15.04.1980
Sameinað þing: 44. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1897 í B-deild Alþingistíðinda. (1756)

223. mál, íslenskukennsla í Ríkisútvarpinu

Fyrirspyrjandi (Lárus Jónsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja á þskj. 223 fsp. til hæstv. iðnrh. um staðarval næstu stórvirkjunar. Fsp. hljóðar þannig, með leyfi forseta:

„Hefur næstu stórvirkjun „utan eldvirkra svæða“ í raun verið valinn staður með orðalagi í grg. fjárlagafrv. um að 500 millj. kr., sem ráðstafa á til virkjunarrannsókna, skuli varið „að meginhluta á Austurlandi“?

Hversu langt eru rannsóknir á veg komnar varðandi Blönduvirkjun?“

Það er kunnara en frá þurfi að segja, að á undanförnum árum hefur staðið nokkur styrr um staðarval stórvirkjana í landinu, en þeim hefur öllum verið valinn staður á Þjórsársvæðinu, og undanfarið hafa verið nokkur blaðaskrif um að það væri hagkvæmast að halda áfram að virkja á því svæði. Í málefnasamningi ríkisstj. er þannig komist að orði, að það verður að skilja svo að næsta stórvirkjun skuli vera utan eldvirkra svæða, sem þýðir það í raun að næsta stórvirkjun verði þá ekki á Þjórsársvæðinu.

Síðan gerðist það, að í þriðju útgáfu fjárlagafrv. var orðalagi nokkuð breytt í aths. Þá var ákveðið að hækka fjáröflun til virkjunarrannsókna og jafnframt skotið inn í aths. að þessu fé skyldi að meginhluta varið á Austurlandi. Þess vegna er fsp. mín til hæstv. iðnrh., hvort með þessu orðalagi beri að skilja það svo, að næstu stórvirkjun hafi þar verið valinn staður í raun, og jafnframt þá að spyrjast fyrir um hversu rannsóknir séu á veg komnar varðandi Blönduvirkjun.