10.04.1980
Neðri deild: 59. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1850 í B-deild Alþingistíðinda. (1702)

109. mál, tollskrá

Guðrún Helgadóttir:

Forseti. Mér er ljóst að brtt. mín er kannske óþægilega seint fram komin, en þingstörf hafa verið með þeim hætti að það hefur verið erfitt að gefa sér tíma til að kanna slíkt mál.

Brtt. þarf ekki langa skýringu. Hér er einungis um það að ræða að festa í lög það ákvæði, sem verið hefur, að þessa bíla megi ekki selja fyrr en að liðnum ákveðnum tíma. Það hefur verið ákvörðun ráðh. hverju sinni. Það hafa verið reglur í rn. um langt skeið — mér er óhætt að segja um árabil — að ekki megi selja bifreiðarnar fyrr en að fjórum eða fimm árum liðnum, þ. e. bifreiðar þeirra, sem lægri greiðsluna fá, eftir fimm ár, en hinna, sem hafa fengið hærri niðurfellinguna, eftir fjögur ár. Hér er því einungis um að ræða að sá tími styttist hjá báðum hópunum um eitt ár.

Þegar þetta frv. kom fram tók ég til máls og beindi þeirri áskorun til ráðh. að breyta tímatakmörkunum í þessa veru. Ég er ekki þar með að segja að hann hefði ekki gert það, en ég held að tryggara sé að þetta sé hreinlega bundið í lögunum sjálfum.

Ég held að það þurfi varla skýringu af hverju farið er fram á að þessi tími styttist. Það er auðvitað ljóst að fyrir mjög fattaðan mann er erfitt að reka fimma ára gamlan bíl. Þetta er gamalt baráttumál öryrkja. Bæði hafa bílarnir komist í mjög lítið verð, þegar þeir loksins geta selt þá,— og eins hafa bílarnir verið farnir að bila mjög mikið áður en þeir gátu skipt um. Ég held þess vegna að þetta sé mál sem allir geti verið sammála um. Hv. þingheimur hefur þegar í umr. í vetur lýst áhuga sínum á að leysa mál öryrkja á myndarlegan hátt og hér er einungis um að ræða að sýna lít á því.

Þegar ég var að kanna hvernig ég ætti að orða brtt. tók ég eftir einu sem ég vil leyfa mér að vekja á athygli hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur. Mér sýnist að brtt. hennar, sem ég vil endilega styðja, miðist einungis við 2. mgr. 1. gr. Ég fæ ekki séð af hverju hún ætti ekki að miðast við 3. mgr. líka. Þetta er kannske ritstjórnaratriði sem væri hægt að laga, en mig langar til að biðja hv. þm. að athuga hvort hugsun hennar sé ekki að báðir flokkarnir fylgi verðlagsþróun. Skrifstofustjóri hv. Alþingis taldi að þetta mál væri kannske hægt að laga ritstjórnarlega, en ég held að það væri öruggara jafnvel að breyta þessu hér. Ég vil hins vegar leggja á það mikla áherslu, að hv. þdm styðji brtt. hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur. Ég held að með því að hækkun á þessum greiðslum sé ævinlega háð ákvörðunum ráðh. sé á engan hátt tryggt að hagsmunum öryrkja sé borgið í þessum efnum. Ég fæ ekki séð að það væri neitt óeðlilegt að binda þetta jafnframt í lagagreinina.

Ég vil að lokum leggja á það áherslu að þessi dráttur á málinu í hv. þingi hefur valdið öryrkjum miklum vanda. Síðasta úthlutun á bifreiðum fór fram um miðjan febr. Bílasölurnar eru komnar með þessa bíla, en þeir hafa ekki verið afgreiddir vegna þess að beðið er eftir afgreiðslu hv. Alþingis. Ég vil þess vegna fara þess á leit að afgreiðslu þessa máls verði hraðað sem mest má vera. Margir öryrkjar bíða eftir að málið nái fram að ganga.

Að lokum skora ég á hv. þdm. að veita liðsinni brtt. minni.