14.04.1980
Sameinað þing: 43. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1896 í B-deild Alþingistíðinda. (1753)

118. mál, eftirgjöf á ársfjórðungsgjaldi fyrir síma hjá elli- og örokulífeyrisþegum

Flm. (Guðrún Helgadóttir):

Herra forseti. Ég þakka hv. 4. landsk. þm. fyrir stuðning við till. Ég vil leyfa mér að leiðrétta þann misskilning sem kom fram í máli þm. og kann að vera sjálfri mér að kenna, — ég satt að segja hljóp yfir í grg. til að stytta mál mitt, — en sannleikurinn er sá, að allir þeir elli- og örorkulífeyrisþegar, sem njóta óskertrar tekjutryggingar og búa einir, njóta þessara réttinda. Þess vegna er till. mín lögð fram, að þetta gamla fólk, sem nú flytur og flutti að Dalbraut 27, sem langsamlega flest er með óskerta tekjutryggingu og hefur búið eitt, hefur haft þessi réttindi, en þar sem Póstur og sími treystir sér ekki til þess að líta á þessar íbúðir öðruvísi en sem stofnun eða jafnvel sjúkrastofnun hefur enn ekki fengist viðurkennt að þetta fólk búi áfram eitt í íbúð eins og það hefur þegar gert og þess vegna hefur það misst þessi réttindi þegar það flutti símann yfir í Dalbraut 27. Það má segja að þetta sé framkvæmdaatriði sem leikur einn ætti að vera að fá leiðrétt með samþykkt ráðh. og í samráði við stofnunina. En þar sem það hefur dregist úr hömlu síðan í nóv. kaus ég að vekja athygli á þessu máli hér, eins og ég gat um áðan, í trausti þess, að eindreginn vilji þm. vegi það þungt að snarlega verði unnið að því að lagfæra þetta.