10.04.1980
Neðri deild: 59. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1857 í B-deild Alþingistíðinda. (1711)

94. mál, sjómannalög

Magnús H. Magnússon:

Herra forseti. Ég lýsi ánægju minni með að þetta frv. er nú tekið til afgreiðslu í þessari hv. d. Hæstv. samgrh. sagði að það væri sjónarmið margra að eðlilegra væri að taka þessi atriði upp í frjálsum kjarasamningum sjómanna og útgerðarmanna. Það má vel vera. En staðreyndin er engu að síður sú, að réttur sjómanna og þá einkum undirmanna á farskipum og þó alveg sérstaklega undirmanna á fiskiskipum er í dag skammarlega lítill, svo að það nálgast þjóðarskömm, ekki síst þegar tekið er tillit til mikilvægis starfsins og þess, hve slysahætta við þessi störf er mikil, eins og reynslan sýnir. Ég endurtek það og undirstrika að hér er um lágmarksákvæði að ræða. Enginn bannar mönnum að semja um betri kjör.

Hæstv. ráðh. kom inn á gagnrýni sem gengur út á það, að ekki sé reiknað með að mönnum sé tryggt kaup í hefðbundnum hléum milli veiðitímabila. Það er rétt, að þetta er eitt af þeim atriðum sem mikið var deilt um. Útvegsmenn eða fulltrúar þeirra sögðu að ef þetta yrði ekki haft svona mundu þeir einfaldlega ekki ráða menn nema yfir hvert veiðitímabil fyrir sig, þannig að réttur sjómanna í reynd mundi ekki aukast við það þótt þessi klásúla væri höfð á einhvern annan hátt.

Varðandi greiðslur í launalausum fríum, þá er reiknað með því í frv. að sjómaður, sem er á togara t. d. þar sem launalaust frí er fjórða hvern túr, er hann veikist á miðju þessu tímabili, fái ekki sjálfkrafa kaup strax þennan sama dag, heldur frá þeim degi sem hann ætti að byrja að vinna aftur. Það er ekki beinlínis ætlast til að menn græði fjárhagslega á veikindum, heldur að þeir verði ekki fyrir tapi. Maður, sem slasast í launalausu fríi, fengi annars meiri greiðslur en ef hann slasaðist ekki. Ef einhver sérstök atvik koma upp á, þá eru sjúkrasjóðir þessara félaga sterkir og gætu þeir gripið inn í ef sérstaklega stæði á. Um leið og maðurinn á að byrja að vinna aftur fær hann sín fullu réttindi. Enn fremur er gert ráð fyrir að maður, sem veikist áður en hann fer í launalaust frí, haldi fullu kaupi þannig að þá verði ekki um neinn frádrátt að ræða.

Eins og kom fram hjá hæstv. samgrh. var þetta frv. rætt mjög mikið og ítarlega við alla aðila. Þess var freistað að ná þeirri samstöðu sem gerði það að verkum eða a. m. k. gæfi vonir um að frv. fengi skjóta afgreiðstu hér á hinu háa Alþingi. Auðvitað eru mörg atriði sem eru álitamál í þessu frv. Mér finnst sjálfsagt, eins og kom fram hjá hæstv. samgrh., að þær till. verði allar athugaðar í samgn. þessarar hv. d. Ef menn geta komist að samkomulagi um einhvern annan hátt í einstökum atriðum, þá er það út af fyrir sig gott. Ég er sammála hæstv. ráðh. um það, að þessi aðferð er ábyggilega fljótvirkust, og er því henni algerlega samþykkur.