10.04.1980
Efri deild: 62. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1845 í B-deild Alþingistíðinda. (1686)

136. mál, olíugjald til fiskiskipa

Frsm. meiri hl. (Guðmundur Bjarnason):

Herra forseti. Sjútvn. Ed. hefur fjallað um frv. til l. um breyt. á lögum nr. 3 frá 1. febr. 1980, um tímabundið olíugjald til fiskiskipa. Sem kunnugt er er frv. þetta flutt til að greiða fyrir ákvörðun fiskverðs frá 1. mars 1980 og felur í sér lækkun olíugjalds til fiskiskipa utan skipta úr 5% í 2.5%. Í frétt frá Verðlagsráði sjávarútvegsins, þar sem greint er frá ákvörðun nýs fiskverðs, segir svo, með leyfi forseta:

„Það er forsenda þessarar ákvörðunar að lögunum nr. 3/1980 um tímabundið olíugjald til fiskiskipa verði breytt þannig að olíugjaldið lækki úr 5% í 2.5% af skiptaverði frá og með 1. mars 1980. Ríkisstj. hefur lýst því yfir að frv. þess efnis verði lagt fram á Alþingi.

Þegar tillit hefur verið tekið til þessarar væntanlegu lagabreytingar má lýsa niðurstöðu fiskverðsmálsins að þessu sinni í meginatriðum á eftirfarandi hátt:

1) Skiptaverð til sjómanna hækkar um 4%.

2) Hlutur útgerðar í fiskverði hækkar um 0.6%.

3) Hráefniskostnaður fiskvinnslunnar hækkar um 1.7%.“

Eins og ég gat um í upphafi hefur n. athugað frv. og átt sameiginlegan fund með sjútvn. Nd. þar sem mættir voru Jón Sigurðsson forstjóri Þjóðhagsstofnunar og Ingólfur Ingólfsson fulltrúi sjómanna í Verðlagsráði sjávarútvegsins. Nefndin varð ekki sammála í afstöðu sinni til málsins og klofnaði, en undirritaðir nm. leggja til að frv. verði samþ. eins og það liggur fyrir á þskj. 254. Undir þetta rita: Stefán Guðmundsson, Geir Gunnarsson, Guðmundur Bjarnason og Eiður Guðnason með fyrirvara.