10.04.1980
Efri deild: 62. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1845 í B-deild Alþingistíðinda. (1687)

136. mál, olíugjald til fiskiskipa

Frsm. minni hl. (Guðmundur Karlsson):

Herra forseti. Eins og fram kom í máli hv. 5. þm. Norðurl. e. klofnaði sjútvn. í áliti sínu um mál þetta. Treystir minni hl. n. sér ekki, miðað við þær aðstæður sem nú eru í íslenskum sjávarútvegi, til að standa að samþykkt þessa frv. og leggur til að það verði fellt.

Eins og fram hefur komið eru mjög miklir erfiðleikar í íslenskum sjávarútvegi. Bæði fulltrúi sjómanna og reyndar annar fulltrúi fiskkaupenda í yfirnefnd Verðlagsráðsins sátu hjá við þessa afgreiðstu yfirnefndarinnar, fyrst og fremst vegna þess að með þeirri fiskverðsákvörðun, sem nú er tekin, og þeim ráðstöfunum, sem gerðar hafa verið, hefur hvorki vandi fiskveiða né vinnslu verið leystur. Fiskvinnslan átti í mjög miklum erfiðleikum og hefur átt í misjafnlega miklum erfiðleikum á undanförnum árum og sannarlega er hlutur hennar ekki betri nú en áður var. En það má segja að nú sé sú breyting orðin á, að erfiðleikarnir eru um land allt í stað þess að áður fyrr voru þeir staðbundnir og bundnir fremur við Suður- og Vesturland. Nú er orðið jafnerfitt að gera út hvar sem er á landinu.

Það kom fram í máli sjútvrh. í gær að framlegð í fiskvinnslu þyrfti að vera um 20%. Ég held að miðað við þær breytingar, sem nú eru orðnar í vaxtamálum, megi framlegð alls ekki vera minni en 22–23% í fiskvinnslunni. Þessar ráðstafanir, sem reyndar var lofað að gerðar yrðu, eru hvergi nærri nógar. Ég tel að miðað við þær aðstæður, sem nú eru, hefði verið full ástæða til, enda gátu útgerðarmenn vænst þess, að olíugjaldið héldist út þetta ár. Það var ástæða til að hvetja fremur útgerðina en letja og þess vegna hefði olíugjald átt að vera óbreytt.

Minni hl. n. leggur til að frv. verði fellt.