðir. — Og hverjar eru svo efndirnar? Númer eitt: Það á að hækka útsvörin. Númer tvö: Það á að hækka tekjuskattinn. Að vísu á að lækka hann á félögum samkv. hinni nýju stefnu Alþb. Númer þrjú: Það á að hækka söluskattinn. Þetta eru efndirnar. Og þetta er að gera ríkisstj. undir forsæti þess manns sem var kosinn á þing undir því kjörorði að afnema alla skatta sem vinstri stjórnin kom á. Þeim er ekki aðeins haldið, heldur hressilega ofan á þá bætt.

Í því fjárlagafrv., sem þáv. fjmrh., Tómas Árnason, lagði fram s. l. haust, var gert ráð fyrir ákveðinni fjárhæð til jöfnunar hitakostnaðar, 2.3 milljörðum kr. Í því fjárlagafrv., sem Sighvatur Björgvinsson lagði fram sem fjmrh., var einnig gert ráð fyrir sömu upphæð. Í því fjárlagafrv., sem hæstv. núv. fjmrh. lagði fram, var ekki gert ráð fyrir þessari upphæð og þeim fjármunum hafði verið ráðstafað til annars. Það er að vísu nú búið að setja ákvæði inn í frv. um þetta en í frv. eins og ráðh. lagði það fram var ekki orði á það minnst.

Við meðferð fjárlaga í þinginu voru af hálfu Alþfl. fluttar tillögur um hvernig mætti leysa þennan vanda, afla 4 milljarða kr. til að jafna hitakostnað, afla nokkurs fjár til félagslegra aðgerða í húsnæðismálum og afla fjár til að lækka tekjuskatt. Þetta vildum við gera m. a. með því að lækka nokkuð framlög til niðurgreiðslna, útflutningsbóta, ýmissa fjárfestingarlánasjóða. Sérstaklega var það einn sjóður sem kannske flokkast ekki alveg undir það, þó menntun sé auðvitað fjárfesting, Lánasjóður ísl. námsmanna. Við lögðum til að framlög til hans yrðu ekki hækkuð nema um 50% í staðinn fyrir 141%. Allir þm. virðast sammála um að það mál sé löngu komið úr böndum og tímabært að athuga það nánar. — Allar þessar tillögur voru felldar. Í staðinn er gripið til nýrrar skattlagningar.

Það var hægt og er hægt að leysa þennan vanda innan ramma fjárlaganna án þess að til nýrrar skattlagningar komi. Málið er bara það, að ríkisstj. skortir til þess vilja.

Hæstv. ráðh. hefur samkv. fjárlögum heimild til að lækka útgjöld ríkissjóðs. Á 6. gr. fjárlaga er honum veitt sérstök heimild til þess. Hann getur, ef hann vill, notfært sér hana og dregið þar með úr útgjöldum ríkisins. Og hann gæti líka þess vegna dregið úr skattheimtu á almenning. En þrátt fyrir allar fyrri yfirlýsingar þessarar hæstv. ríkisstj. er það alls ekki ætlunin. Það er langt frá því.

Herra forseti. Eins og hér hefur fram komið var um það rætt að þetta mál yrði afgreitt héðan úr þessari d. í síðasta lagi á morgun. Að sjálfsögðu verður við það staðið, þó að það virðist koma hæstv. stjórnarliðum raunar svolítið á óvart að stjórnarandstaðan skuli ætla að standa við orð sín. En ég mun, eins og ég sagði áðan, óska eftir því, að þegar þetta mál kemur til meðferðar í n. verði fengnar umsagnir fleiri aðila um efni frv. Ég hygg þó að ef þær umsagnir fáist á þeim tíma, sem nú er til stefnu, muni efni þeirra ekki koma mönnum á óvart, því að ég held að umsagnir manna um það, sem nú er að gerast hjá hæstv. ríkisstj., séu allar á eina lund. Sá meðbyr, sem hún kann að hafa notið fyrstu vikur lífs síns, er nú orðinn mótbyr og það er farið að slá í bakseglin.