14.04.1980
Sameinað þing: 43. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1863 í B-deild Alþingistíðinda. (1729)

70. mál, aukin nýting í fiskvinnslu

Flm. (Stefán Guðmundsson):

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að hafa langt mál um þessa till. Ég gerði það á sínum tíma þegar hún var hér lögð fram. Sannarlega er nú búið, ef við gætum talað á sjómannamáli, að kútta þessari umr. svo rækilega niður að menn geta nánast varla fylgst með því sem farið hefur fram og er það miður þegar svo er um slík mál.

Ég vildi þó aðeins segja hér nokkur orð til viðbótar í þessu máli. Allt fram á síðasta áratug voru um og yfir 90% af verðmæti vöruútflutnings okkar sjávarafurðir. Árið 1979 mun það hafa verið um 74–75%. Tugir þúsunda vinna árið um kring í fiskiðnaðinum og mörg byggðarlög og heilir landshlutar eiga nánast allt undir því að hér takist vel til í þessari atvinnugrein, en því miður er allt of víða baslað enn með hjólbörurnar í stað færibanda, goggum og stingum er beitt án tillits til skemmda á verðmætum, og miklum verðmætum er hreinlega hent. Allt of víða er gengið þannig um þessa lífsbjörg okkar allra að þar gæti engan grunað að um matvæli væri að ræða.

Hv. þm. Tryggvi Gunnarsson sagði í ræðu sinni um þessi mál: Hvernig við förum að þessu öllu er ekkert smámál. Fiskurinn er oft ákaflega lélegur þegar hann kemur að landi. — Ég vildi segja í þessu sambandi að ég er Tryggva ekki alveg sammála. Fiskurinn er að vísu misgóður þegar hann kemur að landi, en staðreyndin í málinu er að um byltingu hefur verið að ræða í meðferð á fiski um borð í veiðiskipunum sjálfum. Skoðun mín er aftur á móti sú, að fyrst og fremst sé um að ræða að hráefnið skemmist eftir að það er komið frá borði veiðiskips.

Kassavæðingin breytti hér verulega um til bóta, og furðulegt má það vera, að alls engar tilraunir hafa farið fram um það, hvort við raunverulega notum hentugustu gerð af fiskkössum sem kostur er á. Hér hefur skort skilning á mikilvægi þess að þessi úttekt fari fram.

Við sáum í sjónvarpi ekki alls fyrir löngu þegar var verið að losa fiskiskip sem landaði lausum fiski. Þar var umgengnin við móttöku slík að undrun sætir hvernig með gott hráefni er farið og að það skuli óátalið látið.

Ég minntist líka á það í sambandi við stingina, að það er hrein undantekning ef þeir eru notaðir um borð í togurum nú. Slíku er búið að henda fyrir löngu og er það vel.

Ég sagði það í framsöguræðu minni, að ég ætlaði ekki hér og nú að deila um hvaða prósentu við ætlum að gefa okkur í aukinni nýtingu. Það, sem skiptir máli og er augljóst, er að verulega miklum árangri má ná með bættri meðferð á hráefninu fyrir utan þau gífurlegu verðmæti sem ekki er komið með að landi.

Á síðasta fundi í Framkvæmdastofnun ríkisins var tillaga borin fram sem fellur vissulega að þessu efni og ég vona að geti hjálpað hér til, en hún er þannig, með leyfi forseta:

„Stjórn Framkvæmdastofnunar ríkisins samþykkir að fara þess á leit við hæstv. ríkisstj., að hún hafi forgöngu um að komið verði á fót nefnd sem skipuleggi sókn til framleiðniaukningar í fiskiðnaði.“

Þessi tillaga fellur svo til nákvæmlega að því sem fyrir okkur flm. vakir. Við ætlumst til þess að ríkisstj. geri þetta, og því fagna ég því að þessi tillaga er þarna komin fram.

Í grg. segir:

„Það er skoðun stjórnar Framkvæmdastofnunar ríkisins, að Byggðasjóður eigi nú að beina fjármagni sínu meira til þess sem verða má til framleiðniaukningar í fiskiðnaði. Það sýnir sig að mjög mikill munur er á afkomu iðjuvera, sem að öðru jöfnu ættu að skila svipaðri afkomu. Ástæðunnar til þess virðist einkum vera að leita í vanköntum á stjórnun, t. a. m. allri meðferð og nýtingu hráefnis og skorti á tækniþekkingu við starfrækslu vélbúnaðar.“

Ég tek undir þetta og fagna samþykkt Framkvæmdastofnunar ríkisins. Með þessari samþykkt Framkvæmdastofnunar ríkisins undirstrikar hún þörfina og telur sig reiðubúna til aðstoðar í þessum málum.

Ég vildi aðeins segja hér, og segi ég ykkur þar sjálfsagt ekkert sem þið vissuð ekki áður, en þó efast ég um að menn geri sér almennt grein fyrir því, hvernig við Íslendingar stöndum í dag í þessum efnum. Ég las merkilega grein eftir mann sem er búinn að vinna í áraraðir við móttöku og vinnslu á lifur. Hann segir þar, að það séu miklir markaðir fyrir okkur í Tékkóslóvakíu, Hollandi, Frakklandi og Þýskalandi, og m. a. sé ein ástæðan fyrir því, hve vel við stöndum í þessum ríkjum með sölu á lifur, sú að lifur frá mörgum þjóðum sé svo menguð að hún sé ekki samkeppnisfær við það sem við Íslendingar erum að bjóða. Það er því mikils virði að ganga hér manneskjulega um og eiga hreint og ómengað haf.

Ég vil einnig taka undir það, sem kom fram í ræðu Skúla Alexanderssonar um þessa þáltill. okkar, að mikils virði er að búa þannig að starfsfólki þessarar atvinnugreinar að hún geti vænst þess að hafa gott starfsfólk. Það er ekki um of brýnt fyrir aðilum þessarar atvinnugreinar, þó að á mörgum stöðum hafi verið myndarlega að staðið og til tekist.

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta. Ég fagna, eins og ég sagði, þeim umr., sem orðið hafa um till., og vonast til þess að ríkisstj. taki myndarlega á þessu máli. Ég er sannfærður um að í vannýtingu þess sjávarfangs, sem veiðist, liggur sá sjóður sem þarf til að standa undir auknum rekstrarkostnaði fyrirtækjanna. Í þeirri trú að svo sé er þessi till. til þál. flutt. Ég vil þakka þær jákvæðu umr., sem orðið hafa um þetta mál, og vona, að þær verði til að hvetja stjórnvöld til aukinna aðgerða.