10.04.1980
Neðri deild: 59. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1860 í B-deild Alþingistíðinda. (1715)

94. mál, sjómannalög

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Það var raunar það sama og hv. síðasti ræðumaður var að skýra fyrir fyrirspyrjanda, hv. 8. landsk., sem ég vildi koma hér að. Það er alveg hárrétt hjá honum, að þessi mismunur er fyrir í samningum. Til viðbótar get ég upplýst þennan hv. þm. um það, að þeir, sem hafa farið með samningamál fyrir undirmannafélögin, hafa á seinni árum ekki litið hærra en svo, að þeir hafa gert kröfur um það, að ef þeir, sem samið er fyrir, misstu líf sitt af slysförum í starfi, þá yrðu sömu tryggingabætur fyrir þá sem eftir lifðu, hvort sem það væru undirmenn eða yfirmenn sem látist hafa. En þeir hafa ekki haldið fast við þá kröfu að slík jöfnun væri í lifanda lífi.