14.04.1980
Sameinað þing: 43. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1895 í B-deild Alþingistíðinda. (1750)

118. mál, eftirgjöf á ársfjórðungsgjaldi fyrir síma hjá elli- og örokulífeyrisþegum

Flm. (Guðrún Helgadóttir):

Herra forseti. Hér fyrr í dag urðu nokkrar umr. um hvort þáltill. væru marktæk plögg og hv. 9. þm. Reykv. fullyrti að svo væri ekki, þess vegna skyldu menn heldur bera fram frv.þar sem von væri til þess að þau væru tekin alvarlega. g hélt þá að þetta væri töluvert alvarleg ásökun á hendur hv. þingheimi, en ég sé nú að eitthvað virðist vera til í þessu. Alla vega er ekki að sjá að hv. þm. Sþ. hafi mikinn áhuga á þáltill. En ekki átti ég annan kost en að bera fram till. til þál. í því máli sem hér liggur fyrir á þskj. 196, þar sem þar er ekki um lagabreytingu að ræða, heldur framkvæmdaatriði. Ég treysti því hins vegar að það hafi meiri þunga að fá álit hv. þm. á máli mínu en taka upp síma og hringja í hæstv. samgrh.

Till. sú, sem hér liggur fyrir, hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að samgrh. feli Póst- og símamálastofnuninni að framkvæma reglugerð nr. 426/1978 um eftirgjöf á afnotagjaldi síma hjá elli- og örorkulífeyrisþegum á þann veg, að íbúar allra sérbyggðra íbúða fyrir aldraða og öryrkja njóti umræddrar niðurfellingar afnotagjalda, enda uppfylli þeir skilyrði reglugerðarinnar að öðru leyti.“ Á undanförnum árum hefur Reykjavíkurborg og fleiri sveitarfélög beitt sér fyrir byggingu íbúðarhúsa fyrir aldrað fólk. Einnig rekur Sjálfsbjörg slíka byggingu fyrir öryrkja, sem eru mikið fatlaðir, en annast sig að verulegu leyti sjálfir. Í Reykjavík eru nú fjögur hús sem í eru eingöngu íbúðir ætlaðar öldruðum. Í húsi Sjálfsbjargar og þremur húsanna fyrir aldraða hafa íbúarnir notið niðurfellingar afnotagjalds af síma, en nú hefur komið í ljós, að íbúar hins fjórða njóta ekki þessara hlunninda. Þetta hús er að Dalbraut 27, og eru þar bæði einstaklingsíbúðir og hjónaíbúðir. Ástæðan mun vera sú, að nokkru meiri þjónusta er í þessu húsi en hinum, en benda má á að íbúarnir greiða líka hærri húsaleigu þess vegna, eða 20 þús. kr. hærri leigu á mánuði.

Í öllum þessum húsum er auðvitað almenningssími til afnota fyrir íbúana. Sími er hins vegar svo mikilvægt tæki hinum öldruðu til að vera í sambandi við ættingja og vini, að almenningssími dugar þar ekki til. Þess vegna leggja hinir öldruðu mikla áherslu á að halda síma sínum þó að þeir flytjist í hús þar sem þeir búa við ákveðið öryggi, en flestir þeirra nutu þessara hlunninda hvort sem er áður í þeim íbúðum sem þeir bjuggu í. Þeir, sem einungis njóta tekjutryggingar til viðbótar ellilífeyri — og það er skilyrði fyrir niðurfellingunni — og búa að Dalbraut 27, eiga erfitt með að greiða símagjöld sín ekkert síður en áður.

Í reglugerð nr: 426/1978 er ekkert sem segir að þessi réttur skuli framkvæmdur á þennan veg. Skilyrði fyrir þessari niðurfellingu eru einungis þau, að maður njóti óskertrar tekjutryggingar til viðbótar við ellilífeyri sinn, búi einn í íbúð og ekki sé annar sími í íbúðinni. Þegar um er að ræða hjón skulu báðir aðilar njóta óskertrar tekjutryggingar.

Þar sem ekki hefur verið talið eðlilegt að sjúklingar á stofnunum hafi síma á sjúkrastofu njóta slíkir vistmenn ekki þessara réttinda og á það verður að teljast eðlilegt að fallast. Hins vegar er óumdeilanlegt að í þessu húsi sem og öðrum slíkum er um íbúð að ræða. Ég hygg að hv. þm. fallist á að íbúð sé einhver tala herbergja ásamt eldhúsi og baði. Í þessu húsi er óumdeilanlega um slíkar íbúðir að ræða. Eini munurinn á þessu húsi og öðrum slíkum, t. d. í Reykjavík, og ég hygg að slík hús rísi víðar á landinu, er raunverulega sá, að vistmenn eða íbúar borða eina máltíð á dag skilyrðislaust í sameiginlegu mötuneyti.

Ég hygg að óþarft sé að fjölyrða um slíkt sjálfsagt réttlætismál. Ég á vissulega þá von, að sá dagur rísi, og hef raunar leyft mér að leggja fram tillögu um það til endurskoðunarnefndar sem nú situr við að endurskoða lög um almannatryggingar, að allar ívilnanir öryrkjum og ellilífeyrisþegum til handa geti fallið niður og greiðsla til þessa fólks nái þeirri upphæð að það geti sjálft greitt þjónustu til jafns við aðra launþega í landinu, svo sem síma, afnotagjöld af útvarpi og sjónvarpi og annað slíkt. En á meðan almannatryggingabætur eru svo lágar, að vonlaust er að þeir, sem þeirra njóta, ráði við slíkar greiðslur, verðum við enn að hyggja að því að eitt verði látið yfir alla ganga með slíkar ívilnanir.

Ég treysti því, að við þurfum ekki að halda uppi löngu máli út af svo sjálfsögðu réttlætismáli, og vil treysta því, að hv. þm. greiði nú fyrir því að þetta mál fái fljóta afgreiðslu. Þessi litla till. er búin að liggja hér, að ég hygg, á áttundu viku. Íbúar þessa húss, sem munu vera liðlega 100 manns, bíða óþreyjufullir eftir að úr þessu verði skorið. Í trausti þess, að unnið verði skjótt og vel að lagfæringu, leyfi ég mér að leggja til að þessari till. verði vísað til hv. allshn. í von um fljóta og góða afgreiðslu.