09.04.1980
Efri deild: 60. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1842 í B-deild Alþingistíðinda. (1683)

135. mál, orkujöfnunargjald

Lárus Jónsson:

Herra forseti. Ég skal vera stuttorður og ekki fara mjög nákvæmlega út í það mál sem hér er á dagskrá, enda hefur það fengið mikla umfjöllun í hv. Nd. og í tengslum við fjárlagaafgreiðsluna. Ég vil þó gera nokkur atriði að umtalsefni.

Í fyrsta lagi gerði hæstv. ráðh. grein fyrir því, þegar hann hóf framsögu fyrir þessu máli, hversu mikla fjárhæð gjaldið gæfi í ríkissjóð. Nú skal ég ekki draga í efa að hann fari þar með rétt mál. En það vakti athygli mína að hann gerði einungis ráð fyrir því, þegar hann var að tala um það, eins og rétt er, að tekjur af þessu gjaldi, sem legðust á frá 1. des. til áramóta, rynnu ekki í ríkissjóð á þessu ári og menn yrðu að gera sér grein fyrir því. Á hinn bóginn vil ég vekja athygli á því, að að sjálfsögðu leggst þetta gjald á skattborgarana frá 1. des. til áramóta, og það skiptir talsverðu máli í mínum huga að menn geri sér grein fyrir því, hvaða álögur hér er um að ræða.

Það hefur einnig borið á því í sambandi við annað mál, sem hér hefur verið til umr., svokallaða skattstiga, að menn hafa talað mikið um óvissu í afkomu ríkissjóðs. Aftur á móti hefur lítið verið talað um óvissu skattborgaranna, sem vita ekki enn og vita kannske ekki fyrr en miklu síðar á árinu hversu háa tekjuskatta til ríkissjóðs þeir kunni að greiða á þessu ári. Ég held að menn ættu að gera sér grein fyrir því, að ekki er síður óvissa í þessu efni fyrir skattborgarana og ekki síður ástæða til að hafa áhyggjur af því en óvissunni fyrir ríkissjóð, þó ég telji mig bera talsverða umhyggju fyrir þeim ágæta sjóði sem allir vilja fá greitt úr, en enginn vill borga í. (StJ: Það viljum við í Alþb.) Já, það er gott að hv. þm. greiðir glaður skattana sína, eins og sagt var í ágætu blaði á sínum tíma.

Það var annað atriði, sem kom fram í máli hæstv. ráðh., sem ég vil gera nokkrar aths. við. Hann sagði efnislega að þó þetta orkujöfnunargjald gæfi talsvert miklu meira og allt að því tvöfalt meira í tekjur fyrir ríkissjóð en ætlunin væri að greiða niður húshitunarkostnað olíu með, þá væri samt sem áður réttnefni að kalla þetta orkujöfnunargjald vegna þess að framlög ríkissjóðs hefðu stóraukist m. a. til Rafmagnsveitna ríkisins og annarra orkumála. Hér hlýtur að vera um einhvern misskilning að ræða hjá hæstv, ráðh. Í fjárlögum er gert ráð fyrir 1 milljarðs framlagi úr ríkissjóði til Rafmagnsveitna ríkisins, en af þessum milljarði eru 600 millj. kr. lántaka, þannig að af samtímatekjum ríkissjóðs greiðir hann einungis 400 millj. kr. til Rafmagnsveitna ríkisins á þessu ári. (RA: Það er allt óafturkræft framlag.) Já, það er óafturkræft framlag.

Jú, það er nýmæli að ríkissjóður greiði framlag til Rafmagnsveitna ríkisins, það er rétt hjá hæstv. ráðh., en þarna er einungis um 400 millj. kr. að ræða plús lántöku, alls milljarður. Þá vil ég vekja athygli hæstv. ráðh, á því, að á móti þessu vegur að beint framlag ríkissjóðs í Orkusjóð lækkar að raungildi frá því í fyrra um 500 millj. kr. Þessar tölur fæ ég þannig að ég dreg einfaldlega verðjöfnunargjaldið frá því sem ríkissjóður leggur Orkusjóði til, sem er eðlilegt þar sem verðjöfnunargjaldið er sérstakur skattur á skattborgarana, og þá fæst úr því dæmi að beint framlag ríkissjóðs til Orkusjóðs hefur minnkað á milli áranna að raungildi um 500 millj. Eins hefur verið fellt út úr fjárlögum framlag sem var í fyrra og hefur verið í fjárlögum síðan svokölluð olíuprósenta var lögð á. Þar er um að ræða beint framlag úr ríkissjóði til styrkingar dreifikerfa í sveitum sem var í fyrra 220 millj. kr. beint framlag úr ríkissjóði og væri núna, ef raungildi ætti að haldast, 320 millj. kr. Enn fremur er niður fellt beint framlag úr ríkissjóði, sem var hluti af þessari olíuprósentu, til hitaveitulána. Það var 330 millj. kr. í fyrra. Samtals er um að ræða skerðingu á raungildi beinna framlaga úr ríkissjóði um 1300 millj. kr. — Við skulum reikna með því að fullu að Rafmagnsveitur ríkisins fái þá 1 milljarð úr ríkissjóði núna, en þá er með engu móti hægt að réttlæta að orkujöfnunargjaldið sé réttnefni með því að vísa til þess, eins og hæstv. ráðh. sagði, að framlög til Rafmagnsveitna ríkisins úr ríkissjóði hafi stóraukist og þess vegna sé hægt að kalla þetta orkujöfnunargjald og það sé réttnefni þrátt fyrir að ekki nema rétt um helmingur af orkujöfnunargjaldinu renni til niðurgreiðslu á olíu.

Ég held að það þurfi ekkert að deila um að hér er um að ræða almenna fjáröflun til ríkissjóðs öðrum þræði. Og ég get verið hæstv. ráðh. alveg sammála um það, eins og frá fjárlögum hefði verið gengið að öðrum kosti, að ekki er vanþörf á að afla fjár til ríkissjóðs miðað við það sem hugmyndin er að spenna ríkisútgjöldin út. Ekki var vanþörf á að fjárlög væru í betra jafnvægi en í stefndi áður en þetta gjald var lagt á og það tekið inn í fjárlög. En ég er hæstv. ráðh. mjög ósammála um að það sé fær leið — og ég man ekki betur að hann sjálfur minnti á þetta æðioft áður og aðrir Alþb.-menn — að bjarga fjárhag ríkissjóðs sí og æ með nýjum og nýjum sköttum, og alveg sérstaklega ekki þegar svo er ástatt að það er árlegur viðburður að söluskattur sé hækkaður um allverulegar fjárhæðir, eins og t. d. var gert í fyrra, en sú söluskattshækkun gefur ríkissjóði á þessu ári 10 milljarða kr. Svo kemur önnur söluskattshækkun í ár sem gefur aðeins lægri upphæð. Ég spyr hæstv. ráðh.: Hvað ætlar hann að gera á næsta ári ef fjárþörfin vex? Ætlar hann að leggja á nýjan söluskatt á næsta ári til að bjarga ríkissjóði? Ég er ósammála hæstv. ráðh. um að þetta sé fær leið. Fara verður aðrar leiðir að því að finna svigrúm til nýrra útgjalda eða aukinna útgjalda ríkissjóðs, sem alltaf eru til og verða í þjóðfélagi sem er í mótun og framför. Það verður að finna aðrar leiðir en auka sífellt og þyngja skatta á öllum sviðum.

Ég er búinn að tala mikið og lengi um skatta hæstv. núv. ríkisstj. og fyrrv. á þessu þingi og skal nú láta því lokið að sinni.

Þá er það eitt atriði frv., sem ég vil gera að umtalsefni, og það er hvaða áhrif það hefur á verðbólgu í landinu. Nýleg athugun Hagstofu og Þjóðhagsstofnunar á því, hvað framfærslukostnaður muni aukast 3 mánuði, frá febr. til maí, bendir til þess að almennar hækkanir á framfærsluvísitölu verði um 11.8% eða við getum sagt 12%. En þessi skattlagning hækkar vísitöluna um 0.7% og inn í þessa tölu, sem ég nefndi áðan, er ekki komin gjaldskrárhækkun hjá fyrirtækjum eins og Hitaveitu, Rafmagnsveitu og Strætisvögnum Reykjavíkur. Gera má ráð fyrir að hækkun framfærsluvísitölu á þessu tímabili, frá febr. til maí, verði a. m. k. 13–14% í samanburði við það sem hún var síðustu 3 mánuði á undan, sem var 9.1%. Það má kannske segja að þessi 0.7% séu ekki stór keppur í sláturtíðinni, en það sýnir hvaða áhrif ráðstafanir sem þessar hafa og hvert hæstv. ríkisstj. stefnir á þessum sviðum. Ég fullyrði að þrátt fyrir hina nýju skattlagningu standi ríkissjóður það tæpt að gera megi ráð fyrir að ríkisfjármálin á þessu ári verki svipað á verðbólguna og áður, það verði sama seðlaprentunin og áður. Lánsfjáráætlun stefnir í glórulausa vitleysu í lántökum, sérstaklega erlendum lántökum. Það liggur þegar fyrir að ríkissjóður sjálfur ætlar að fjórfalda erlendar lántökur á þessu ári. Þessu til viðbótar bólar ekkert á því, að sparifjáreigendur geti átt von á að sparifé þeirra brenni ekki upp í verðbólgunni. Sparnaður mun því sennilega ekki vaxa mikið á næstunni. En allt eru þetta grundvallaratriði í því að ráð niðurlögum verðbólgunnar. Þetta frv. er sem sagt einn þátturinn í þeirri endileysu, sem ég hef kallað stefnu núv. hæstv. ríkisstj. í verðbólgumálum. Satt að segja finnst mér að þegar menn reiða sig á það í öðru orðinu, að með stjórnvaldsákvörðunum eða lagaboði sé hægt að telja niður kaupgjald og verðlag í landinu, sé um nánast hlægilega stefnu að ræða.

Ég geri ráð fyrir að það hafi ekki mikið upp á sig að benda hæstv. ríkisstj. á þetta. Ég tel engu síður skyldu mína að minna á að menn eru að fara út í fyrirsjáanlega ófæru og að stefna ríkisstj. í verðlagsmálum og efnahagsmálum er í rauninni sprungin. Þetta frv., sem hér er til umr., er aðeins einn liðurinn í því að kollvarpa þeirri stefnu í verðlagsmálum þegar á fyrstu starfsvikum núv. hæstv. ríkisstj.