14.04.1980
Sameinað þing: 43. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1889 í B-deild Alþingistíðinda. (1743)

126. mál, launa- og kjaramál

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Hér er fram komin þáltill. um bætta skipan launa- og kjaramála. Andi þessarar till. er yfirleitt ekki deiluefni. Það er vafalaust öllum ljóst, að sú tilhögun að hafa 600–700 mismunandi launataxta er ekki byggð á neinum skynsamlegum rökum. Hins vegar vekur það athygli mína og dálitla undrun að hv. flm. og frsm. till. eyddi alllöngum tíma í að gera lítið úr annarri þáltill., sem hér er í þinginu og er komin frá n., eins og greint hefur verið, og hlaut þar jákvæðar undirtektir. Ég held nefnilega að það sé rétt, að efnislega nái sú þáltill. mestöllu af því sem hér er. Með því er ég ekki að gera lítið úr þessari till., en að mínu viti er um það mál að ræða í þessu sambandi að við búum við frjálsa kjarasamninga og það er tómt mál að tala um að við breytum þar einu eða neinu nema með samkomulagi. Ég held að grundvöllur slíks samkomulags hljóti að vera mjög veigamikil athugun á þessum málum áður en út í breytingar er farið. Þess vegna finnst mér t. d. dálítið fast að orði kveðið í 1. lið þessarar till. að slá því föstu að afnema eða draga úr álögum á kaup og aukagreiðslur. Það er nú einu sinni svo, að öll ákvæðisvinna byggist á mjög flóknum útreikningum. Ég veit ekki hvort þessi setning bætir tillöguna.

Hins vegar hvarflaði það að mér í glettni að gaman hefði verið ef hv. 6. landsk. þm. hefði verið staddur hjá okkur í kvöld, því að vafalaust hefðu þá orðið fjörugri umr., eins og löngum hefur orðið þegar hv. flm. þessarar þáltill. og hv. 6. landsk. þm. hafa mætt saman og rætt málin.