20.12.1979
Neðri deild: 9. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 128 í B-deild Alþingistíðinda. (170)

32. mál, eftirlaun til aldraðra

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Ég vil gera örstutta grein fyrir ástæðunni til þess, að ég dreg til baka brtt. mína sem var lögð fram í dag við frv. um eftirlaun til aldraðra.

Það var ljóst í heilbr.- og trn. Nd. að öflug andstaða var gegn álögum þeim á Atvinnuleysistryggingasjóð sem upphaflega frv. gerði ráð fyrir. Þegar till. mín kom fram lýstu hv. þm. Sjálfstfl. sig samþykka henni. Nú hefur hins vegar verið lagt fram ákvæði til bráðabirgða sem efnislega er í samræmi við till. mína, svo að við Alþb.-menn munum styðja frv. eins og það nú liggur fyrir með hinu nýja ákvæði til bráðabirgða. Þetta ákvæði léttir umræddum álögum af Atvinnuleysistryggingasjóði og gengur raunar lengra. Það gefur fyrirheit um að atvinnuleysisbætur í fæðingarorlofi fari nú loksins út úr Atvinnuleysistryggingasjóði. Við getum því vel við þetta unað.

Ég þakka fyrir það tillit sem tekið hefur verið til skoðana okkar.