10.04.1980
Neðri deild: 59. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1849 í B-deild Alþingistíðinda. (1701)

109. mál, tollskrá

Frsm. (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Það mál, sem hér er til umr., er frv. til L, 109. mál, sem flutt var af þeim hv. þm. Alexander Stefánssyni og Þórarni Sigurjónssyni. Menn komu að máli við okkur nm. skömmu fyrir páska og létu í ljós miklar áhyggjur yfir að frv. hafði ekki náð fram að ganga, en ekki hefur verið hægt að afgreiða mál öryrkja að undanförnu vegna þess að beðið hefur verið eftir því, hvort þarna yrði um hækkun að ræða. Þetta mál var svo afgreitt úr n. skömmu fyrir páska til að reyna að greiða fyrir því að það mætti ná fram að ganga þá.

Satt að segja hafði n. ekki mikinn tíma til að athuga þetta mál að öðru leyti en því, sem fram kemur í frv., að hækka beri þessar upphæðir. Önnur skoðun á lögum um þessi mál fór ekki fram í n., þótt ég geri mér grein fyrir því, að það hefði verið full ástæða til þess. Það var sem sagt fyrst og fremst vilji n. að greiða fyrir því, að þessi hækkun næði sem fyrst fram að ganga þannig að hægt væri að afgreiða málefni öryrkja. Að vísu lá fyrir brtt. á þskj. 182 frá hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur og Árna Gunnarssyni um að heimild væri til að hækka þessar upphæðir með tilliti til verðlagsþróunar á hverjum tíma. Ég geri mér fulla grein fyrir að nauðsynlegt er að þessar upphæðir fylgi verðlagsþróun. En það er út af fyrir sig spurning sem menn verða að svara: Er ástæða til að setja slík sjálfvirk ákvæði í miklum mæli inn í okkar löggjöf? Ég held að mjög orki tvímælis að allar ákvarðanir séu meira og minna bundnar verðlagi. Hitt er svo annað mál, að slíkt verður að gera í tilfellum sem þessum. En það er einnig hægt að gera með breytingum með nokkru millibili, jafnvel þótt menn séu sammála um að þessar upphæðir skuli hækka. N. sem slík gerir því ekki tillögu um að slík breyting verði á. Ég vísa þá til þess, að n. fór ekki í að athuga þessa löggjöf að öðru leyti.

Ég sé að það er einnig komin brtt. frá hv. þm. Guðrúnu Helgadóttur um að ekki megi selja bifreiðar fyrr en að fjórum árum liðnum frá kaupdegi og í öðrum tilfellum að þremur árum liðnum frá kaupdegi. Þetta eru atriði sem n. hefur ekki fjallað um. Ef menn vildu gera slíkar breytingar og ýmsar aðrar á þessari löggjöf við þá umfjöllun, sem nú fer fram, sé ég ekki annað en að n. þurfi að taka málið fyrir að nýju milli 2. og 3. umr. Ég er a. m. k. ekki tilbúinn til að tjá mig um brtt. hv. þm. Guðrúnar Helgadóttur fyrr en við höfum fengið tækifæri til að athuga hana. Það er sjálfsagt ýmislegt fleira sem þyrfti að breyta í þessari löggjöf.

Að öðru leyti sé ég ekki ástæðu til að fjalla um þetta mál hér. N. mælir sem sagt með því að frv. verði samþ. Hv. þm. Karvel Pálmason undirritar nál. með fyrirvara, en fjarverandi afgreiðslu málsins voru þeir hv. þm. Matthías Á. Mathiesen, Sverrir Hermannsson og Guðmundur J. Guðmundsson.