14.04.1980
Sameinað þing: 43. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1873 í B-deild Alþingistíðinda. (1735)

108. mál, ávöxtun skyldusparnaðar

Vilmundur Gylfason:

Herra forseti. Við raunvaxtamenn hljótum auðvitað að fagna þeim liðsauka sem okkur hefur bæst í dag — þeim fimm hv. þm. sem eru flm. að þessari þáltill. Ég vil segja það strax, að ég er stuðningsmaður þessarar till., en undirstrika þó þá fyrirvara sem fram komu í máli hv. 5. þm. Suðurl., Magnúsar H. Magnússonar, áðan. Og ég er honum sammála um það einnig, að manni dettur óneitanlega í hug að hér sé um sjónarspil að ræða, líka vegna þess að frumvarpssmíð og frv. er óneitanlega sterkari pappír en þáltill. — er ekki ýkjamikill vandi í þessum efnum. Jafnfær þm. og hv. 12. þm. Reykv. vissulega er, einkum í slíkum efnum, á auðvitað ekki að þurfa að beygja sig fyrir sérfræðingavaldi og biðja sérfræðinga um að semja slíkt frv. fyrir sig. Það er það sem þáltill. gengur út á, en slíkt er hann fullfær um á eigin spýtur. — Þegar við óbreyttir þm. Alþfl. fluttum raunvaxtastefnuna inn á Alþ., gerðum við það vitaskuld ekki með þáltill., ekki með því að skora á ríkisstj. að taka hana upp. Slíkt væru dauðir pappírar. Það, sem við auðvitað gerðum, var að bera stefnuna fram í formi frv. Sú stefna sigraði hér á 6–7 mánuðum og fór inn í þau lög sem gjarnan hafa síðan verið uppnefnd og kölluð Ólafslög.

En það má hafa um þetta fleiri orð. Ég vil þó undirstrika það sem fram kom hjá hv. 5. þm. Suðurl., Magnúsi H. Magnússyni, að þessi stefna er til í formi frv. og liggur fyrir þinginu, þ. e. í formi frv, um Húsnæðismálastofnun ríkisins.

Það, sem mestu máli skiptir í verðtryggingarmálum, er að raunvaxtastefnan sem slík nái fram að ganga. Hún gerði það í lögum nr. 13 frá árinu 1979, en sem kunnugt er hefur ríkisstj. heykst á því að framkvæma slíka stefnu. Hins vegar er ég út af fyrir sig nákvæmlega sammála flm. þessarar þáltill. um að það geti verið réttlætanlegt að taka einstaka þætti út úr og verðtryggja þá sérstaklega með sérstökum lögum, m. a. vegna þess að ríkisstj. eru misgóðar eða misvondar eins og við vitum. Það getur alltaf komið ríkisstj. sem við vitum að heykist á raunverulegri ávöxtun sparifjár eða framkvæmd raunverulegrar raunvaxtastefnu. Þá er rétt að hafa eins konar öryggislög. Slík lög verða t. d. að vera til að því er varðar verðtryggingu dómkrafna. Ég vil greina Sþ. frá því, að fyrir u. þ. b. viku eða svo var hæstv. dómsmrh. afhent fullbúið mjög ítarlegt frv. um verðtryggingu dómkrafna og hann gæti þess vegna lagt það frv. fram með engum fyrirvara. Ég vek á því athygli í þessu samhengi vegna þess að þar er eðlislægt alveg um sama málið að ræða: fullkomna verðtryggingu skyldusparnaðar ungs fólks.

Það er alveg ljóst að skyldusparendur hafa verið beittir óþolandi rangindum á undanförnum árum. Það er auðvitað siðlítið eða siðlaust með öllu að með einum lögum megi skylda fólk eða neyða til að leggja eigið fé til hliðar, en haga annarri lagasetningu svo, — þá á ég við lagasetningu í vaxtamálum, — að fólk fái ekki greitt til baka nema brot af því sem það er skyldað til að leggja til hliðar. Auðvitað sér hver maður að þetta er enn ein ranghverfan á verðbólgunni, sem við eyðum sennilega 2/3 af tíma okkar í að reyna að verjast með einum eða öðrum hætti. Þessi till. til þál. er táknræn varnarumræða gegn verðbólgunni.

Ég vona að málið sé ekki flutt í þessu formi, þ. e. í þál.-formi, vegna þess að flm. viti að auðvitað komi ekkert út úr því. Þó ég hafi ekki langa þingreynslu, eða frá miðju ári 1978, fullyrði ég við hv. flm., að það er alveg steindautt form sem þeir hér leggja til. Það hefur mikil umræða farið fram um ávöxtun skyldusparnaðar í fjölmiðlum og annars staðar. Það er til útfærsla í lagafrv., eins og hv. þm. Magnús Magnússon greindi frá áðan. Að koma núna með þetta mál í formi þál. er því miður heldur óvænleg leið. Ég geri ráð fyrir að hér valdi lítil þingreynsla hv. 1. flm. Ég viðurkenni sjálfur að ég hélt, þegar ég kom hér fyrst inn, að þessi mál gengju öðruvísi fyrir sig, en reynslan, þó ekki sé hún löng, hefur kennt mér að þáltill. er steindautt form. Því er nú verr og miður.

Það gengur á ýmsu að því er varðar vaxtastefnuna í landinu. Hún er þó sjálfur grundvöllur þessa. Það vitum við auðvitað öll mætavel. Við vitum líka að ríkisstj. eru misjafnar og að svo getur vel farið að hér verði rekin mjög neikvæð vaxtastefna á næstu árum. Þess vegna er réttlætanlegt að taka einstök réttlætismál út úr og hafa um þau eins konar baklög eða varalög til þess að tryggja hagsmuni þeirra sem hlut eiga að máli.

Ég held að það sé samt í þessu sambandi og þessu samhengi rétt að vekja athygli á því, hvernig Bandaríkjamenn fara að við svipaðar kringumstæður og hvernig þeirra efnahagskerfi vinnur. Þeir hafa nú staðið um nokkurra mánaða skeið frammi fyrir 18% verðbólgu eða mestu verðbólgu í sögu sinni. Þar hvarflar ekki að neinum manni eitt augnablik að reka lánakerfi með neikvæðum ávöxtunarkjörum, heldur eru vextir þegar í stað, forvextir hjá lykilbönkum, settir upp í 18,5%, enda sér auðvitað hvert barn að efnahagskerfi gengur ekki öðruvísi en að lántakendur borgi lán til baka og sparendur séu tryggðir. Þess vegna finnst mér, þó að ég viti auðvitað um góðan hug — og vil satt að segja biðja afsökunar á því ef orð mín hafa gefið annað í skyn — þeirra sem þessa till. til þál. flytja, að kannske vanti helst á hinn almenna skilning á réttmæti raunvaxtastefnunnar, á réttmæti þeirrar stefnu að lántakendur borgi lán sín til baka og sparendur séu tryggðir fullkomlega. Ef hér væru raunhæf ávöxtunarkjör þyrftum við hvorki sérstök lög um skyldusparnað né sérstök lög um dómvexti. Það er kjarni málsins. Ég fellst á það með flm. líka, vegna þess hvaða ríkisstj. situr í landinu, að það er ekki víst að þetta náist á allra næstu árum. Þess vegna eru dómvextir rétt mál. Þess vegna er þessi till. til þál. ekki aðeins rétt mál, heldur einnig réttlætismál.