14.04.1980
Sameinað þing: 43. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1880 í B-deild Alþingistíðinda. (1739)

108. mál, ávöxtun skyldusparnaðar

Magnús H. Magnússon:

Herra forseti. Aðeins örfá orð í tilefni af seinni ræðu hv. 12. þm. Reykv.

Hann sagði að það hefði verið rangt af mér, og sagði að það jaðraði jafnvel við sýndarmennsku, að flétta tillögur um úrbætur í skyldusparnaðarmálum ungmenna inn í langan lagabálk um Húsnæðismálastofnun ríkisins sem krefðist ítarlegrar umfjöllunar og gæti því hæglega dregist á tanginn að næði samþykki hins háa Alþingis. Nú er það svo, að lög um skyldusparnað ungmenna hafa ávallt verið liður í lögum um Húsnæðismálastofnun ríkisins. Auk þess taldi ég mig hafa fulla tryggingu fyrir því frá þáv. samstarfsflokkum í ríkisstj. að frv. mitt til laga um Húsnæðismálastofnun ríkisins yrði samþ. á þessum vetri, m. ö. o. að enginn tími tapaðist við að hafa þennan hátt á.

Hv. 12. þm. Reykv. segir að í lögum um efnahagsmál o. fl., nr. 13 frá 1979, sé talað um heimildir til að setja reglur um lánskjaravísitölu og það á fleiri en einn veg. Það er laukrétt. Það, sem síðan hefur gerst, er einfaldlega að Seðlabankinn hefur lagt fram ákveðnar tillögur um lánskjaravísitölu og útreikning hennar, sem ríkisstj. hefur fyrirvaralaust samþ. Þar er m. a. kveðið á um að lánskjaravísitalan skuli reiknuð út í mánuði hverjum. Svo kemur hv. 12. þm. Reykv. og segir að ekkert sé því til fyrirstöðu að ákveða síðar að lánskjaravísitalan skuli reiknuð út einu sinni á ári. Ekki er nú traustið á ríkisstj. mikið.

Þessa dagana auglýsir Seðlabankinn í öllum fjölmiðlum sölu á ríkistryggðum skuldabréfum þar sem verðtryggingin er fólgin í lánskjaravísitölu Seðlabankans og lánskjaravísitölunni einni saman. Samkv. málflutningi hv. 12. þm. Reykv. er ekkert líklegra en að Seðlabankinn og ríkisstj. svíki allar þessar tryggingar og ákveði einhliða einn góðan veðurdag að nú skuli lánskjaravísitalan aðeins reiknuð út einu sinni á ári.

Ég held að enginn stjórnarandstæðingur láti sér detta í hug að núv. hæstv. ríkisstj. muni svíkjast þannig aftan að fólki. Því er furðulegt að stuðningsmaður stjórnarinnar skuli væna hana um þvílík vinnubrögð. Mér er spurn: Ef vænta má þess, að ríkisstj. svíki svo gjörsamlega fyrri samþykktir og fyrri loforð, þótt lögbundin séu, hvaða gagn er þá í því að samþ. þá þáltill. sem hér er til umr.?

Herra forseti. Ég er því miður hræddur um að samþykkt nýrra laga um Húsnæðismálastofnun ríkisins muni dragast úr hömlu, þrátt fyrir loforð í stjórnarsáttmálanum um annað. Af þeirri ástæðu og þeirri ástæðu einni mun ég greiða atkv. með þeirri þáltill. sem hér er til umr.