10.04.1980
Neðri deild: 59. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1854 í B-deild Alþingistíðinda. (1707)

109. mál, tollskrá

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Það eru örfá orð út af því sem hefur komið fram.

Ég sé enga ástæðu til að draga brtt. alfarið til baka á þessu stigi málsins; eins og var farið fram á af hv. þm. Alexander Stefánssyni, 1. flm. frv. Ég get ekki ímyndað mér að öryrkjar eða samtök þeirra hafi á móti því, að það, sem þarna er á ferðinni, fylgi verðlagsþróun í landinu og ekki þurfi að leita umsagna um slíkt. Ég tel augljóst að slíkt hlýtur að vera vilji þessara aðila. Um hitt má kannske frekar deila, hvort eitthvað í kerfinu eða af opinberri hálfu er andstætt þessu. Þá standa menn frammi fyrir því, hvort þeir vilja taka tillít til þeirra sjónarmiða eða ekki. Ég er einn af þeim sem vilja láta taka meira tillit til óska þeirra einstaklinga og samtaka sem þarna eiga hlut að máli í stað þess að láta einhverja úr kerfinu stilla sér upp við vegg og segja að þetta sé ekki hægt. Spurningin er bara um það: Ætla menn enn einu sinni, í ekki stærra máli en þessu, að láta kerfið koma í veg fyrir að þessi sjálfsagða breyting nái fram að ganga? Ég vænti þess að 1. flm. þessa frv. gangi ekki í fylkingarbrjósti fyrir því að kerfiskarlarnir stöðvi þessa eðlilegu breytingu.