14.04.1980
Sameinað þing: 43. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1874 í B-deild Alþingistíðinda. (1736)

108. mál, ávöxtun skyldusparnaðar

Guðmundur Bjarnason:

Herra forseti. Með till. þeirri til þál., sem hér er til umr., er sannarlega hreyft þörfu og nauðsynlegu máli. Framkvæmd ávöxtunar skyldusparnaðar ungs fólks er með öllu óhæf eins og henni er nú háttað og stjórnvöldum til vansæmdar að hafa ekki fyrir löngu gert bragarbót á.

Ungt fólk er skyldað til að leggja til hliðar 15% af launum sínum í því skyni að mynda varasjóð til íbúðarbygginga eða kaupa eða til bústofnunar í sveit, og er sá tilgangur bæði þarfur og góður. Í lögunum segir að fé þetta skuli ávaxta með 4% vöxtum og með viðbót samkv. kaupgjaldsvísitölu, og mætti því ætla að málum væri vel borgið og sparnaðurinn tryggður. En þegar málin eru skoðuð nánar kemur í ljós að framkvæmdin er meingölluð.

Í grg. með þáltill. eru þessi mál rakin og útskýrð svo ítarlega, jafnframt því sem 1. flm. till. hefur gert nánari grein fyrir málunum, að óþarft er að tefja tímann með því að fara um þessi mál öllu fleiri orðum. Þó get ég ekki stillt mig um að ítreka og benda á dæmið um skyldusparnað hátekjumanna og samanburðinn við skyldusparnað unga fólksins, sem sett er upp í grg., en þar er greint frá því, að ef einstaklingur leggur 2 millj. inn á skyldusparnaðarreikning með ávöxtun, sem nú gildir um skyldusparnað unga fólksins, á hann að fimm árum liðnum á reikningi sínum 8 millj. kr. Ef hátekjumaðurinn hins vegar, sem skyldaður er með skattalögum til að leggja 2 millj. kr. fyrir, lætur þær ávaxtast eftir þeim reglum, sem gilda um skyldusparnað hátekjumanna, á hann eftir fimm ár rúmar 15 millj. Ef höfuðstóllinn er dreginn frá er ávöxtunin í fyrra dæminu 6 millj., en í seinna dæminu 13 millj. Skattlagning hátekjumannsins er meira en tvöfalt betur ávöxtuð en skyldusparnaður unga fólksins. Hér hefur ríkið orðið sér úti um ódýrt lánsfé. Byggingarsjóður ríkisins hefur vissulega notið þess.

Ljóst er að þegar — ég segi: þegar, því það er óhjákvæmilegt — þessi framkvæmd ávöxtunar sparifjárins verður leiðrétt missir Byggingarsjóður ríkisins spón úr aski sinum og við því verður að bregðast á viðunandi hátt. Vissulega þarf Byggingarsjóðurinn á fjármagni að halda, en það réttlætir ekki margumrædda meðferð á þessu sparifé unga fólksins. Þetta er í raun skattlagning eins og nú er að málum staðið.

En það verða einnig aðrir en ríkissjóður sér úti um ódýrt lánsfé. Ég hef nýlega heyrt dæmi um að fyrirtæki nokkurt greiddi ungum námsmanni út það fé er það hafði af honum tekið í skyldusparnað í s. l. sumri. Fyrirtækið hafði ekki skilað fénu til réttra aðila, heldur notað sjálft í veltu sinni og greiddi það nú út með 4% vöxtum, en að sjálfsögðu án allrar verðtryggingar. Það er kannske ekki verra að fyrirtæki í atvinnulífinu njóti þessa ódýra lánsfjár en Byggingarsjóður ríkisins, en þetta er þó ljóst dæmi um það ástand sem ríkir í þessum málum.

Í frv. til l. um Húsnæðismálastofnun ríkisins, sem nú liggur fyrir Alþ., er ákvæði um skyldusparnað unga fólksins. Í umr. um frv. það í Ed. Alþ. 16. jan. s. l. ræddi ég lítils háttar um þessi mál, en í 70. gr. þess frv. segir, með leyfi forseta:

„Þegar sá, sem sparað hefur fé og lagt í sjóð samkv. 1. mgr. 69. gr., hefur náð 26 ára aldri eða stofnað til hjúskapar, verði það fyrr, kaupir eða byggir íbúð til eigin þarfa, skal hann eiga þess kost að fá endurgreitt sparifé sitt samkv. l. mgr. með sömu vöxtum og gilda á hverjum tíma fyrir lán samkv. 1. tölul. 10. gr., frá þeim tíma er það var lagt inn, að viðbættum verðbótum samkv. lánskjaravísitölu Seðlabanka Íslands samkv. 39. gr. laga nr. 13 frá 10. apríl 1979.“

Þetta var tilvitnun í frv. til 1. um Húsnæðismálastofnun ríkisins.

Lánskjaravísitala Seðlabankans er reiknuð mánaðarlega og ætti því að vera hægt að reikna út upphæð verðbóta á hverjum tíma í stað einu sinni á ári eins og nú er. En hér þarf að mínu mati að kveða nánar á um málsmeðferðina. Það er ekki nóg að það standi í lögum svona. Það þarf að gera betur grein fyrir hvort verðbætur eigi að leggjast við höfuðstólinn árlega og bera þar með vexti og verðbætur eins og skyldusparnaðurinn sjálfur eða hvort þær eigi áfram að liggja á biðreikningi vaxta- og bótalausar eins og nú er.

Í svari þáv. hæstv. félmrh. og núv. hv. 5. þm. Suðurl., sem reyndar kom inn á þessi mál nokkuð í umræðunum fyrr, segir svo, með leyfi forseta:

„Varðandi skyldusparnaðinn er það að segja, að það var rétt, sem hv. 5. þm. Norðurl., e. sagði, að haft hefur verið verulegt fé af ungmennum á undanförnum árum. Verðbæturnar eru reiknaðar út einu sinni á ári, í febrúar. Síðan eru þær settar á sérstakan reikning og ekkert verðbættar meira. Einungis grunnurinn er verðbættur. Við höfum þannig snuðað ungmennin um kannske helminginn af þeim vöxtum sem þau hefðu raunverulega átt að fá.

Þannig eru gömlu lögin. Það hefur verið látið reyna á þetta fyrir rétti og þessar reglur dæmdar löglegar, en þær eru langt frá því að vera eðlilegar.“

Síðan segir í þessari tilvitnun til orða fyrrv. hæstv. félmrh.:

„Það er tekinn af allur vafi um það í kaflanum um skyldusparnað, VI. kaflanum, að skyldusparnaður skuli vera verðtryggður eins og best er gert annars staðar. Það á ekki að vera neinn vafi á því í sjálfum kaflanum og í reglunum, að verðtryggingin á að vera eins og best er á verðtryggðum bréfum.“

Svarið felur í sér viljann til úrbóta, en mér finnst ákvæðin ekki vera nægjanlega ljós í frv. frekar en í eldri lögunum.

Frv. það um Húsnæðismálastofnun ríkisins, sem ég hef hér vitnað til, er nú til meðferðar í n., en ekki er enn þá ljóst hvenær þeirri umfjöllun lýkur né hvenær Alþ. tekst að afgreiða það sem lög, vegna umfangs þess og nauðsynjar á að það fái góða og vandaða meðferð. Því tel ég rétt að þessi þáltill. fái skjóta afgreiðslu og meðferð í þeirri von að án frekari tafar sé hægt að leiðrétta það ranglæti sem ungt fólk er beitt með núverandi aðferðum við útreikning verðbóta og ávöxtun fjár þess.

Þingreynsla kennir mönnum að sjálfsögðu ýmislegt og vera kann að till. til þál. sé marklaust plagg, en illt er, ef satt er, að allri vinnu og öllum tíma, sem fer í þáltill. á hæstv. Alþ., sé varið til einskis.